Ég tók þátt í hugmyndasamkeppni hins illræmda Landsbanka árið 2004 um miðborg Reykjavíkur. Ég skrifaði greinargerð um hvernig ýmislegt mætti betur fara í miðbænum. Ég var ákveðinn í að vinna keppnina og ákvað að innlima alla möguleika í mína tillögu. Hugmyndir a,b,c og d fjölluðu aðallega um hafnarsvæðið og einskismannslandið þar sem bankinn vildi reisa höfuðstöðvar. Ein tillagan sem ég lagði fram var rómantíska leiðin, sú hugmynd er útfærð hér. Önnur tillaga var svona og hét Smáralindarljóð:
b) Smáralindarhverfisljóð
Verktaki fær lóðina,
reisir myndarlegan kubb/ turn
með hæfilega litlum/ódýrum
arkítektúr sem stendur
upp úr miðri auðninni.
NÆG BÍLASTÆÐI.
Raðast þétt í kringum húsið
svo helst komist enginn
að eða frá
nema akandi.
ÚFF!
Síðasta tillagan hét alþjóðlega ævintýralega rándýraleiðin og var á þessa leið:
,,Menn fá stóran alþjóðlegan brjálæðing til að teikna eitthvað alveg rosalegt í staðinn fyrir EKKERT. Eitthvað geðbilað og sjokkerandi. Einhvern Liebeskind, einhvern Alvar Aalto okkar tíma sem teiknar hús sem kemst í alþjóðleg tímarit um arkítektúr og verði alveg nýtt aðdráttarafl fyrir miðbæinn og sker sig gjörsamlega frá nærliggjandi húsum. Gjörólíkt Tollhúsinu, gömlu húsunum og Seðlabankanum. Hús sem þrífellir borgarstjórnarmeirihlutann, stofnar félag með sér og gegn sér og gerir alla vitlausa. Eitthvað sem verður nefnt í sömu andrá og þekktustu hús heims. Eitthvað sem tekur menn 50 ár að læra að meta.“
Það vill svo skemmtilega til að ,,alþjóðlega ævintýralega rándýraleiðin“ varð fyrir valinu. Haldin var alþjóðleg samkeppni um nýjar höfuðstöðvar Landsbanka Íslands og ég tók þátt í þeirri samkeppni, ásamt BIG group frá Danmörku, Einrúm í Glaðheimum og Arkíteó. BIG group er sérstaklega skemmtileg stofa, hún er meðal annars ábyrg fyrir því að hafmeyjan við Löngulínu er á leiðinni til Kína. Niðurstaðan var sú okkar tillaga hlaut fyrstu verðlaun. Landsbankinn hefur einhverra hluta vegna ekki flíkað tillögunni. Bjarke Ingels frá BIG kemur til landsins í tengslum við hönnunardaga. Á föstudag munum við kynna hana á Háskólatorgi klukkan 15:00. Það verður spennandi að sjá viðbrögðin þótt húsið þrífelli ekki borgarstjórnina úr þessu. Þess má reyndar geta að heimilað byggingarmagn setti keppninni býsna þröngar skorður.