Varstu afvegaleiddur af Vegagerðinni? Líka: Örsigur fyrir heimilin og smá sýra.

Þegar rætt er um umhverfis og skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu þá er ágætt að kippa hausnum um stund út úr Gálgahrauni og skoða þessa mynd hér:

Frá Háusölum í Kópavogi í Hæðarsel eru 5.6 km. Eitt skýrasta dæmið um sýruna í skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu. Eitrað samband landamæra, bæjarstjórna og Vegagerðar sem leggur ,,stofnbrautirnar".

Frá Háusölum í Kópavogi í Hæðarsel í Breiðholti eru 5.6 km. Göngufjarlægð eru 50 metrar en lengst af hefur enginn göngustígur tengt hverfin. Eitt skýrasta dæmið um sýruna í skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu. Eitrað samband tilviljanakenndra landamæra og bæjarstjórna í smákóngaleik.

Hér er dæmi um tvö samfélög, í þessu tilfelli Seljahverfi og Salahverfi. Ef mannfræðingur skoðaði skipulagið myndi hann halda að þetta væri stríðshrjáð svæði, aðskilið með einskismannslandi eins og Belfast, Palestína eða Berlín. En svo er ekki, þarna er ósýnilegur fjallgarður, hærri en Everest sem aðeins stjórnmálamenn sjá: sveitarfélags og kjördæmamörk. Þess vegna er 5.6 kílómetra akstur á milli hverfa – sem eru landfræðilega í 50 metra fjarlægð frá hvort öðru. Þarna búa afar og ömmur í 5km fjarlægð frá barnabörnum sínum og gjalda þess á hverjum degi að Gunnar Birgisson gat ekki talað við Ingibjörgu Sólrúnu. Skipulagið virðist miðast að því að lama samskipti og samgang milli hverfanna. Þetta er smákóngaskipulag sem þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að halda fólki innan girðingar, innan ,,lénsins“ – kannski í von um að fólk fari Smáralind fremur en Mjóddina. 

Skipulag af þessu tagi rýrir heilsu okkar, skapar stress og óhagkvæmni í daglegu lífi, eyðir tíma okkar og umhverfisgæði, minnkar fjölbreytni hvað varðar val á leikskólum, grunnskólum og tómstundum. Svona skipulag íþyngir jafnvel fólki sem býr í svokölluðum ,,heimilum“. Þetta er frábært dæmi um hvernig skattfé okkar er sóað í allt of flókna og dýra innviði. Dýr holræsi, dýra vegi, dýrar opinberar byggingar og óhentugar og óhagkvæmar almenningssamgöngur. 

Vegagerðin spilar hér mikilvægt hlutverk, hún skapar óeðlilega hvata fyrir lélegt skipulag á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hafa veghönnuðir sagt mér sjálfir. Ríkið borgar fyrir stofnvegi sem eru gamaldags og dýr mannvirki sem ýmist skera sundur hverfi eða tengja frá hvort öðru. Sveitarfélögin skynja sig sem eylönd, nærliggjandi sveitarfélög eru jafnvel ekki merkt inn á kort hjá þeim sem hanga uppi á vegg. Hönnuður Salahverfis virðist hafa litið á íbúa Seljahverfis sem hvert annað Huldufólk. Skipulag eins og sést á myndinni hér fyrir ofan ætti aldrei að samrýmast ,,stöðlum“ neinnar stofnunar.

Aftur í Gálgahraun: 

Í úrskurði Innanríkisráðherra um Álftansesveg voru tilmæli til Bæjarstjórnar Garðabæjar og Vegagerðar um að hafa samráð við Hraunavini og finna viðundandi lausn á deilum um Gálgahraun. Þessir aðilar hafa nú samið plagg án samráðs þar sem þeir dæma í eigin sök. Þeir komast að því að framkvæmdin sé ekki aðeins skynsamleg, heldur óhjákvæmileg. Engir aðrir kostir eru í boði. Þrátt fyrir hálftóm hverfi um alla borg er vegurinn nauðsynlegur út frá þessum forsendum:

,,Í matsskýrslunum er gert ráð fyrir að fjöldi íbúa á Garðaholti verði 5 – 7.000 og umferð árið 2024 verði 18 – 22.000 bílar á sólarhring árið 2024.“

Garðaholtið er svæðið sunnanmegin a Álftanesi allt til Hafnarfjarðar. Þessa fullyrðingu setja menn fram blygðunarlaust þrátt fyrir að veruleikinn sé sá að fyrst þarf að fylla tómu hverfin á höfuðborgarsvæðinu. Það má síðan gagnrýna þetta markmið almennt. Þeir sem sitja fastir í morgunumferð við Kópavogslæk eða í Fossvogsdal eru eflaust ekki á því að 15.000 bílar til viðbótar ,,auki lífsgæði þeirra“. Vegagerðin gerir óhikað ráð fyrir aukningu umferðar í höfuðborginni um alla framtíð – hún er sett fram í matskýrslum sem ,,jákvæð byggðaþróun“.

En gagnrýnin var ekki til einskis fyrir ,,heimilin í landinu“. Vegna þess að Vegagerðin hefur komist að því að einhver hluti gagnrýninnar var rættmætur. Hún snýr að þessari gulu flækju hér fyrir neðan:

Eins og hér má sjá hefur vegagerðin hannað umfangsmikil mislæg gatnamót og slaufur - sem taka meira landrými en gatnamótin þar sem tugþúsundir bíla fara um daglega.

Eins og hér má sjá hefur vegagerðin hannað umfangsmikil mislæg gatnamót og slaufur – sem taka meira landrými en gatnamótin þar sem tugþúsundir bíla fara um daglega.

Bæjarstjórinn og Vegagerðin komast nefnilega að þessari niðurstöðu:

,,Þó hafa verið gerðar athugasemdir við mislæg gatnamót og að vegslaufur eyðileggi hraunbrúnina að austanverðu, auk þess sem það sé dýr framkvæmd. Garðabær og Vegagerðin munu í tilefni af því kanna og stefna að því að þar komi hringtorg og undirgöng fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur í stað mislægra gatnamóta, enda hafi það ekki áhrif á framkvæmdina að öðru leyti.“

Þessar fáu línur eru sigur fyrir heimilin í landinu. Þarna sparast strax meira en 100 milljónir króna af þeim rúma miljjarði sem vegurinn kostar. Hvert einasta heimili á landinu sparar sér þar heilar þúsund krónur. Til að setja upphæðina í samhengi þá gætum við gefið öllum þeim 4000 börnum sem útskrifast úr grunnskólum landsins bækurnar Íslenskir Jöklar eftir Helga Björnsson og Fugla í Náttúru Íslands eftir Guðmund Pál Ólafsson (miðað við magnafslátt):

Fuglar og jöklar

Þetta sannar nauðsyn þess að opinberum aðilum sé sýnt aðhald.

Uppbyggingu í Garðaholti verður síðan að setja í víðara samhengi. Hvernig verður hverfið skipulagt? Verður það alveg ótengt Hafnarfirði – á sama hátt og hinir stríðshrjáðu íbúar Selja og Salahverfis búa í sitthvorri heimsálfunni? Er vegurinn hannaður til að beina fólki frá miðbæ Hafnarfjarðar? Er ekki líklegt að sameinaður Hafnarfjörður og Garðabær myndu skipuleggja Garðaholtið á annan hátt en Garðabær myndi gera einn og sér? Er Vegagerðin eða ríkið – eða við – enn einu sinni að styrkja vanhugsað skipulag?

Túrbínutrixið í Gálgahrauni

En nú kemur túrbínutrixið. Óviss og enn óskipulögð uppbygging á Garðaholti er forsenda vegarins gegnum Gálgahraun. Það vill hins vegar svo einkennilega til að fyrirhugaður vegur hefur enga eðlilega tengingu við Garðaholtið. Til þess að tengja Garðaholtið við veginn – þarf enn og aftur að fara gegnum hraunið. Álftanesvegurinn á þessum myndum frá Vegagerðinni sýnir aðeins FYRRI áfanga vegarins.

Eins og sjá má eru hér fyrirhuguð önnur mislæg gatnamót - sem mætti auðveldlega leysa fyrir brot af kostnaðarverði með hringtorgi.

Sé vegurinn skoðaður á korti er augljóst að menn þurfa að viðhalda gamla Álftanesveginum áfram með tilheyrandi kostnaði. Síðan þarf að leggja annan veg þvert gegnum hraunið.

Til að tengja byggð á Garðaholti við veginn þarf að leggja aðra þvergötu, samanber myndina hér fyrir neðan. Hér er hrauninu skipt í fjóra búta. Þessi bútaskipting er til samræmis við aðalskipulag Garðabæjar og ,,friðun“ Gálgahrauns. Ég birti þessa mynd á vefsíðu minni á sínum tíma til þess að fólk skildi hvað væri í húfi.

603796_4558414243232_765750293_n

Upplýsingafulltrúi vegagerðarinnar benti mér hins vegar á að þessi mynd væri ekki rétt. Vegurinn sem er verið að byggja væri þessi hér:

384182_10151163765302512_2134408800_n

En nú segir Vegagerðin og Garðabær að FORSENDA vegarins séu þúsundir bíla sem þurfa að komast inn á veginn frá Garðaholti. Vegur þaðan myndi þvera hraunið enn einu sinni og hann kostar einhver hundruð milljóna til viðbótar.

Við lestur greinar Vegamálastjóra verð ég því að segja að mér finnst eins og ég hafi verið afvegaleiddur af Vegagerðinni. Forsenda vegarins er umferð sem kemst ekki inn á veginn nema gegnum veg sem ekki til umræðu núna. En sá vegur er kannski ekki á forræði Vegagerðar enda tengir hann ekki saman ,,sveitarfélög“ heldur Garðabæ við Garðabæ – og telst því væntanlega innanbæjarvegur. Hér sjáum við enn eitt dæmið um skipulagssýruna á höfuðborgarsvæðinu. Þar sem vel menntað fólk sóar hæfileikum sínum og tíma og almenningur sturtar peningum út um gluggann, í þessu tilfelli með þeim afleiðingum að fallegu hrauni er spillt í leiðinni.

Gálgahraun og veglagning í því samkvæmt deiliskipulagi Garðabær.

Gálgahraun og veglagning í því samkvæmt deiliskipulagi Garðabæjar. Vegagerðin hefur afvegaleitt fólk með því að sýna ekki þvertengingar sem eru forsenda vegarins samkvæmt úrskurði Vegamálastjóra og Bæjarstjórans í Garðabæ. Heildarkostnaður er mun meiri auk skemmda á hrauninu. Það má því segja að sú mynd sem er kynnt almenningi – sé annaðhvort óvart röng – eða meðvituð blekking.

Ég tel að menn þurfi að fara að ræða vandlega um siðferði opinberra aðila og hvort Ísland eigi yfirleitt að fúnkera sem samfélag. Það verður að ræða um túrbínutrixin og það sem ég verð því miður að kalla – kerfisbundinn óheiðarleika þegar miikilsverðum upplýsingum er haldið frá umræðunni. Menn fjalla ekki um heildarmynd eða heildarkostnað, hvað þá heildarsamhengi hlutanna og skammta fólki veruleikann með teskeið. En heildarmyndin er hér fyrir ofan, svona er deiliskipulagið.  Rætt hefur verið um að falla frá hluta krosstengingarinnar – en án þvertengingar við Garðaholt bresta forsendur vegarins. Kortin sem Vegagerðin notar eru því beinlínis blekkjandi og röng, því þau sýna ekki grunnforsendur vegarins. En ekki nóg með það – gamla veginn þarf að viðhalda um ókomna framtíð vegna þess að vegurinn úti í hrauni er gagnslaus nema til gegnumaksturs.

Þannig að staðan er þessi:

1. Gagnrýni Hraunavina hefur þegar sparað þig lesandi góður 100 milljónir með því að hringtorg verður byggt í stað mislægra gatnamóta.

2. Með því að halda ekki uppi tveimur Álftanesvegum sparast enn meira fé.

3.  Með því að nýta gamla veginn og nýta reynslu af Sóleyjargötu, Langholtsvegi, Skeiðarvogi og nýjustu hugmyndum í borgarfræðum (Sigmundur!) getur heildarsparnaður numið um það bil 800 milljónum króna.

4. Með því að hlífa hrauninu varðveitum við mikil náttúruverðmæti, möguleika fólks til útiveru og þroska og þunglyndi sem fólk mun upplifa ef enn ein náttúruperlan er eyðilögð að óþörfu.

5. Ef við sameinum sveitarfélög getum við smám saman læknað borgina af þeim skaða sem berlínarmúrar smákónga hafa valdið. Garðaholt ætti alls ekki að vera skipulagt nema í samhengi og sameingu við Hafnarfjörð.

Greinin er ekki hugsuð sem stríðyfirlýsing við Vegagerðina eða Garðabæ. Gagnrýni er ókeypis ráðgjöf, hún hefur þegar sparað hundrað milljónir en það eru 900 milljónir í pottinum. Þeir sem hanna innviði okkar eiga að vera stoltir af sínum verkum og sinni borg og þeir eiga aldrei að taka þátt í vitleysu eins og efsta myndin ber með sér – og vegurinn gegnum Gálgahraun. Ég hef fyrir satt að margir sem koma nálægt þessu verki skilja alls ekki rökin bak við það.

Sigmundur Davíð og Hanna Birna velkomin til starfa – boltinn er hjá ykkur.