Hvernig lýsti þetta sér?
Já þetta var einhvernveginn þannig að ég var að sörfa á netinu og þá hljómaði lag frá 2002 og ég varð gripinn ofsalegri dejavú tilfinningu svo ég henti niður smá steypu í fljótheitum. Æ þú veist eins og maður gerir stundum í bréfum til vina sinna. Að skella sér í karakter og skella fram góðri bunu.
Hvernig var bunan?
Einhvernveginn svona:
,,Ég kaus Framsókn vegna þess að mér var lofað 100% láni og hlustaði ekki á viðvaranir um ofþenslu á sama tíma og Kárahnjúkar voru í byggingu en þegar kerfið hrundi kaus ég Framsókn til að lækka lánið sem ég tók þrátt fyrir aðvaranir því það á að sækja 300 milljarða til útlendra sílamáfa og láta mig fá þá beint í vasann í staðinn fyrir að borga skuldir ríkissjóðs þótt viðskiptahallinn aukist þegar ég sólunda aurnum núna fyrirfram en það má sprengja upp krónuna tímabundið með ati í Helguvík og ef ég missi húsið í því hruni þá get ég kosið Framsókn út á lolololoforð um 100% lán og … ehh að vera Íslendingur er eins og að eiga þroskaheftan síamstvíbura.“
Hvað ertu að hugsa? Af hverju skrifarðu svona lagað? Viltu ekki laga skuldir heimilanna? Af hvað með afa þinn sem var í 9. sæti á lista Framsóknar árið 1967? Þú ert með Framsóknarblóð!
Auðvitað eru þessi skuldamál óþolandi. Öll mín kynslóð er í ruglinu. Og auðvitað finnst mér þeir sem kusu D eða B ekki heimskari en þeir sem kusu annað. Margir bestu vinir mínir gerðu það. En mér finnst við lifa í hringavitleysu. Það er eins og margir trúi í alvöru að til séu stjórnmálamenn sem geta bara galdrað fram gott ástand á nokkrum misserum. Að það sé hægt að kjósa um að ,,fá meiri pening“. Ég bara þoli ekki þessi loforð og skyndilausnir. Það væri frábært ef eitthvað næst frá vogunarsjóðunum en ég er hræddur um að eina lausnin verði að kveikja á heróínhagkerfinu. Sjáðu þetta! Við erum stundum svo tryllt, mér líður eins og það sé verið að setja okkur upp í rússíbana og svo er bara ýtt á takkann og ætt af stað. Helguvík var ekki kosningamál. Það er eins og heimilin og skuldirnar hafi bara verið leiktjöld. Þetta er svo mikill sirkus. Við gerum sömu mistökin aftur og aftur.
En þú talaðir ekki um rússíbana. Þú talaðir um Síamstvíbura.
Jú myndhverfingin er að manni líður eins maður sé fastur við einhvern sem bara hleypur af stað, einhverskonar stjórnleysistilfinning, að það verði bara fulla ferð áfram á næsta vegg, alveg sama hvaða rökum er beitt.
En þroskaheftur! Maður segir ekki svona. Þú vilt láta taka mark á þér, ekki skipa þér í lið, ekki nota níðrandi orð.
Nei, ég veit það. Þetta er vont orðalag, valið í glannaskap og fljótfærni. Ég átti ekki við raunverulega fötlun heldur í hinni alþekktu slangurmerkingu, þegar einhver sem maður þekkir hagar sér eins og kjáni. Greinin var í slangurkenndum flæðistíl. Það er misjafnt hvernig menn skynja orð. Ég er auðvitað að tala um manneskjur sem ættu að vera með fullan þroska en læra ekki af reynslunni – að þroski þeirra sé heftur, að menn falla sífellt fyrir sömu gylliboðunum. Við förum hring eftir hring, hlaupum aftur og aftur á sama vegginn.
Það gefur þér ekki veiðileyfi á fatlaða. Þú verður að axla ábyrgð. Þú fóðraðir gullfiskana í kommentakerfinu.
Mér sýnist þetta vera píranafiskar. Mér finnst leiðinlegt ef einhver sem ég þekki eða þekki ekki hefur orðið raunverulega sár. Ég bið þá sem tóku þessu illa auðvitað innilega afsökunar. Ég held að nokkrir hafi tekið þetta mjög nærri sér. Þeir sem gerðu það ekki ættu að nota orð og netið varlega. Netið er tundurskeyti, stórhættuleg hættulegt, þú færð hugdettu, hripar hana niður og sendir eitthvað af stað en getur ekki látið það snúa til baka. Þú ert ekki lengur með kontról, það er oft fremur slæmur samskiptamiðill. Síamstvíbura hugmyndin hefði verið skárri með drykkfelldan síamstvíbura. Það væri meira í áttina, að drattast með hálfdauðan helminginn af sér, laga til, sópa gólfið og finna hvernig víman smitast yfir með blóðrásinni, til þess eins að hann fái sér sjúss daginn eftir, taki völdin en þú situr eftir með þynnkuna. Það var meiningin með orðavalinu. Svo hefði mátt sleppa þessu alveg. Eða hætta á netinu. Allir ættu að fá sér þetta forrit: http://selfcontrolapp.com/
Sniðugt forrit. En segðu mér meira frá þessari tilfinningu. Hvernig eru þið samfastir?
Hverjir?
Þú og ímyndaði síamstvíburinn þinn. Mér finnst þetta athyglisvert hugarástand. Deilið þið einhverjum líffærum?
Ég hafði ekki hugsað út í það. En ég held að við séum með sama hjartað. Það er vandinn. Það væri hægt að skera annan okkar af en það er ekki hægt að skera okkur í sundur.
Bakvísun: Þroskahefti síamstvíburinn og vanskapaða Barbie dúkkan | Freyja