Draumalandið – frumsýning 8. apríl

Kvikmynd í fullri lengd í leikstjórn Þorfinns Guðnasonar og Andra Snæs Magnasonar

Draumalandið er ein mest selda og umtalaðasta bók síðustu ára á Íslandi. Kvikmyndinni er leikstýrt af Þorfinni Guðnasyni og Andra Snæ Magnasyni. Myndin hefur verið þrjú ár í vinnslu og er líklega ein viðamesta heimildarmynd sem gerð hefur verið á Íslandi. Þorfinnur Guðnason hefur áður getið sér gott orð fyrir myndir sínar um Lalla Johns, Hagamúsina og Hestasögu sem hafa verið sýndar víða um heim. Andri Snær hefur skrifað skáldverk, fræðirit, ljóð og þrjú leikrit en þetta er hans fyrsta kvikmyndaverkefni. Verk hans hafa verið þýdd á meira en 20 tungumál.

Draumalandið er líklega eitt viðamesta heimildarmyndaverkefni sem ráðist hefur verið í á Íslandi. Myndin stefnir saman tilfinningum, vonum og væntingum, gömlu og nýju myndefni svo úr verður stór og epísk heimildarmynd sem nýtur sín hvergi betur en á hvíta tjaldinu.

Eftir seinni heimsstyrjöld bauðst Íslendingum að byggja afkomu sína á fjórum herstöðvum, stríðsrekstur hefði orðið undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar en Íslendingar höfnuðu því og urðu eitthvað allt annað. Fimmtíu árum síðar bauðst okkur að verða stærsta málmbræðsla í heimi.

Draumalandið fjallar um þjóð sem er búin að koma upp öllum sínum innviðum og hefur öll tækifæri í hendi sér en ákveður að gera landið að einni stærstu málmbræðslu í heiminum. Til þess þarf að fórna einstæðri náttúru og þenja efnahagskerfið til hins ítrasta.

Í aðdraganda hruns hins íslensks efnahagskerfis var farið út í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar. Stærðarskalinn á þeim tíma var byltingarkenndur. Erlent vinnuafl var fengið til þess að byggja stærstu stíflu í Evrópu en orkuverðið var leyndarmál en samkvæmt erlendum stórblöðum sparar Ísland Alcoa um 25 milljarða króna árlega í orkuverði. Eða jafngildi árslauna 7000 kennara.

Draumalandið lýsir saklausri þjóð sem dregur að sér öfl og fyrirtæki með vafasamt orðspor og hörmulega slóð eyðileggingar á bakinu. Orkuverðið er stærsta beitan og strax eftir stærstu framkvæmd Íslandssögunnar er markið sett enn hærra: Tvö ný álver og samtals virkjanir sem jafngilda tvöföldun á stærstu framkvæmd sögunnar.

Draumalandið reynir að skilja hvernig æði grípa þjóðir, hvernig byltingar verða í augum almennings að eðlilegri og jafnvel óhjákvæmilegri þróun. Draumalandið er fyndin mynd og spennandi og hún er á vissan hátt hryllileg.

Draumalandið er heimildamynd byggð á samnefndri bók Andra Snæs Magnasonar í leikstjórn Þorfinns Guðnasonar og Andra Snæs. Frumsýnd 8. apríl.

Nánar á vefsíðunni: www.draumalandid.is