Um daginn skrifaði Guðbjört Geirsdóttir afar greinargott og fallegt bréf til Sigurðar Inga sem fer með náttúruverndarmál í nýrri Ríkisstjórn. Samál kveðst hafa fundið í þeirri grein nokkrar staðreyndarvillur sem breyta þó ekki meginefni greinarinnar. Alcoa er metið í ruslflokki sem gæti haft alvarleg áhrif á stöðu orkufyrirtækja á Íslandi og þá áhættu sem þjóðin tekur með því að selja þessum iðnaði alla 90% orkuframleiðslunnar. Ég hvet fólk til að lesa grein Guðbjartar en ég verð að fá að leiðrétta ákveðinn misskiling í þessu nafnlausa svari Samáls. Í 10. grein segir Samál:
,,10. Höfundur vísar einnig í skrif Andra Snæs Magnasonar þar sem spurt er hvaðan 5700 ný störf hafi komið frá árinu 2011, – á tímum þegar nánast engar álvers eða virkjunarframkvæmdir hafa farið fram. Í því sambandi má benda á að um 4500 manns eru í störfum sem eru að hluta eða öllu leiti greidd niður af Vinnumálastofnun.“
Hluta af yfirlýsingunni má finna hér í Morgunblaðinu. Ég byggði mínar upplýsingar á tölfræði frá Datamarket sem sótti gögnin á Hagstofuna sem sundurgreinir ekki hvaðan störfin koma og því trúði ég eitt augnablik þessum upplýsingum frá Samáli. Ég varð auðvitað fyrir all nokkrum vonbrigðum. Íslenskt samfélag var þá ekki jafn sjálfbjarga og skapandi og ég hafði viljað trúa.
Ég hringdi í Vinnumálastofnun og komst að því að þessi staðhæfing um 4500 niðurgreidd störf er sem betur fer röng. Sannleikurinn er sá að nú í apríl voru 1340 manns í átaksverkefnum á vegum Vinnumálastofnunar – en viðmiðunarár mitt sem var 2011 voru um 500 manns í svipuðum verkefnum í aprílmánuði.
Þetta eru þær tölur sem ég miða við þegar ég tala um fjölgun starfa á vinnumarkaði.
Menn mega ráða hvort þeir horfa á 4800 störf eða 5700. Ég myndi kjósa hina síðarnefndu enda hef ég unnið með fólki á slíkum samningi frá Vinnumálastofnun og séð hvílík kraftaverk gerast þegar fólk er leyst úr viðjum atvinnuleysis.
Nú gæti ég reynt að gera lítið úr þeim og notað orð eins og ,,vanþekking“ eða ,,þekkingarleysi“ en ég nenni því ekki. Þeir punduðu hins vegar þessum orðum á Guðbjörtu – sem virðist lifa góðu lífi í New York í góðu starfi með ágæta yfirsýn yfir veröldina – en óttast að við séum að leggja land, orku og fjármagn í atvinnugrein sem er metin í ruslflokki.
En þetta sannar kjarna málsins í minni grein. Samál (Norðurál, Alcoa, Rio Tinto) er í þeirri furðulegu aðstöðu að félaginu virðist standa ógn af málflutningi um að þjóðin sé bara all nokkuð skapandi og sjálfbjarga, að hún eigi fjölbreytt tækifæri og valmöguleika, að þúsundir starfa geti orðið til á sama tíma og engar álvers og virkjunarframkvæmdir hafa farið fram. Þegar Samál gerir lítið úr þessum sköpunarkrafti finnst mér menn komnir ansi nærri andlegri nýlendustefnu. Ég sá í kommentakerfum að það hlakkaði í fólki þegar Samál reyndi að sýna fram á störfin 5800 væru bara atvinnubótavinna. Að eina mótvægið við skuldsetningu og eyðileggingu verðmæta sé að tína ,,fjallagrös.“ Enn og aftur hvet ég til umræðu um þetta mál: Hvaðan komu öll þessi störf á miðjum alþjóðlegum krepputímum frá árinu 2011? Hvar er verksmiðjan?
Svarið er eflaust flókið – en sjávarútvegur hefur gengið býsna vel síðustu ár, ferðaþjónusta hefur blómstrað og nýsköpun hefur einnig fengið gott púst. Vinnumálastofnun og aðrir hafa síðan komið fólki inn í allar greinar atvinnulífsins með ýmsum átaksverkefnum. Með tímabundinni aðstoð hafa lítil og meðalstór fyrirtæki – sem er burðurinn í Íslensku atvinnulífi, tekið við þúsundum manna án þess að það sé jafn augljóst og þegar borði er klipptur á einni risaverksmiðju. Og það er aftur mergur málsins. Það er hvernig við skynjum stærð og mikilvægi fyrirtækja og vanmetum raunverulegan styrk í þéttriðnu neti af smáum fyrirtækjum.
Hvað sem öllu líður þá er það afar djúp sannfæring hjá mér að leiðin út úr vandanum er að nýta allt betur sem við höfum nú þegar byggt upp og fá eðlilega auðlindarentu af auðlindum okkar. Að láta orkufyrirtækin borga skuldir sínar að fullu og greiða síðan arð til þjóðarinnar af því sem við höfum þegar sætt okkur við að nýta eða fórna, væntanlega í okkar eigin þágu. Við getum nýtt ferðamenn betur, borgarlandið og samgöngukerfið, nýtt landbúnaðinn, nýtt fiskinn, nýtt álið sem er hér í klumpum og þjóðin á að fá eðlilegan skerf af sérleyfum manna til að nýta fiskinn. Eini flöskuhálsinn fyrir vöxt hátæknifyrirtækja er menntastig þjóðarinnar. 5800 störf á krepputímum finnst mér bara býsna góður árangur – miðað við ruglið sem maður sér í nágrannalöndunum.
Af meiri ,,vanþekkingu“ Samáls.
Varðandi önnur mál þá talar Samál um gosdósir sem umhverfisvænar umbúðir. Ég fletti upp vefsíðu EPA og fann þessar upplýsingar:
- Americans discarded about 2.7 million tons of aluminum. The largest source of aluminum in the MSW stream is used beverage containers and other packaging containers.
- In 2010, 50 percent of aluminum beer and soft drink containers generated were recycled (about 0.7 million tons).
Ameríkanar henda í ruslið um 2.7 milljónum tonna af áli árlega. Umreiknað í orku eru það c.a 8 álver eða 8 Kárahnjúkavirkjanir. 2.7 milljón tonn myndu duga til að virkja allt sem virkjanlegt er á Íslandi.
Aðeins í gosdósum fara um það bil 700.000 tonn í ruslið árlega í USA. Það er eins og allur almennur flugfloti Bandaríkjanna væri urðaður – fjórum sinnum á ári. Hvernig getur slík sóun átt sér stað? Jú – SAMÁL er víða, gáfaðir menn lána líkama sinn og sál hagsmunasamtökum sem eru til í að tala fyrir öllum andskotanum. Hvort sem það er gegn eldsneytissparnaði, með tóbaki eða gegn því að skilagjald sé sett á dósir svo fólk nenni að flokka þær og skila. Það eitt myndi spara ómælda orku og umhverfisfórnir. Það væri hreinlega sjálfsögð kurteisi við þá sem munu erfa jörðina.
SAMÁL hrekur ekki þá staðreynd að Alcoa er komið í ruslflokk og meginröksemd Guðbjartar að Ísland taki gríðarlega áhættu með því að leggja land okkar, orku og takmarkaða fjárfestingargetu í einn málm. Ég hef fengið keimlík bréf frá áhyggjufullum Íslendingum sem starfa erlendis og fylgjast með þróun heimsmálai.
Það sem verður að teljast sorglegast er sú staðreynd að Samáli virðist annt um að fólk hafi ekki trú á eigin getu, að fólk hafi áfram trú á að störf verði aðeins til gegnum miðstýrðar ríkisstyrktar stórframkvæmdir. Svo rammt kveður að þessu að það er orðið ,,vinstri“ á Íslandi að tala um nýsköpun og venjulegan kapítalisma og nýsköpun. SUS hefur jafnvel neyðst til að spyrna við fótum:
Opið bréf til hægrimanna: Hættum stóriðjustefnunni
Svo koma umdeildir þingmenn og tala um útflutningstekjur – eins og sú tala hafi nokkuð með það að segja um hvað raunverulega verður eftir í landinu? En til hamingju Ísland: Þú skapaðir 5800 störf, hvernig fórstu að því? Bara örfáir að tína fjallagrös.
En nú er heilinn aftur fullur af bulli sem ég hélt að ég gæti sett endanlega í ruslflokkinn. Ég ætla ekki að svara svari við svarbréfi. Ég er að ljúka við skemmtilegt ævintýri. Ég hef ekki tíma til að standa í ritdeilu. Áður en þið hættið lestrinum mæli ég með hugarhreinsun. Lokaðu augunum. (Nei, hafðu þau opin, annars geturðu ekki lesið það sem fram fer á eftir):
Hugsaðu um þörunga. Rifjaðu upp hvað besti vinur þinn hét þegar þú varst fimm ára. Hvað gætirðu sagt við ástina þína í kvöld sem kemur henni á óvart? Hver var landsframleiðslan árið 1945, 65, 85, 2005? Hvernig leið þér þá? Um hvað hugsa apar þegar það er rigning? Hvernig verður síminn þinn eftir 10 ár? Hvað búa margir í Nýju Gíneu. Hvernig ratar krían til Suður – Afríku?