Hvað á að gera við miðborgina?

MAÓ 1706

Víkin sem Reykjavík er kennd við liggur undir bílastæði.

Margir spyrja sig þessa dagana þegar allt er hrunið og ekki verður byggt á lóð Landsbanka Íslands á stóra malarplaninu milli Hafnarstrætis og Tryggvagötu. Malarplanið ljóta var ekki alltaf svona ljótt og tilgangslaust. Það var einu sinni fullt af húsum. Og það var ekki aðeins fullt af húsum heldur var þarna einu sinni Vík. Og hvað er svona merkilegt við Víkina sem hefur verið fyllt upp í? Jú – hún er líklega sú Vík sem Reykjavík er kennd við.

Og hvað er svona merkilegt við það? Jú undir malarplaninu er þá væntanlega fjaran forna þar sem Ingólfur fann súlur sínar – ef tekið skal mark á fornum sögum. Þannig að malarplanið er hvorki meira né minna en sögustaður – upphaf byggðar á Íslandi og okkur hefur ekki borið gæfa til að rækta staðinn. Ég held að besta tillagan væri að byggja svæðið upp eins og það er á þessari mynd. Ekki eins og Borgartún, ekki eins og Kringluna, ekki eins og Smáralind, Korputorg – ekki eins og Vallarhverfið eða Norðlingaholt, ekki eins og við myndum gera það heldur með því að færa höfnina aftur nær Hafnarstræti og hafa lágreist hús í kringum höfnina. Þarna má sjá sjóinn ná langleiðina inn að Eimskipafélagshúsinu. Það mætti jafnvel flytja Árbæjarsafn niðureftir. Miðborgin er ekki borg – hún er þorp, eins og Seyðisfjörður, Hafnarfjörður, Ísafjörður og Stykkishólmur. Þorpið þarf höfn – sem sæmir þorpi.

waste1985wasteland2004