Hvaðan komu 5700 störf frá 2011?

Ég var að skoða þetta línurit hér hjá Datamarket til að átta mig á ,,hjólum atvinnulífsins“.

Starfandi á vinnumarkaði 2003 - 2013. Fyrsti ársfjórðungur 2011: 162.200. Fyrsti ársfjórðungur 2013: 167.900.

Starfandi á vinnumarkaði 2003 – 2013. Fyrsti ársfjórðungur 2011: 162.200. Fyrsti ársfjórðungur 2013: 167.900.

http://data.is/10yEm47

Hér má sjá að fjölda starfandi á íslenskum vinnumarkaði frá fyrsta ársfjórðungi 2011 til fyrsta ársfjórðungs 2013. Talan hækkar úr 162.200 í 167.900 eða sem nemur 5700 störfum. Það er mikilvægt að halda þessu til haga nú þegar menn tala um að ,,koma hjólum atvinnulífsins í gang.“. Þessi störf urðu til í fremur óhagstæðu umhverfi skömmu eftir að ákveðnir menn keyrðu samfélagið nánast fram af brúninni. Þessi 5700 störf eru eins og störf í tíu álverum og þau urðu til á tveimur árum – á tímum þegar nánast engar álvers eða virkjunarframkvæmdir hafa farið fram.

Núna virðist ný ríkisstjórn vilja skuldsetja opinber orkufyrirtæki, auka loftmengun á höfuðborgarsvæðinu og spilla náttúrugersemum til að ,,skapa störf“. Núna á að hertaka umræðuna næstu misseri og ár og valda illvígum deilum í samfélaginu. Það á að drífa í að breyta Rammaætlun í þágu skuldsetningar fyrir álverið í Helguvík. Það er engu líkara en að Century Aluminum hafi heilt þing og ríkisstjórn í vinnu við að redda sér aðgangi að ódýrum auðlindum. Ef þeim tekst það – verða störfin innan skekkjumarka í árstíðasveiflu á Íslenskum vinnumarkaði.

Álverksmiðjan mun ekki hafa afgerandi áhrif á þjóðarhag, líklega munu framkvæmdir skapa illkynja hagvöxt sem eykur viðskiptahallann þegar við eyðum gróðanum fyrirfram. Skatttekjum verður komið í skattaskjól en greiðslan fyrir orkuna fer úr landi til að greiða niður skuldir orkufyrirtækja. Með einu álveri til viðbótar er áhætta opinberra fyrirtækja orðin gríðarleg. HS Orka er einkafyrirtæki og hefur ekki áhuga á samningum við Century Aluminum. Líklega þurfa stjórnvöld að ríkisstyrkja verkefnið upp á nokkur þúsund mannár ef það á að fara í gang. Um 3000 manns gætu fengið vinnu við að byggja raflínur, stíflur og verksmiðjuna, til þess eins að standa uppi verkefnalausir þegar hún opnar. Þá verður strax rætt um að koma næstu framkvæmd í gang. Þetta er heróínhagkerfið í hnotskurn. Um leið og verksmiðjan fer í gang þarf að redda næsta fixi. Álverið í Helguvík mun aðeins trufla vinnumarkaðinn með því að stela tímabundið hæfu vinnuafli frá öðrum geirum atvinnulífsins, fyrir skammtímaframkvæmd.

Hrunið leiddi í ljós afar merkilegan sköpunarkraft í samfélaginu. Það er staðreynd að stórframkvæmdir eða ríkjandi atvinnugreinar ,,skapa“ ekki öll störfin sem verða til. Þær flytja fólk til í hagkerfinu, ruðningsáhrif slíkra framkvæmda eru skaðleg þegar þær draga mikinn fjölda fólks úr stöðugum atvinnugreinum og beina þeim í átt að tímabundnum og ósjálfbærum verkefnum. Hjalli skrifar hér um nýsköpun síðustu ára sem fór fram gegnum Hugmyndaráðuneytið:

http://hjalli.com/2013/05/26/af-einhverju-odru-en-ali/

Grípum hér niður í væna sneið úr greininni:

,,Meðal þeirra sem ég man eftir á þessum fundum er fólk sem tengist fyrirtækjum eins og OZClara,GogogicDataMarket (hvar ég starfa), MobilitusTransmitMenigaCarbon Recycling International,Fafu ToysPlain Vanilla, Belgingi / SAR WeatherBúngalóGogoyokoGreenQloudDohop,KinwinsReykjavík RunwayGrapewireKarolina FundCitizens FoundationKosmos & Kaos,GagarínKerfisvirkniControlantSprettiFlaumiLocatifyAponCoooriMindgamesSkemu /ReKodeGolf80App DynamicReMake Electric og Ými Mobile. Ég er áreiðanlega að gleyma mörgum. Langflest þessi fyrirtæki voru annað hvort að stíga sín fyrstu skref á þessum tíma, eða hafa verið stofnuð síðan. Þá er ótalið fólk sem þarna var frá eldri og stærri fyrirtækjum sem þó stunda öll nýsköpunarstarfsemi svo sem MarorkuCCP og Hugsmiðjunni – en ég undanskil þau í því sem á eftir fer.

Gengi þessarra fyrirtækja hefur verið upp og ofan og sum þeirra eru ekki einu sinni lengur “meðal vor”. Þannig gangur nýsköpun og sprotastarfsemi fyrir sig. Það merkilega er hins vegar að gróflega telst mér til að hjá þessum fyrirtækjum starfi í dag að minnsta kosti 250 manns. Tölur um veltu og afkomu liggja ekki vel fyrir, en bara hjá þeim þessarra fyrirtækja sem ég þekki til hjá veit ég af bókaðri sölu eða fjárfestingu á þessu ári upp á meira en 3 milljarða króna, nær allt í erlendum gjaldeyri. Rétt tala er líklega nær 4 milljörðum ef ég reyni að giska í eyðurnar – og árið þó ekki hálfnað. Ef ég væri í pólitík myndi ég svo tala um “afleidd störf” og margfeldisáhrif og kæmist vafalaust mikið hærra.“ Tilvitnun lokið.

Örlagaárið 1997

Þetta minnir mig á samtal við jafnaldra minn og nýútskrifaðan verkfræðing frá árinu 1997, rétt áður en Finnur Ingólfsson setti álverið í Hvalfirði illu heilli í gang. Hann hafði verið að vinna að afar spennandi tónlistarforriti en hann hafði ástríðu fyrir tónlist og verkfræði. Hann hætti þeirri vinnu og komst í þægilegt og öruggt starf við byggingu álversins. Þetta var í árdögum internetsins og Finnur Ingólfsson var auðvitað talinn hafa bjargað þessum dreng. Kannski hefði hann sjálfur orðið 400 manna fyrirtæki – ef hann hefði ekki ánetjast stóriðjufíkninni. Hvað hefði gerst ef við hefðum farið fulla ferð í nýsköpunarhugsun á þeim tíma?

En burtséð frá því – hvernig urðu þessi 5700 störf til? Sjálfur þekki ég afar marga sem hafa skapað sér starf á síðustu árum. Getur einhver bent mér á verksmiðjuna? Hvar knésettu menn mótmælendur? Hvar er leynilöggan sem reið aktívistum? Hvar eru svöðusárin í landinu? Skilja menn ekki hvað við erum orðin veruleikafirrt? Hvað ,,dugmiklir“ stjórnmálamenn hafa skaðað hugmyndir okkar um hagkerfið, atvinnusköpun og framfarir. Það er hrein og bein ANDLEG NÝLENDUSTEFNA þegar menn benda á eina verksmiðju – sem átti þátt í að rústa efnahagslífinu – og segja: Hún stendur undir mér, velferðarkerfinu, vegakerfinu og menningunni. Samorka og Samál – eru beinlínis heilaþvottastöðvar settar upp til að við sjáum ekki að það er hægt að skapa 5700, 10.000, 20.000 störf – án þess að virkja meira eða byggja fleiri verksmiðjur.

Hugmyndaráðuneytið var einmitt frábært dæmi um hvað gerist þegar kraftur og strúktúr frjálsra félagasamtaka fer í að skapa eitthvað nýtt og spennandi. Ég segi þetta enn einu sinni: 5700 störf á tveimur árum á meðan ,,hjól atvinnulífsins“ voru ekki í gangi. Hvaðan komu þau? Vill einhver rannsaka það og veifa henni síðan framan í þá sem ætla að breyta lögum, rústa landi og skapa óvild og ófrið um allt land.

Gefið ykkur tíma og lesið hér athugasemd Guðmundar Páls Ólafssonar við Rammaáætlun:

Á morgun klukkan 17:15 munu náttúruverndarsamtök afhenda nýjum forsætisráðherra –  Sigmundi Davíð þessa umsögn ásamt mörgum öðrum. Mikilvægt að sýna samstöðu og láta sjá sig.