Áskorun til Ögmundar Jónassonar

Mislæg gatnamót í Gálgahrauni

 

Hér með skora ég á þig Ögmundur Jónasson Samgönguráðherra að koma í veg fyrir stórfelld mistök sem eru fyrirhuguð í Gálgahrauni. Eins og þessi mynd ber með sér á að byggja mislæg gatnamót með slaufum og öllu tilheyrandi, veg sem er hannaður fyrir 20.000 bíla á sólarhring fyrir 2500 manna byggð á Álftanesi. Það á að fara gegnum sögufrægt hraun og náttúruperlu að óþörfu. Þessi vegur var hannaður þegar hver einasta bæjarstjórn á höfuðborgarsvæðinu taldi sig geta tvö eða þrefaldað íbúatölu sína á örfáum árum. Það er ljóst að það er engin þörf á vegi af þessari stærðargráðu á meðan tóm hverfi bíða í Helgafellslandi, við Urriðaholt og víðar. Ríki, sveitarfélög og Orkuveitan hafa lagt þar milljarða í framkvæmdir sem ekki munu skila sér um ókomna framtíð. Það er engin ástæða til að byggja áfram á þeirri bólu – eftir að ljóst er að byggð við Garðaholt muni ekki rísa á næstu áratugum.

Læknar í USA hafa verið sakaðir um oflækningar, þeir gera fleiri aðgerðir og láta fólk taka óþörf lyf vegna þess að hvatakerfið er vitlaust. Vegagerðin er hér í offramkvæmdum sem spilla náttúru, umhverfi og efnahag. Hér fá Íslenskir Aðalverktakar 900 milljónir til að leggja óþarfan veg með mislægum gatnamótum slaufum og öllu tilheyrandi löngu eftir að forsendur hans eru brostnar.

Ég hvet þig til að láta málið varða. Hér er verið að sóa almannafé, spilla verðmætri náttúru og sóa tíma fólks sem er annt um hvort tveggja að óþörfu.

Að mati sérfræðinga myndu þrjú hringtorg og smávægilegar lagfæringar á umferðarhraða, beygjum og blindhæðum nægja til að láta gamla veginn uppfylla alla hugsanlega staðla um öryggi og samgöngur. Hann væri auk þess í takt við nútíma hugmyndir um vegagerð í þéttbýli.

Við höfum séð að undarförnum árum hvernig menn fórnuðu bæði náttúru okkar og efnahagslífi. Ég treysti því að þú látir ekki mistök af þessu tagi henda á þinni vakt. Þótt verkfræðingur sjái það ekki þá getur hvert fimm ára barn séð hvað þessi framkvæmd er óhófleg til að þjóna 2500 manna þorpi og einum forseta.