Í tilefni þess að nú hefur komið í ljós að lífríki Lagarfljóts er svo gott sem dautt og hljómur lómsins mun væntanlega þagna þegar engan fisk er lengur að fá þá velta menn fyrir sér hvernig menntuð og læs þjóð gat gert svona mistök? 50km2 lón á hálendinu og 100km2 eyðilegging Lagarfljóts er einhver mesta fórn sem nokkur þjóð getur fært einu fyrirtæki – í þessu tilfelli Alcoa. Áhrif á hafið hafa enn ekki komið í ljós eða strandlengju Héraðsflóa. Fréttablaðið spyr í leiðara hvort Siv Friðleifsdóttir geti komið með skýringar. Í útvarpsfréttum segist hún myndi gera þetta aftur. Ég gæti skrifað nýja grein en í staðinn birti ég hér kafla úr Draumalandinu – hvernig fólk var markvisst blekkt og jafnvel ofsótt af opinberum aðilum fyrir að tjá sig um málefni sem snertu virkjanir á Austurlandi, hvernig opinberu fé og opinberum vefsíðum var markvisst beitt til að kæfa umræðu frá upphafi. Ég bendi kennurum á að þeir mega nota þetta í kennslu í lífsleikni eða til að vekja upp spurningar um lýðræði og eðli þess. Einnig bendi ég þeim sem voru kannski 14 ára þegar bókin kom út og eru tvítugir í dag að þeir gætu haft áhuga á þessu þegar þeir vita ekki hvað skal kjósa. Það eru nefnilega til mál sem eru ekki beggja blands, 50/50. Ef fólk misnotar aðstöðu sína, kemur í veg fyrir aðgengi almennings að upplýsingum – með þeim afleiðingum að 100km2 fljót deyr án þess að fólki hafi verið gerð grein fyrir því þá hefur verið framinn glæpur. Siv segist myndu drepa fljótið aftur en ég held að hún kæmist aldrei á þing með það á stefnuskránni – að rústa einu sérstæðasta fallvatni Íslands. Það er til með og á móti en það er aldrei 50/50 með og á móti þegar glæpur er framinn. Ég held að framtíðin muni meta þetta sem raunverulegan glæp en vandinn er sá að menn virðast ætla að endurtaka leikinn við Mývatn, við Urriðafoss, á Reykjanesskaga og við Skaftá. En einhvernveginn svona var Lagarfljótið eyðilagt. Brot úr Draumalandinu:
Endalok hugmyndanna
„Hesturinn var votur allur af sveita svo að draup úr hverju hári. Hann var mjög leirstokkinn og móður ákaflega. Hann veltist nokkurum sjö sinnum og eftir það setti hann upp gnegg mikið.“ Hrafnkels saga Freysgoða.
„When the truth dies, very bad things happen.“ Robbie Williams.
Þegar bjarga skal Íslendingum reynist helsta ógnin við framtíð þjóðarinnar vera upplýsingar og almenn þekking hennar sjálfrar. Vísindin efla alla dáð en hvað á að gera við óþægilegar jarðfræðilegar upplýsingar? Eiga þær að liggja fyrir þjóð og þingi eins og útreikningar um hagvöxt og von um hámarks gróða? Líffræðin er fín en hvað á að gera við neikvæðar niðurstöður? Ef ein framkvæmd á að standa undir lífsgæðum þjóðarinnar er þá forsvaranlegt að fórna heilli þjóð til að vernda gras eða gæsir? Hvernig á að glíma við þjóð sem hefur ánetjast fegurð lands svo jaðrar við tilbeiðslu? Getur slík þjóð vitað hvað henni er fyrir bestu? Gæti Íslendingum stafað ógn af fegurð Íslands? Fyrir einhverjum gæti þetta hljómað eins og fáránleiki.
Í eftirfarandi myndbroti úr heimildarmyndinni Ísland í nýju ljósi eftir Hrafn Gunnlaugsson má sjá hvernig menn glíma við vandamál eins og fegurð Íslands. Myndin var sýnd í Ríkissjónvarpinu á skírdag 2003 og hafði ýmislegt til síns ágætis. Hluti myndarinnar fjallaði um landið sem á að hverfa undir Hálslón:
Þulur: Sé svæðið skoðað á korti um jarðvegsrof má velta fyrirsér hvort hreindýrin væru ekki betur komin annars staðar.
Mynd: Hreindýr skotið og sett í myndrænt samhengi við mink og randaflugur.
Þulur: Á landsvísu eru fá svæði verr farin.
Mynd: Fjúkandi sandur, rofabörð.
Þulur: Hér vilja hugsjónamenn gera þjóðgarð.
Mynd: Fjúkandi sandauðn.
Þulur: Hreyfi vind á sumrum í þurru veðri rýkur sandurinn úr
auðninni.
Mynd: Hvirfilstrókur, sandbylur.
Þulur: Veit nokkur með vissu hvaða áhrif uppistöðulón á svæðinu myndu hafa á þennan þurra jarðveg og vatnsbúskap, rykið frá sandblæstrinum getur borist allt niður á Egilsstaði. Þegar nær dregur Mývatni sér ekki útúr augum.
Mynd: Sandbylur.
Þulur: Er endilega rétt að líta á mannvirki sem framleiða vistvæna orku sem náttúruspjöll?
Mynd: Sökkvandi olíuskip og brennandi sjór.
Þulur: Þau náttúruspjöll eru ærið ólík þeim spjöllum er heimsbyggðin á við að glíma í öðrum löndum sem nota olíu eða brenna kolum til orkuvinnslu …
Ísland í nýju ljósi fékk 9 milljóna króna styrk frá umhverfisráðuneytinu og 5 milljónir frá Landsvirkjun. „Á landsvísu eru fá svæði verr farin,“ segir heimildarmyndin. Þarna eru Vesturöræfin, hreindýraslóðirnar, friðlandið á Kringilsárrana og landið kringum Jökulsá á Dal eða Jöklu sagt vera rjúkandi rúst og betur komið undir vatni. Textinn og myndmálið gengur þvert á þekkingu náttúrufræðinga sem starfa undir þessu sama ráðuneyti. Í myndinni spyr þulurinn: „Veit nokkur með vissu hvaða áhrif uppistöðulón á svæðinu myndu hafa á þennan þurra jarðveg og vatnsbúskap?“
Helstu sérfræðingar landsins telja að lónið geti komið af stað vítahring jarðvegseyðingar. Í skýrslu Líffræðistofnunar HÍ er bent á hætturnar af áfoki frá lónbotninum:
Stór hluti gróins lands norðaustan Vatnajökuls geti verið í hættu og orðið eyðingu að bráð. Þá verður að hafa í huga að þetta er best gróna hálendissvæði landsins, hið eina sem ber samfelldan gróður frá láglendi og inn að jökli og hið eina sem enn ber víðlendan þurrlendisgróður sem annars staðar hefur að mestu horfið vegna uppblásturs.
Í farvegi Jöklu eru jarðsögulegar minjar, stuðlabergshamrar og gólf eins og undir álfakirkju, þar eru sethjallar sem geyma 10.000 ára sögu veðurfars. Þarna er Rauðaflúð þar sem áin steypist öskrandi ofan í þrönga rás og leysist upp í hálfgert gos. Þar fyrir neðan rennur áin á bergi sem er svo eldrautt, appelsínugult og fjólublátt að menn trúa varla eigin augum. Þarna er land mjögauðvelt yfirferðar. Ég gekk þarna með hópi fólks, þar var tveggja ára barn á baki foreldra sinna, eldri maður, stálpuð börn og unglingar. Þarna má finna heitar lindir í grasi grónum bölum. Þar verpir fálki. Á klettasnösum eru gæsahreiður á ystu brún. Af því lífi sem þrífst á hálendi Íslands er mesta lífið einmitt á þessum slóðum og því lífi skal drekkt.
En landið fær þó ekki að hvíla virðulega og eilíflega í votri gröf sinni heldur á það rísa úr kafi á hverju vori, þakið auri, grátt eins og draugur. Það verður samanburðarhæft við landið sem það áður var. Svæði á stærð við Reykjavík sem nú er gróið skal standa á þurru fram á sumar, það verður dautt, þakið sandi, fínu ryki, rofinni mold og rotnandi gróðurleifum. Það er í rauninni merkilegt að virkjunin skuli vera kölluð Kárahnjúkavirkjun og að fólk skuli geta spurt: „Hefurðu komið þangað?“ Nafnið smækkar áhrifasvæðið, það er ekki verið að virkja fjall. Það er ekki hægt að „fara þangað“, horfa yfir vinnusvæðið og þykjast hafa séð áhrifin. Sá sem hefur séð Lagarfljót hefur „farið þangað“. Heilli jökulá verður bætt í fljótið, dulgrænn liturinn verður brúnn, vatnið kólnar, vatnsborð hækkar og rífur bakkana. „Lagarfljótið verður grimmara,“ sagði mér gamall maður sem hefur búið við Lagarfljótið alla ævi. Kárahnjúkar hvergi nærri og hann hefur sjálfur aldrei „komið þangað“. Héraðsflói missir sína Jöklu og framburðinn sem nærir hafið og heldur uppi ströndinni. Selalátur við strönd Héraðsflóa munu eyðileggjast, land mun brotna og færast innar og spilla náttúruparadísinni við Húsey sem verður umflotin vatni innan áratuga. Ekkert af þessu er í augsýn við Kárahnjúka. Fossaröðin innst í Fljótsdal verður þurrkuð upp. Kárahnjúkar hvergi nærri. Risavaxnar raflínur inn á Reyðarfjörð. Kárahnjúkar hvergi nærri.
Umhverfisráðherra Íslendinga affriðaði friðlandið á Kringilsárrana og lagði andvirði tveggja Land Cruiser jeppa í heimildarmynd sem segir þjóðinni að svæði sem er fjölbreytt líffræðilega, sögulega og jarðfræðilega sé ljótt, örfoka og einskis virði. Hugmyndir um þjóðgarð eru settar fram á svo óaðlaðandi hátt að áhorfendum verður ljóst hvað þær eru fullkomlega fráleitar. Milljónirnar sem fóru í heimildarmyndina „Ísland í nýju ljósi“ voru endurgoldnar í myndinni sjálfri með eftirfarandi myndskeiði:
Myndskeið: Siv Friðleifsdóttir, hinn ungi og glæsilegi umhverfisráðherra gengur inn í Stjórnarráðið.
Þulur: Það hefur líklega þurft pólitískt hugrekki til að fella úrskurð skipulagsstjóra úr gildi.
Það var táknrænt að um þetta leyti flutti umhverfisráðuneytið úr Vonarstræti í Skuggasund. Milljónir voru settar í heimildarmynd sem breiddi út vanþekkingu meðal þjóðarinnar á sama tíma og náttúrufræðingar og aðrir sérfræðingar sem starfa hjá ríkinu fengu skýr tilmæli um að tjá sig ekki opinberlega um náttúru svæðisins, hvorki persónulega né undir merkjum stofnana sinna, vegna þess að þekking þeirra varð ógnun við framkvæmdina. Menn fengu vissulega að rannsaka og skrifa skýrslur enda eru skýrslur skaðlausar en niðurstöðum skyldi ekki miðlað á máli sem almenningur skilur. Hlutverk líffræðinga var að telja háplöntur, lágplöntur og gæsahreiður og setja upp í hlutlausar samanburðartöflur og línurit. En það var illa séð ef þeir tjáðu sig sem manneskjur sem gefa hlutum gildi og merkingu í stærra samhengi. Það er alþekkt að skýrslur séu sendar til baka fyrir „of gildishlaðið orðalag“. Líffræðingur skyldi fyrst og fremst vera hlutlaus og gildislaus líffræðivél en ekki manneskja. Hin opinbera ásýnd svæðisins skyldi vera: Einskis virði: Auðn og grjót.
Á sama tíma nýtti Landsvirkjun sér ljótleika Íslands eins og hann birtist í myndinni Ísland í nýju ljósi til að kynna Ísland erlendis:
[…] Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, vonast til að tekist hafi að koma jákvæðari skilaboðum á framfæri við Svía, en þeim sem birst hafi í sænskum fjölmiðlum í tengslum við Kárahnjúkavirkjun. Í þeim tilgangi var m.a. haldin ráðstefna í tengslum við Íslandsdaginn þar sem íslensk orkufyrirtæki kynntu sjónarmið sín og mynd Hrafns Gunnlaugssonar, Ísland í nýju ljósi, var sýnd í styttri útgáfu. „Við urðum vör við það síðasta vetur að umræðan í sænskum fjölmiðlum um orkunýtingu á Íslandi var neikvæð og okkur fannst það byggjast á vanþekkingu. Því slógum við til og tókum þátt í Íslandsdeginum með þessum hætti. Þetta skilar sér, en kynningarstarf þarf að halda áfram.“ […]
Fyrirtækið virðist annars óvenju næmt á ljótleikann í seinni tíð. Þeir sem hafa farið með Landsvirkjun í Þjórsárver telja þau harla lítils virði. Stjórnarþingmaður í iðnaðarnefnd Alþingis sagði um hálendi Austurlands eftir kynnisferð með Landsvirkjun: „Bara sandmelar með nokkrum stráum, lítið lífríki, ekkert sérstaklega tilkomumikið.“ Þótt fegurð sé huglæg eru gróðurþekja, gæsahreiður og fálkahreiður við Kringilsá það ekki. Fegurð Íslands er kjarni ímyndar Íslands og sjálfsmyndar þjóðarinnar. Samkvæmt rannsóknum mælist hún mikilvægari en Guð og tungumálið, hjá mörgum rennur þetta í eitt. Fegurðin varð höfuðóvinur framkvæmdarinnar. Ljósmyndarar voru sakaðir um að ýkja fegurð Íslands. Morgunblaðið var gagnrýnt harðlega fyrir að birta of fallegar myndir af landslagi norðan Vatnajökuls. Ragnar Axelsson var sakaður um ýkjur í myndaseríu sinni, Landið sem hverfur. Myndirnar voru taldar of litsterkar og áhrifamiklar og ekki gefa sanna mynd af svæðinu. Of fallegar myndir voru afgreiddar sem áróður.
Órjúfanlegur hluti af virkjunarferli á Austurlandi var að stýra upplýsingagjöf til almennings. Náttúruvernd ríkisins var lögð niður og í staðinn átti að styðja við frjáls félagasamtök. Fjármagnið virðist hafa farið í heimildarmynd sem var nýtt sem kynningarefni fyrir Landsvirkjun. Landvernd heita samtök sem hafa það að markmiði „að stuðla að aukinni þekkingu og fræðslu um náttúru og umhverfi landsins“. Samtökin gerðu ítarlega úttekt á öllum hliðum framkvæmdanna við Kárahnjúka og niðurstaðan var að leggjast gegn virkjuninni. Því var ekki vel tekið. ASÍ, Samtök atvinnulífsins, Landsvirkjun, Samtök sveitarfélaga og fleiri sögðu sig úr samtökunum sem lentu í fjárhagsvandræðum og þurftu að segja upp starfsfólki.
Náttúra Íslands átti helst ekki að eiga launaðan talsmann. Fegurð Íslands skyldi ekki ýkja opinberlega en umhverfisráðherra varð heltekinn af álrómantík og lofsöng hreina orku og málminn í flugvélunum. Eftirfarandi frétt af star.is sýnir beinlínis hvað fræðsla til almennings var illa liðin af opinberum aðilum:
Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands í áróðursstríði gegn Kárahnjúkavirkjun!
Háskóli Íslands hefur lagt sitt af mörkum í áróðri gegn Kárahnjúkavirkjun með því að efna til sérstaks námskeiðs með skýrum boðskap á vegum endurmenntunarstofnunar sinnar. Námskeiðið er auglýst í kynningarbæklingi og á heimasíðu Endurmenntunarstofnunar. Það er á dagskrá í nóvember nk. og nefnist „Kárahnjúkar og Kringilsárrani“. Fyrirlesari: Guðmundur Páll Ólafsson, náttúrufræðingur.
Fréttin er af Star.is var rekin af iðnaðarráðuneytinu og Landsvirkjun. Almannatengslafyrirtækið Athygli hélt henni uppi en sömu aðilar sáu einnig um síðuna www.karahnjukar.is og kynningar á Austfjörðum um kosti, kosti og kosti framkvæmdarinnar. Fréttinni var fylgt eftir með bréfi til Endurmenntunarstofnunar sem lýsti vanhæfi Guðmundar Páls en hann er einkum þekktur fyrir að hafa skrifað bækurnar Fugla í náttúru Íslands og Hálendið í náttúru Íslands. Þetta staðfestir það sem að ofan var sagt. Líffræðingurinn sem hlutlaus talningarvél var ekki ógnun við framkvæmdina en líffræðingurinn sem skapandi manneskja sem setur þekkingu sína í samhengi við samfélag, sögu, umhverfi eða tungumál og miðlar til almennings var ógnun sem þurfti að kveða niður.
Star.is er nú horfin af netinu en brot af henni, einskonar upplýsingadraugar, fundust lengi vel þegar vafrað var á google með tilteknum leitarorðum. Á star.is átti almenningur að geta nálgast ýmsar upplýsingar og rannsóknir varðandi virkjanir og álver þegar málin voru enn í lýðræðislegum farvegi. Heimasíðan átti að verða vettvangur upplýsingar og opinna skoðanaskipta en þess í stað birti star.is einhvern mesta ljótleika íslenskrar lýðræðissögu.
Opinber miðill var notaður sem vettvangur til að skjóta fólk niður, leika sem lærða, en frá star.is var upplýsingum eða fréttum dreift á alla helstu fjölmiðla landsins eftir hefðbundum leiðum almannatengsla. „Andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar beita lygum og ósannindum“ er dæmi um fyrirsögn á star.is. Þar vildu menn „vekja athygli á þeirri lygaþvælu sem spunnin er gegn virkjuninni við Kárahnjúka“. Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur er sakaður um „lygar“ þegar hann bendir á tengsl Kárahnjúkavirkjunar við mögulega virkjun Jökulsár á Fjöllum. Lygar Guðmundar Páls eru sagðar „hliðstæðar lygar og Kolbrún Halldórsdóttir alþingismaður hafði uppi í Kastljósi þegar hún talaði um lónstæðið sem eldvirkt svæði“. Ómar Ragnarsson er sagður í „heilögu stríði“ gegn virkjunum og stóriðju og sakaður um „rennandi rugl“. Af núlifandi Íslendingum er hann líklega sá maður sem þekkir Ísland best og eðlilegt að framkvæmdinni hafi staðið ógn af þekkingu hans.
Star.is beitti almannafé gegn lýðræðinu og gegn lýðræðislega kjörnum fulltrúum Íslendinga. Þarna voru fyrirsagnir eins og: „Vinstrigræn örvænting í þingsölum – Vinstri-grænir á Alþingi fóru illa útúr útvarps- og sjónvarpsumræðunni um þá tillögu sína að bera framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls undir þjóðaratkvæði.“ Enginn var skrifaður fyrir þessum ummælum og ekki þessum heldur: „Hugsið ykkur andköfin í Ögmundi [Jónassyni alþingismanni] með tilheyrandi upphlaupi í ræðustól Alþingis utan dagskrár!“ Opinberir aðilar héldu uppi nafnlausum óhróðri gegn alþingismönnum og sökuðu almenna borgara um ósannindi á sama tíma og sérfræðingum þjóðarinnar var meinað að tjá sig.
Formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands fær verstu útreiðina, orð formannsins eru sögð „þvæla og vitleysa“. Þarna mátti sjá fyrirsagnir eins og: „Enn skrökvar Árni Finnsson og það duglega.“ „Árni Finnsson, formaður NSÍ, hikar ekki við að fara langt út af braut sannleikans í baráttu sinni gegn virkjunum.“ Vitnað er í forstjóra Landsvirkjunar sem segir Náttúruverndarsamtök Íslands vera handbendi útlendinga og vinna gegn „íslenskum hagsmunum“.
Lýðræði heimafyrir var skrumskælt með því að hertaka orðið „Austfirðingur“ og nota sem samnefnara yfir „eina þjóð með einn vilja“. Náttúruverndarsjónarmið voru talin ógna Austfjörðum og landsbyggðinni í heild sinni. Sá árangur náðist þökk sé stjórnmálamönnum sem leiddu orðræðuna og skilgreindu valkostina: Ál eða hnignun. Þetta gerði lífið nánast óbærilegt fyrir þann minnihlutahóp á Austurlandi sem ekki vildi horfa upp á hernað gegn landi sínu vegna þess að önnur sjónarhorn voru ígildi svika við heimabyggðina. Á star.is var ályktun Austfirðinga í Félagi um verndun hálendis Austurlands sögð vera „taktlaus“ og ýjað að því að á bak við hana stæðu einhverjir aðrir en Austfirðingar. Í ágúst árið 2000 gengu um 60 virkjunarsinnar í AFLI fyrir Austurland í Náttúruverndarsamtök Austurlands, NAUST, í því skyni að yfirtaka og eyðileggja félagið með ályktunum með stóriðju. 100 félagar í NAUST birtu heilsíðuauglýsingu í blöðum til varnar hálendinu. Það hafði engin áhrif á orðræðuna sem hélt áfram í öllum fjölmiðlum: Vilji Austfirðinga. Þegar lítill hópur Austfirðinga fleytti kertum á Lagarfljóti sagði star.is að 12.000 Austfirðingar hefðu haldið sig heima. Það má velta fyrir sér hversu margir Austfirðingar hafi ekki þorað að tjá sig opinberlega um skoðanir sínar í slíku andrúmslofti. Hernaðurinn gegn landinu er þarna farinn að taka á sig mynd stríðsorðræðunnar.
——————-
Harka og áróður, feluleikur og hreinar lygar voru ekki aðeins hluti af framkvæmdinni, heldur forsenda hennar. Ef þjóðin hefði átt að kjósa hvort fórna ætti Lagarfljóti efast ég um að hún hefði sagt já. Hin forsendan var heilaþvottur um að þjóðin ætti ekki annarra kosta völ, að stóriðjustefnan og náttúrufórnir væru okkar eina lífsbjörg. Með þetta allt til hliðsjónar er gaman að sjá galsann og gáskann að framkvæmdum loknum. Bending all the rules, just for this: