Hvíta duftið

Súrál - stærsta innflutningsafurð Íslands.      

Hvíta duftið – innspýting fyrir hagkerfið.

 

Ímyndum okkur að við þyrftum að útskýra sjávarútveg fyrir manni sem þekkir ekki fyrirbæri eins og ,,haf“, ,,fisk“ eða ,,bát“ eða ,,slor“. Það myndi ganga frekar illa. ,,Já – Íslendingar þeir veiða handa og fótalaust dýr sem er kallað fiskur – en það syndir í svokölluðu hafi, það er saltur vökvi sem umlykur landið. Fiskar eru veiddir af mönnum sem fara út á einskonar málmskeljum sem fljóta á vatninu.“ Það má alveg ímynda sér svona samtal við einangraðan ættbálk í Sahara.

Ég hef aðeins þurft að glíma við þennan vanda núna í lokafrágangi heimildarmyndarinnar Draumalandið sem er byggð á Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð. Þar kemur áliðnaðurinn við sögu og við veltum fyrir okkur hvort ekki þyrfti að útskýra þetta fyrirbæri nánar. Um hvað snýst þessi iðnaður. Þá rákumst við á þetta undarlega  vandamál – áttum við að útskýra það frá grunni? Báxít – súrál – kolaskaut – rafmagn – ál. Veit þjóðin ekki á hverju hún lifir? Veit hún að þetta snýst allt um að flytja til landsins hundruð þúsunda tonna af hvítu dufti og tengja það við virkjun sem gæti knúið milljón manna samfélag. Þurfum við að segja fólki hvaðan hvíta duftið kemur? Þurfum við að útskýra ástandið í þeim löndum sem útvega okkur hvíta duftið? Við erum eins og einangraður ættbálkur í Sahara: ,,Fyrst er einskonar jarðvegur, svokallað báxít – grafið upp undan svokölluðum frumskógi…“ Það er merkilegt – að nánast enginn hefur nokkra mynd í kollinum af þeim 1.5 milljónum tonna af hvítu dufti sem koma til landsins árlega þótt við þekkjum öll áhrifin – vímuna og kraftinn, hvernig við missum raunveruleikaskynið. En þingmenn vilja núna tvöfalda skammtinn til að vega upp timburmennina. Fara upp í þrjár milljónir tonna árlega af hvítu dufti. Á Alþingi er um fátt annað rætt þessa dagana en ál og hvali. Eins og hjón rífast yfir tannkremstúbunni vegna þess að hið raunverulega vandamál er of óbærilegt til að ræða. Og einhvernveginn grunar mig að þótt Kópavogsbær hafi auglýst með hvalveiðum þá viti barn sem er alið upp við steypureðurinn í Smáralind ekkert meira um hvali eða hvíta duftið heldur en heimski útlendingurinn.