Opið bréf til bæjarstjórans í Garðabæ

Kjarvalsverk á Garðbæsku menningarheimili

Kjarvalsverk í Garðabæ.

Kæri Gunnar

Fyrir nokkrum mánuðum skrifað ég grein um Gálgahraun. En svo hitti ég vinkonu mína sem býr í Garðabæ og hún sagði mér kannski væri betra að hitta þig, þú værir nokkuð skynsamur.

Eins og þú manst þá hittumst við og ég sagði þér að ég væri leiður á baráttu, greinaskrifum, skothríðum og velti fyrir mér hvort þú sæir flöt á því að enginn „tapaði“ í þessu máli. Öll rök hnigu að því að lausn væri möguleg. Forsendur vegarins væru gjörbreyttar og því væri þetta frábært tækifæri fyrir þig að sýna framsýni í verkefni sem framtíðin gæti dæmt harkalega.

Nú er ljóst að annaðhvort ætlar þú að „sigra“ í þessu máli, eða þú varst of latur og værukær til að nenna að taka á því. Þannig að nú kemur greinin sem ég skrifaði – hún er hundleiðinleg sóun á tíma, orku og hæfileikum.

Þetta átti að vera grein um veginn gegnum Gálgahraun, en í blöðum frá 1997 má finna afar vandaðar greinar um þennan veg. Greinar eftir Árna Björnsson lækni, Brynju Valsdóttur kennara og fleiri. Allt greinar á frábærri íslensku sem eru aðgengilegar á netinu. Til hvers er þá önnur grein? Þótt sumir sjái enga fegurð í hrauni þá þarf ekki sérfræðing til að sjá að mislæg gatnamót fyrir 2.500 manns er hrein sóun á landi og almannafé, fyrir það eitt ættu allir Sjálfstæðismenn að vera reiðir. Þarf ég kannski að skrifa eins og verkfræðingur? Rökstyðja lið fyrir lið?

a: Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu töldu sig geta tvöfaldað íbúatöluna samtímis án samráðs við fæðingardeild Landspítalans.

b: Vegurinn er hannaður fyrir 20.000 bíla á sólarhring. Byggð í Garðaholti verður ekki í bráð og Álftanes mun ekki vaxa á þeim hraða sem ætlað var.

c: Á höfuðborgarsvæðinu eru tilbúin hverfi með lögnum, veitum og vegum fyrir vöxt næstu tuttugu ára. Urriðaholt er tómt, Úlfarsárdalur, Helgafellslandið – endalaus svæði til að fylla og búið að kosta tugmilljörðum í lagnir og vegi.

d: Misfellur á gamla veginum má laga fyrir brot af þeim milljarði sem nýr vegur kostar.

e: Hver hektari á höfuðborgarsvæðinu er ekki byggingarland. Of dreifð byggð kallar á rándýra innviði sem skerða lífsgæði okkar og lífskjör. Þarna er frábært dæmi um milljarð sem á að henda í ruslið.

Eins og hér má sjá hefur vegagerðin hannað umfangsmikil mislæg gatnamót og slaufur - sem taka meira landrými en gatnamótin þar sem tugþúsundir bíla fara um daglega.

Eins og hér má sjá hefur Mannvit hannað umfangsmikil mislæg gatnamót og slaufur sem þjóna færri bílum en aka um almennar götur í úthverfum á höfuðborgarsvæðinu. Slaufurnar taka meira landrými en gatnamót Hafnarfjarðarvegar og Reykjavíkurvegar þar sem tífalt fleiri bílar fara um daglega.

Náttúra og menning:

a: Hraun er verndað samkvæmt lögum og sjaldgæft náttúrufyrirbæri. Gálgahraun er talið sérstaklega verðmætt.

b: Kjarval málaði hraunið. Hann er talinn merkilegur málari í Garðabæ og margir hafa keypt verk eftir hann fyrir milljónir.

c: Það er ekki aðeins ysti hluti hraunsins sem er verðmætur. Heildin er afar fallegt og mikilvægt útivistarsvæði. Að friða aðeins fremsta hlutann er eins og að klippa bros Mónu Lísu út af myndinni og láta eins og það sé brosið sem gaf myndinni gildi.

Það er hægt að finna lausn:

a: Með hliðsjón af liðum a – e og beita nýjustu hugmyndum um umferð í þéttbýli, lækka blindhæð, laga beygjur, sameina innkeyrslur, setja upp hringtorg o.s.frv. þá er gamli vegurinn full nothæfur.

b: Ef menn vilja finna lausn.

Nú hafa málsmetandi menn og konur tjáð sig um þetta mál og allar grunnforsendur hafa breyst en samt ætlar Vegagerðin að leggja tvo einfalda vegi í tveimur tvíbreiðum farvegum, slaufu og mislæg gatnamót fyrir 20.000 bíla til að þjóna hverfum sem verða ekki reist. Vegagerðin er þekkt fyrir tillitsemi við huldufólk, en hér keyrir um þverbak þegar mislæg gatnamót eru lögð fyrir hulduhverfi og draugabíla fyrir fé sem er í rauninni ekki til heldur.

Nú má velta fyrir sér skýringum á því að ekki finnst lausn:

a: Þeir sem eru andstæðrar skoðunar eru andstæðingar sem ber að sigra.

b: Fjöldinn hefur enga skoðun og því má komast upp með hvað sem er.

c: Það er mikilvægt að innræta börnum sínum „hófsama og skynsama nýtingarstefnu“ með því að ryðja hraunið í bakgarðinum, þótt það sé að óþörfu.

d: Bæjarstjórinn myndi aldrei byggja þennan veg fyrir fé Garðbæinga, hann er hins vegar „gjöf“ til bæjarins frá Íslensku þjóðinni.

Nú gæti ég reynt að vera barnalegur og spurt: Af hverju segja menn ekki bara: Þú ert vinur minn og bróðir, ég ber virðingu fyrir þér, þú hefur skrifað grein, þú hefur haldið fundi, við skulum ræða þetta og finna niðurstöðu. Af hverju er ekki fundin niðurstaða? Er það vegna þess að mönnum er:

a: sama um náungann?
b: sama um náungann?
c: skítsama um hvað öðrum finnst?

A og b eru sama spurningin og c nánast eins og a og b. Getur verið að hér hafi þróast óheilbrigð heift í pólitík sem smitast út í óvinveitt viðhorf til almennings með ábendingar? Er hroki og kassahugsun of fyrirferðarmikil í menningu verkfræðinga og stjórnsýslu á Íslandi? Í umhverfismatinu má finna álit líffræðinga, fuglafræðinga og listfræðinga. Þeir eru fengnir til að meta hvernig skuli ryðja hraunið, ekki hvort. Það má líkja þeim við fanga sem ræður hvort hann er:

a: hengdur.
b: skotinn.

Síðan er sagt. Aftakan var í fullu samráði við fangann.

Nú er ég búinn að vinna þrjá tíma í þessari grein. Ég ætti að vera í heimsókn hjá ömmu minni, ég gæti verið búinn að lesa sögu fyrir börn í Hvalfjarðarsveit. Ég ætti að vinna í kvikmyndinni minni, bókunum mínum. Maður sem ætti að vera að skipuleggja þjóðlagahátíð á Siglufirði bað mig að skrifa grein og góð kona úr Hafnarfirði sömuleiðis. En greinar hafa engin áhrif. Þær eru bara prump. Hvað á að gera þegar ekki er leitað sátta. Þegar þú býrð í landi þar sem skipulagsmál eru í ólestri og mönnum tekst að eyðileggja náttúruperlur og setja okkur á hausinn í leiðinni. Þegar þú mótmælir, þá hleypur mönnum kapp í kinn og flýta þeir sér bara meira. Eru svona vinnubrögð ekki bara eindregin skilaboð um þetta:

a: ÞÚ ERT ÓVINUR MINN.
b: ÞEKKING ÞÍN OG SKOÐANIR ERU EINSKISVERÐAR.

Við sjáum sárin. Lagarfljót dautt. Mývatn í hættu. Leirur skemmdar, sögufræg hús rifin til að skilja eftir gapandi grunn. Bændur við Laxá létu ekki vaða yfir sig og sprengdu óþarfa stíflu sem hefði eyðilagt Laxá og heimili þeirra. Stundum heyra menn svo illa að það þarf smá dínamít. Í þessu tilfelli myndi dínamít:

a: Spara almannafé.
b: Hlífa náttúruperlu.
c: Kenna stjórnsýslunni faglegri vinnubrögð.

Það er hægt að hanna öðruvísi veg og spara stórfé. Það er hægt að hlífa hrauninu og það er hægt að forðast tímafrekar deilur. Hvað viljum við að börnin okkar læri af okkur? Hefðum við viljað sjá bændurna við Laxá tapa í sínu stríði? Eigum við að kenna börnum okkar að bera virðingu fyrir landinu og samborgurum okkar og leggja krók á veg eins og gert er með álfasteina? Eða viljum við segja þeim að hlusta ekki á öfgamenn, gefa skít í Kjarval, hugsa um skjótfenginn gróða og STÚTA ÞESSU FOKKINGS LANDI?

Einhvern veginn svona endaði greinin Gunnar, sem ég ætlaði ekki að birta vegna þess að mér finnst þessi reiði öll svo fúl og tilgangslaus. En núna er ég búinn að móðga egóið þitt. Núna verðurðu að „sigra“, valta yfir hraunið og gera gott fólk að óvinum þínum. Eftir hundrað ár verðum við jafn dauðir. Ég held samt að barnabörn okkar gætu orðið ástfangin og langað til að ganga um hraunið sér til heilsubótar. Þangað til þá vona ég að huldubílar og hraunvættir haldi ekki fyrir þér vöku. Góðar stundir.