Indriði skattstjóri og Halldór Laxness

Indriði H. Þorláksson skrifar grein um efnahagsleg áhrif stóriðju og eru niðurstöður hans forvitnilegar: ,,Í heild má segja að efnahagslegur ávinningur Íslands af starfsemi stóriðjuvera sé lítill og hafi farið minnkandi á síðustu árum. Hann er nú vart meira en 0,1 – 0,2% af þjóðarframleiðslu fyrir hvert álver. Arður af íslenskum auðlindum kemur aðallega fram í hagnaði iðjuveranna og rennur vegna lágra skatta að mestu ósnertur í vasa hinna erlendu eigenda.“

Það er athyglisvert að hér keppast menn við að nota tölur eins og ,,útflutningstekjur“ til að sanna fyrir sjálfum sér að þjóðin lifi á einhverju sem hún lifir alls ekki á.Eins og öfugur Jón Sigurðsson. Stundum er eins og sömu málin sitji föst í þjóðfélagsumræðunni án þess að bifast. Það er athyglisvert að bera orð Indriða saman við það sem Halldór Laxness skrifaði í grein sinni – Hernaðurinn gegn landinu árið 1970:

,,Mér skilst að stóriðja þýði svipað og lykiliðnaður, og sé hlutverk hennar að breyta í vinsluhæft ásigkomulag þeim efnum sem liggja til grundvallar smáiðju eða neysluvöruiðnaði; undir stóriðju heyrir námurekstur, málmbræðsla, efnaiðnaður, olíuhreinsun og þessháttar. Svona iðja heimtar óhemjumikið rafmagn en fáar hendur. Neysluvöruiðnaður, til að mynda skógerð eða klæðaverksmiðja, eða segjum útvarpstækjasmíði, notar að öðru jöfnu margfalt vinnuafla reiknað í mannshöndum á við málmbræðslu eða olíuhreinsun. Ef við hefðum lagvirkni til að útbúa og „flytja út“ einhverja iðnaðarvöru sem aðrir vildu nýta, þá væri íslendíngum lagður atvinnugrundvöllur sem stóriðja getur aldrei lagt.

Draumurinn um verksmiðjurekstur hér á landi og íslendínga sem verksmiðjufólk er ekki nýlunda; skáld síðustu aldamóta sáu í vondraumum sínum „glaðan og prúðan“ iðnverkalýð á Íslandi. Fyrir skömmu sá ég haft eftir einum forgaungumanni stóriðju á Íslandi, í umræðum á málfundi, að eina vonin til þess að íslendíngar gætu lifað „mannsæmandi lífi í þessu landi“ (orðatiltækið hefur heyrst áður), sé sú að gera þjóðina að verkamönnum erlendra stóriðjufyrirtækja. Hinum stórhuga iðnfræðíngi láðist að geta þess sem hann veit miklu betur en ég, að stóriðja með nútímasniði notar mjög sjálfvirka tækni og kemst af með hverfandi lítinn mannafla; ekki síst málmbræðslur einsog hér eru hugsaðar. Ekki er fyrir það að synja að fé sem flýtur til ríkissjóðs frá útlendum stóriðjufyrirtækjum starfandi í landinu, einkum af sölu á rafmagni, gæti orðið einhver smávegis búbót hjá því opinbera þó svo hafi enn ekki orðið, því sala rafmagns til Straumsvíkur er, reikníngslega, rekin með tapi, þjóðartekjur okkar af álbræðslunni eru ekki aðrar en daglaun þeirra verkamanna sem þar vinna og ekki eru fleiri en menn sem starfa að landbúnaði í meðalsveit á Íslandi. Erlend stóriðja hér er þannig þýðíngarlaus fyrir íslenskan iðnvöxt. Rafmagnssala til útlendra stórfyrirtækja er í raun réttri aðeins verslun ríkisins með réttindi; þau kaup snerta aðeins óverulega íslenskan vinnumarkað, framleiðni og utanríkisverslun.“

Þetta minnir óþyrmilega á daginn í dag og vefsíðu þar sem nokkrir menn hafa sett upp til að þrýsta á álver í Helguvík – sem er ætlað að þurrka upp allan orkuforða í 200 km radíus frá höfuðborgarsvæðinu. Á þeirri vefsíðu eru birtar myndir af allskyns nytjahlutum sem eru framleiddir úr áli. Þrátt fyrir að í 20 mínútna fjarlægð séu brædd um 200.000 tonn af áli þá hefur þeim ekki dottið í hug að búa til svo mikið sem hjólkopp.