Græn ganga 1. maí

Þann 1. maí ætla náttúruverndarsamtök að fylkja liði og taka þátt í göngunni niður Laugaveginn. Í blöðum mátti sjá einhverjar hugrenningar um hvort þessi mál væru hugsanlega ótengd, hvort umhverfisfólk ætti að finna sér annan dag og Ómar Ragnarsson var ansi lítillátur þegar hann lofaði að hópurinn myndi ekki trufla hátíðarhöldin og skilja grænu fánana eftir á Austurvelli.

Sumum finnst umhverfishreyfingin vera að troða sínum málstað upp á 1. maí en hann hefur alltaf verið vettvangur grasrótarhreyfinga og samfélagslegra baráttumála. Ég ávarpaði ársfund norrænna verkalýðsfélaga í fyrra í Álasundi en þemað þar var umhverfið og verkalýðsfélögin. Þar tóku margir svo djúpt í árinni að ef verkalýðsfélögin tækju ekki umhverfismál inn í innsta kjarna starfsemi sinnar og tilgangs myndu þau visna og deyja sem hver annar sérhagsmunahópur.

Ég sýndi norrænu félögunum þessa mynd hér:

alvirkjun

Þessi mynd frá 2006 var rækilega studd af verkalýðshreyfingunni um allt land. Ég velti fyrir mér hvort þetta samrýmdist raunverulega gildum hreyfingarinnar. Hvort það samrýmdist gildum hennar að leggja svo mikið vald í hendurnar á fjölþjóðlegum stórfyrirtækjum. Hvort það samrýmdist gildum hennar að skuldsetja opinber orkufyrirtæki til að þjóna þessum fyrirtækjum. Hvort allar þessar fórnir á náttúru landsins væru réttlætanlegar. Hvort blind trú á ,,störf“ væri búin að blinda verkalýðshreyfinguna og hvort öruggt væri að þjóðin yrði að lokum raunverulega ,,rík“ af þessu. Hvort verkalýðsfélögin hefðu eingöngu á stefnunni að ,,fjölga störfum“ án þess að gæta að félagslegum afleiðingum stefnu sinnar.

En verkalýðshreyfingin á Íslandi studdi ekki aðeins afar róttæka stóriðjustefnu, hún tók beinan þátt í hópátaki sem miðaði að því að eyðileggja Landvernd með því að lama samtökin fjárhagslega. Landvernd hafði nefnilega búið til ítarlega og vandaða skýrslu sem gagnrýndi Kárahnjúkavirkjun. Stór fyrirtæki og stofnanir sem áður höfðu stutt Landvernd og gert þeim kleift að sinna fjölbreyttu og vönduðu starfi sögðu sig úr félaginu. ASÍ, SA, RARIK, Samtök sveitarfélaga og fleiri. Á sama tíma var peningum dælt í áróður og lobbíisma stóriðjuvélarinnar. Semsagt – það átti að knésetja náttúruverndarhreyfinguna og það var gert með fullum vilja verkalýðsforystunnar.  Þessi úrsögn lamaði samtökin enda tóku allir þessir aðilar undir þá ofsafengnu trylltu stóriðjustefnu sem ríkti hér árið 2006. Úrsögn ASÍ úr Landvernd, var byggt á kröfu um ,,hófsemi“ og ,,samvinnu“. Átti félagið að sætta sig við heildarmyndina hér að ofan. Átti Landvernd í alvöru að heimila eyðileggingu á Lagarfljóti?

Þrátt fyrir að Ísland sé orðið einn stærsti álframleiðandi í heimi hef ég ekki séð umræðu innan verkalýðsfélaga um skattamál stórfyrirtækjanna þar sem þeim tekst að koma mestum hluta hagnaðins úr landi og engin umræða fer fram um aðbúnað fólks í þeim löndum sem útvega hráefnið í verksmiðjurnar.

Þannig hefur verkalýðshreyfingin á Íslandi orðið hluti af kerfi sem skapar menn eins og Mark Rich eða fyrirtæki eins og Glencore – sem á Century Aluminum, álverið í Helguvík og álverið á Grundartanga:

http://www.guardian.co.uk/commentisfree/2011/may/05/glencore-hunge-commodity-food-prices

ASÍ stóð fyrir því ásamt SA að setja álverið í Helguvík inn í stöðugleikasáttmálann þegar vinstri stjórnin tók við árið 2009. ,,Öllum hindrunum skyldi rutt úr vegi“. ,,Hindranir“ eru smáatriði eins og skipulagsmál og orkuverð. Samrýmist það gildum verkalýðsfélags því að afhenda þessum auðhring nánast alla orku á Suðvesturhorninu. Álverið í Helguvík felur í sér óhóflega nýtingu á öllu Reykjanesi með tilheyrandi loftmengun, virkjun neðri hluta Þjórsár sem gæti stefnt stærsta laxastofni landsins í voða og fleiri stöðum.

Þannig að stóra spurningin er síðan, er ,,vinnan“ það heilagasta sem til er. Getum við fórnað öllu fyrir hvaða vinnu sem er?

Andstaða verkalýðsfélaga við náttúruverndarviðhorf hafa smitast út í samfélagið, þar sem listamaður í 101 Reykjavík hefur orðið einhverskonar samheiti aumingja og afætu, en að spilla Lagarfljóti í þágu auðhrings er álitin ,,heiðarleg vinna“, enda er heimurinn svo takmarkaður að það var ,,ekkert annað hægt að gera.“

Græna gangan er ákveðin með nokkuð skömmum fyrirvara en það er mikilvægt að sem flestir láti sjá sig vegna þess að nú stefnir hugsanlega í stjórnvöld sem hafa sögulega séð ekki verið sérlega hliðholl náttúrunni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur orðið undarlegri með hverju árinu en fríkuð ummælii Brynjars Níelssonar á dögunum bera vott um afar lítinn skilning á náttúruvernd. Hér er mynd af bók Helga Hallgrímssonar um Lagarfljót – Mesta vatnsfall á Íslandi. Þetta eru 411 blaðsíður af náttúru, sögu og menningu, sneisafull af fróðleik, myndum, ljóðlist, skáldskap og sérþekkingu. Brynjar sagði í viðtali að þetta væri ,,fúll pyttur fullur af óætum fiskum“. Sumir telja að þar hafi hann verið ,,hreinskilinn“ eða sagt sína ,,meiningu“. Það er eins og ólæs maður segði um þessa bók – ,,hún er auð, það stendur ekkert í bókinni“ og væri álitinn ,,hreinskilinn“ en ekki ,,ólæs“. Helgi Hallgrímsson skrifar formáli að bókinni um Lagarfljót. Hann segir að við ritun bókarinnar hafi honum stundum fundist hann vera að skrifa eftirmæli um látinn vin. Virðingarleysi þessa þingmanns hlýtur að vera áhyggjuefni, en þetta er kannski sá Sjálfstæðisflokkur sem ætlar einkum að sækja fylgi sitt til ólæsra í framtíðinni.

Lagarfljót

Gangan 1. maí er ekki síst farin vegna þess að nú á að mynda stjórn og í kosningunum tókst mönnum nánast alveg að sneiða hjá umræðum um náttúruvernd. Ísland er svo skondið að stundum að helstu málin eru ekki ákveðin á þinginu, heldur í stjórnarmyndunarviðræðum á fyrstu dögunum eftir kosningar. Þannig var búið að ákveða Kárahnjúkavirkjun áður en hún var rannsökuð, samningar voru gerðir eða nokkuð annað – Davíð og Halldór voru búnir að ákveða það. Öll umræða var í raun tilgangslaus í kjölfarið. Hvað fer fram í stjórnarmyndunarviðræðum þessa dagana? Hver fær hvað? Hverju skal fórna? Á að redda Helguvík heilli Kárahnjúkavirkjun? Verður það ákveðið í snatri og sett í stjórnarsáttmála? Málið dautt. Umræðum lokið.

Ég ætla að ganga 1. maí með eina kröfu: ASÍ aftur í Landvernd.