Svör á deiglunni.com

1. Hver er þín sýn á framtíð Íslands og tækifæri þjóðarinnar?

Framtíð og tækifæri þjóðarinnar liggja í því að fólk vilji búa hér. Að landið okkar, menning, tungumál og samfélag hafi á einhvern hátt aðdráttarafl og gildi í sjálfu sér burtséð frá því hvort við séum í síldarævintýri, netbólu, bankabólu eða kreppu. Ef fólk vill vera hér og setjast að með sína menntun þá verður framtíð og tækifæri í réttu hlutfalli við það sem menn hafa menntað sig til að gera . Niðurrif á sögufrægum húsum, sífellt aðför að náttúruverðmætum eða uppbygging á vanhugsuðum og ljótum hverfum sem enginn – ekki einusinni verktakarnir bera taugar til eru aðför að byggð í landinu. Vegna þess að það er síldaræðismódelið – Raufarhafnarmódelið – og eftir slíkt ævintýri stendur ekkert nema eyðilegging og rusl. Við þurfum að horfa mjög vel á öll mistökin og leiðrétta þau. Ef við gerum það er ég mjög bjartsýnn. Héðan þarf að koma mesta krítíkin og greiningarnar, hún má ekki aðeins vera í erlendu stórblöðunum og við megum ekki halda að með því að lesa þau ekki – verði hægt að búa til hugmynd um að allt verði í lagi.

2. Hverjar telur þú að verði helstu undirstöður hagkerfisins eftir 10-20 ár?
Þegar ég var 13 ára urðu Kiddi, Tóti og Finnur ásamt þeim sem voru ári eldri en ég í Fylki Íslandsmeistarar í 3. flokki. Þá hugsaði ég – ef þeir verða áfram jafn góðir eftir 10 ár þá verður Fylkir ekki í þriðju deild heldur í fyrstu og jafnvel Íslandsmeistarar. Þeir urðu það – næstum því – ekki síst vegna þess að þeir voru mjög ungir teknir upp í meistaraflokk og þeir freistuðust ekki til að skipta um lið. Með því einu að horfa á meistaraflokkinn þá voru engar vísbeningar um neinn framtíðarárangur liðsins. Núna er mikil reiði í garð ,,bankakrakkanna“ og menn eru beygðir, margir gjaldþrota. En þetta eru margir klárustu krakkarnir úr sínum árangri, með mestu tungumálakunnáttunna, mestu alþjóðlegu reynsluna og bestu samböndin.

Ef við horfum 10 ár fram í tímann þá hafa krakkarnir ,,okkar“ margir hverjir meiri reynslu en jafnaldrar þeirra í bönkum og stofnunum erlendis. Á meðan þeir sem nú lenda í kreppunni erlendis eru farnir á eftirlaun eftir 10 ár er okkar fólk aðeins um fertugt með mikla reynslu. Þótt ævintýrið hafi reyndar endað í þjóðargjaldþroti og ég sjái illa hvernig úr henni rætist þá er eina von okkar sú að mönnum beri gæfa til að breyta reynslunni í þroska og þekkingu þá er það bara staðreynd að upp úr því hljóta að spretta nýjar stofnanir, fyrirtæki og hugmyndir – ef mönnum ber gæfa til að skoða það sem gerðist á krítískan hátt og búa til fjarlægð við þetta tímabil í stað réttlætingar og yfirhylmingar. Þá munu menn sjá innan fárra ára að við búum að mikilvægri reynslu sem má ekki afskrifa í allsherjar reiðikasti. Það er ekki þjóðernisleg skoðun á ágæti fólks heldur einfaldlega það sem raunverulega situr eftir útrásina. Það er mikilvægt að hvatningarkerfi fyrirtækja breyti mönnum ekki í spilasjúklinga og lúxusskrímsli sem brjóta niður jöfnuð á landinu.

Ef reynslan nýtist og fólk vill búa hér þá verður hlutfallslega meiri bankastarfsemi hér en í flestum löndum eftir 20 ár, ferðamennskan og orkan eru mikilvæg – ekki síst hitaveitan og við þurfum hærra verð fyrir raforkuna í stað þess að virkja meira, fiskurinn verður mikilvægur en allt þetta er fyrirsjáanlegt. Fegurðin er mikilvæg vegna þess að hennar vegna vill fólk vilja búa hérna. Eftir 20 ár verða fyrirtæki á sviðum einhversstaðar á milli gerfilima og fiskflökunarvéla mikilvægust. Ég held að við verðum farin að taka meiri þátt í heilbrigðiskerfum beggja vegna Atlantshafsins með því að byggja upp deildir sem verða sterkar á einhverjum tilteknum sviðum – þar eigum við mikið af vel menntuðum en vannýttum kröftum og tækifærum. Við getum notað tungumálið, söguna og menninguna til að laða til landsins ungt fólk utan úr heimi. Við þurfum ekki svo marga þannig að það er ekki óraunsætt.

3. Sérðu fyrir þér breytta heimsmynd að 10 árum liðnum og ef svo er, hvaða skref þurfa Íslendingar að taka til að búa sig undir þær breytingar?
Ég sá ekki fyrir hrun Sóvétríkjanna, fall bankanna eða 11. september. Ég veit ekki hvort Kína rís eða fellur, hvort Arabía muni loga eftir 5 ár eða hvort olían sé raunverulega að verða búin eða ekki. Ég held að við förum í Evrópusambandið – ég var ekki mjög hrifinn af því vegna þess að ég taldi að það myndi draga úr okkur kraft og frumkvæði og ég sá kosti við krónuna þótt ég hafi stundum fundið sveifluna í mínum eigin litla útflutningi. Ég held að reynsla síðustu ára sýni að við þurfum óhjákvæmilega að tilheyra alþjóðlegum stofnunum, regluverki, mynt og aga – hér er allt svo persónulegt að það er farið að hamla okkur. Ætli Express verði ekki með fjögur flug á dag til Brussel eftir 5 ár. Samt er ég hræddur við oftrú á slíkri lausn og að við förum að skilgreina okkur sem jaðarsvæði og landsbyggð en ekki höfuðborg eða miðju – verstu atriðin í landsbyggðarhugsunin á Íslandi gætu þá færst yfir á þjóðina í heild sinni sem væri ekki gott. Eini undirbúningurinn er í því að rækta eigið lýðræði, sambönd við aðrar þjóðir og tungumálakunnáttu og ræktun á okkar menntun og menningu.

4. Hver er þín sýn á gjaldeyrismál þjóðarinnar?
Ég gerði 10.000 dollara samning við fyrirtæki úti í USA árið 2003. Það var um milljón krónur á þávirði. Þegar ég fékk greiddan samninginn fékk ég 650.000 krónur. Það skipti mig ekki máli, þetta voru jaðartekjur, ég hafði ekki ,,unnið fyrir þeim“ eða lagt út í beinan kostnað. Ef ég hefði hins vegar verið með starfsmann, ætlað honum 800.000 kall og mér 200.000 kall til að byggja upp fyrirtækið þá væri sama bisnessmódelið annarsvegar gjaldþrota – hins vegar bara skrambi fínt. Viðskiptamaður ársins og skúrkur eða auli ársins virðast stundum vera tvær hliðar á sama peningi – sömu krónunni.

Síðustu ár urðu margar mjög góðar hugmyndir undir þegar efnt var til stórframkvæmda og ofan á það hrúgað erlendum lánum á því falska gengi og vöxtum sem framkvæmdirnar mynduðu. Krónan hefði eflaust verið í lagi ef stjórnvöld kynnu að fara með peninga – eða mynt. En því er ekki að heilsa og eftir hrunið er erfitt að sjá að það sé hægt að endurvekja krónuna. Mér sýnist allt atvinnulífið æpa á Evru – þótt ég skilji alveg kosti krónunnar – launalækkun án blóðsúthellingar og allt það.

5. Þegar horft er til framtíðaruppbyggingar, hvaða lærdóm getum við dregið af áfalli síðustu mánaða?
Að setja ekki öll egginn í eina körfu. Að vera gagnrýnin og óhrædd við að tjá skoðanir sínar. Að líta ekki á peninga eða gróða sem markmið í sjálfu sér – heldur menntunina, verðmætin, þjónustuna eða hugmyndina sem á að framkvæma og gróðann þá sem afleiðingu. Að verða gegnsætt og heiðarlegt lýðræðissamfélag. Við erum á skiptispori. Kerfi hefur hrunið og margt misjafnt hefur komið í ljós. Núna eru stjórnvöld eins og stífla andspænis krafti fólks en ekki farvegur fyrir kraftana. Stjórnmálamenn segja ,,bíðið – við erum í björgunaraðgerðum“ og sýna ekki þá sjálfsögðu kurteisi að biðja fólk afsökunar á afglöpum og beina kröftum þaðan í uppbyggilega farvegi. Fólki er gefin sú ranghugmynd að stjórnmálin ráði raunverulega úrslitum um hvort okkur verði bjargað eða ekki. Þannig lama stjórnmálamenn fólk um þessar mundir um leið og þeim tekst ekki að vekja með fólki kraft eða von. Það skiptir öllu máli að auka gegnsæi og sporna gegn spillingu og færa valdið nær fólki. Annars held ég að fólk nenni ekki að búa hérna. Það gerist ekki með hvelli eða yfirlýsingum, það gerist hljóðlega og jafnvel ómeðvitað – eins og sandur rennur manni úr greipum. Það hefur nánast mátt ganga að því vísu undanfarin ár að mikilvægar upplýsingar til almennings hafi verið dulkóðaðar af almannatenglum. Það gildir um skipulagsmál, viðskipti, málefni ríkisins. Þetta stakk mig þegar ég fór að fylgjast með stóriðjuumræðu – hvernig öllum meginstærðum hefur verið haldið frá almenningi. Síðan velja stórfyrirtæki tölur ofan í fólkið. Ný kynslóð verður að taka við völdum. Ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna verða að koma saman og koma sér saman um sameiginleg gildi og leikreglur. Það verður að fela nýrri kynslóð sem á börn og skuldir völd og ábyrgð – ef ekki þá á hún þann einan kost að ,,flytja að heiman“. Það er til útlanda.

6. Hvernig má efla nýsköpun og styðja starfandi fyrirtæki sem búa við góðan rekstrargrundvöll?
Nýsköpun má efla með því að tengja betur saman háskólana, listaskólana og tækniskólana. Þetta er reyndar allt byrjað, bæði HR, nattura,info, HÍ og einstakir hópar eru byrjuð að leita. Það má gæta þess að tapa ekki menntuðu fólki úr landi. (Það má reyndar ekki vanmeta brottflutning úr landi vegna þess að þaðan koma öll okkar bestu sambönd og reynsla.) Það verður að halda fólki virku en ekki missa það heim í þunglyndi þegar það verður atvinnulaust að ósekju. Það er hægt að blanda saman gömlu og nýju í miklu meiri mæli, bændum og listaskólanemum, iðnhönnuðum og smiðum. Gamlsköpun er síðan annað mál – hvernig má koma í veg fyrir að hundrað ára gömul fyrirtæki deyji drottni sínum einmitt núna. Það hlýtur að felast í því að koma á jafnvægi og virkni eins fljótt og auðið er – að koma fólki í skilning um að með því að vera ekki áskrifandi að blaði, með því að fá sér ekki smið, með því að fara ekki út að borða eða í bíó er ekki verið að spara peninga – heldur að koma í veg fyrir að verðmæti verði til. Þess vegna ætla að ég að fá mér flatskjá sem táknræn mótmæli við sektarkenndina. Okkur er ekki betur borgið ef japaninn sem býr til flatskjá hætti við að kaupa sér fisk eða bók frá Íslandi og rækti kartöflur í staðinn – í ímyndaðri von um að báðir spari peninga þegar rauninn er sú að báðir kasta menntun sinni og þekkingu á glæ. Grundvallaratriðið er auðvitað jafnvægi. Mörg fyrirtæki hljóta að fara á hausinn og það verður sársaukafullt að koma aftur á jafnvægi – en við megum ekki hætta allri virkni.

7. Hvernig á að draga úr þeim auknu áhrifum ríkisvaldsins í atvinnulífinu sem hafa komið fram að undanförnu?
Hvernig má fá fólk til að eignast húsnæði aftur en ekki bara skuldir? Hvernig á fyrirtæki að byggja upp eigið fé aftur eftir að það var skuldsett til andskotans? Eigum við að gefa bankana aftur? Úff þetta er erfið spurning. Líklega er eina vonin fólgin í nýrri kynslóð – sem eignast ódýrt húsnæði – stofnar skuldlaus fyrirtæki. Ráðherrar og ráðuneyti ráða ekki við þessi verkefni eða eftirlitið og það er ekki æskilegt að flokkar hafi þetta vald. Það verður að dreifa valdi en á meðan allt er í óvissu hljóta að vera til aðferðir til að mótivera fólk án græðgi, að skipa í ráð eða stjórnir án spillingar, að reka fyrirtæki án þess að hola þau að innan í eigin þágu. Starfsfólk – er það ekki yfirleitt gott fólk? Getur það tekið á sig ábyrgðina í stað þess að færa félögin aftur með afskrifaðar skuldir í hendur ólígarkanna? Aukið vald til allra starfsmanna – aukin ábyrgð – fullkomið gegnsæi – öll laun uppi á borðinu og hætta forstjóra og eigendadýrkun í bili? Við hljótum að geta fundið einhver kerfi. Ekki látum við Finn fá bankana aftur?