Af hverju spilar Ryuichi Sakamoto ekki á ukulele?

Ryuichi Sakamoto var hér á landi vegna Sónar hátíðarinnar en hann þykir einn merkasti tónlistarmaður síðustu áratuga. Hann er þekktur sem meðlimur YMO og hann gerði tónlistina við eina af mínum uppáhalds kvikmyndum – Babel. Hér spilaði hann á mögnuðum tónleikum með þýska raftónlistarmanninum Alva Noto.

Ryuichi hefur eins og margir listamenn einnig beitt sér mjög í umhverfismálum, einkum gegn kjarnorkuverum í Japan en það munaði minnstu að sjálf Tokyo yrði eins og Chernobyl eftir slysið í Fukushima. Kjarnorkuklíkan í Japan hefur geysileg pólitísk völd og þegar geislun jókst eftir Fukushima var heilsuverndarmörkum einfaldlega breytt svo að ákveðin svæði þurfti ekki að rýma. Það var til marks um föðurlandshollustu og stuðning við bændur í Fukushima að borða geislavirkan mat frá svæðinu.

Ryuichi hafði samband við mig eftir að hafa lesið Draumalandið á japönsku. Við bárum saman bækur okkar og það var athyglisvert að heyra hversu mikið deilurnar og orðræðan í Japan líkist deilunum á Íslandi. Ryuichi er til dæmis sakaður um að vilja koma Japan aftur á steinöld, hér á Íslandi vilja umhverfissinnar fara aftur í torfkofana og sauðskinnsskóna. Ryuichi er sakaður um tvískinnung þar sem hann er raftónlistarmaður sem er á móti rafmagni. Af hverju spilar hann ekki á ukulele? Í Bandaríkjunum er þrefaldri álframleiðslu Fjarðaráls sturtað á ruslahauga í USA – bara í dósum en umhverissinnar eru sakaðir um tvískinnung þegar þeir fara um borð í álflugvél eða nota áltölvu. Slík rök eru fullgild fyrir ákveðna hópa.

Þegar Ryuichi benti á að geislun væri komin yfir heilsuverndarmörk eftir Fukushima þá komu kjarnorkumenn með þau rök að geislunin væri ekki meiri en fólk verði fyrir í venjulegri flugferð. Þeir geta þess auðvitað ekki að það er alls ekki talið heilsusamlegt að vera í slíkri geislun til langs tíma. Það minnir á þau rök Orkuveitunnar um að H2S mengunin í lofti frá Hellisheiðarvirkjun væri svipuð og þegar fólk fer í sturtu. En líklega væri óhollt að vera allan daginn, allt árið – í sturtu.

Screen shot 2013-02-20 at 14.46.23

Bæði málin eiga það sameiginlegt að það er fremur lítill hópur tæknimanna sem skilgreinir stefnuna, hvað er mögulegt og hvað ekki. Japan á marga aðra möguleika en kjarnorku til orkuöflunar. Japan er nokkuð sólrík og borgir eins og Tokyo er lágreist. Þar þekja þökin marga ferkílómetra sem mætti nýta til að sækja sér sólarorku, þar eru vindasamar strendur auk þess sem japanir eiga mikinn jarðhita sem þau gætu nýtt sér til húshitunar eins og hér í Reykjavík. (Bíddu – er Andri ekki á móti jarðhita og rafmagni?). Svo er líka hægt að spara rafmagn.

Það er mikil gerjun um þessar mundir í Japan, áður óþekkt andóf og vantraust á stjórnvöldum og sérfræðingum hennar hefur gripið um sig. Viðbrögðin við Fukushima virðast einkennast af yfirhylmingum og óheiðarleika af hálfu stjórnmálamanna. Það er auvðitað dæmigert að flokkurinn sem aðhyllist kjarnorkuna hvað mest sigraði kosningarnar. Þeir nýttu til þess alkunnugt ráð – gömlu góðu þjóðerniskenndina. Japönsku stjórnvöld hófu eldfimar deilur við Kínverja út af nokkrum óbyggðum klettaeyjum sem báðar þjóðir gera tilkall til en hafa að öðru leyti litla sem enga þýðingu. Það dugði til að æsa fólk upp gegn erlendum óvini beina athyglinni frá kjarnorkunni, í bili að minnsta kosti.