Jón Gunnarsson býr í kjördæmi þar sem ferðamennska er langstærsti atvinnuvegurinn, hann á engan þátt í þeim ferðamannastraumi, það er náttúran og ímyndin – sem hann hefur ekki átt nokkurn þátt í að skapa eða vernda. Helsta gæluverkefni Jóns – hið strandaða draugaskip álversins í Helguvík átti að soga til sín alla orku suðvesturhornsins og stórauka loftmengun við Faxaflóa. Ekkert stendur eftir af því dæmi nema tugmilljarða tap og hálf gjaldþrota sveitarfélag.
Náttúruvendarsinnar hafa þurft að gerast talsmenn fyrir venjulegan kísildalsfrumkvöðlakapítalisma. Vinir Jóns hnussa yfir því og nota níðyrðið ,,eitthvað annað“ um heila iðnbyltingu sem hefur farið framhjá þeim. Björk sjálf virðist Jón taka sem dæmi um eitthvað sem enginn sjálfstæðismaður á að gera. Hún hefur alltaf farið sínar eigin leiðir, hún hefur ekki fylgt flokkslínum, hún hefur skapað allt úr engu, hún skapaði sína eigin klíku og sitt eigið vald, hún hefur unnið með mestu listamönnum okkar tíma, fengið tilnefningar til nánast allra verðlauna nema nóbelsverðlauna, eini Íslendingurinn sem segja má að sé mælanleg hagstærð. Já auðvitað er þetta algera sjálfstæði og einkaframtak grunsamlegt, ekkert frá hernum, enginn úthlutaður virkjunarkostur, engin meðgjöf og enginn frændi sem reddaði plötusamningi í Bretlandi.
Jón Gunnarsson er dæmi um menn sem hafa málað sig svo gjörsamlega út í horn að sjálf náttúran og sköpunarkrafturinn er ,,óvinurinn“ en sjálft ósjálfstæðið – að fórna landi sínu fyrir nokkur störf hjá alþjóðlegu stórfyrirtæki er æðsta dyggðin. Lágpunktur Jón Gunnarssonar, nota bene – valdamanns sem situr á alþingi – eru dylgjur um skattamál, sem er fasísk aðferð – á sama tíma og blinda auganu er snúið að þeim milljörðum sem Alcoa hefur skotið undan skatti. Ég skora á alla vini mína í Sjálfstæðisfloknum að lýsa yfir sjálfstæði, að þeir séu ósammála og ótengdir Jóni Gunnarssyni, ég skora á þá að skora á hann að biðjast afsökunar. Ég skora á þá að játa sig sigraða og sættast við fegurð Íslands og sköpunarkraftinn sem býr í fólkinu sem hér býr.