Úr þerapíunni

,,Þetta var mjög skrítið, ég hafði fundið fyrir svo mikilli reiði og heift en svo birtist hann á skjánum með augun sín, þau voru stór eins og sívaliturn, svo saklaus og barnsleg að það var eins og eitthvað gerðist innra með mér, ég get illa lýst því, það var ekki beint kynferðislegt en þetta minnti mig á vinkonu mína sem svaf einu sinni hjá strák af því hún fann svo til með honum, það voru augun sem voru svo biðjandi að hún ákvað bara að leyfa honum. En þetta var samt meira eins og móðurtilfinning, mig langaði til að hafa hann á brjósti og síðustu daga hef ég fundið hvað mig langar til að annast hann, vernda og gæta. Ég hefði ekki áhyggjur af þessu ef ég væri kona, en ég er karlmaður og þess vegna er ég ekki hissa þótt fylgið rjúki upp núna. Það er eitthvað sem gerðist og ég fann hvernig mér rann reiðin, hvernig spillingin, misskiptingin, mengunin, skuldirnar, bruðlið, ruglið, allt þetta eru minniháttar atriði. Það eina sem skiptir máli er fjölskyldan og heimilin, að við getum verið hamingjusöm aftur og alið þá við brjóst okkar. „