John Perkins – fyrrum Economic Hitman kemur á frumsýninguna.

Í kvikmyndinni um Draumalandið ræðum við meðal annars við John Perkins, höfund bókarinnar Confessions of an Economic Hitman. Hann starfaði sem Economic Hitman – efnahagsböðull. Í bók sinni segir hann frá því hvernig hann hafði það að markmiði að koma því til leiðar að bandarísk stórfyrirtæki kæmust í ódýrar auðlindir þriðja heims ríkja og knésetja jafnframt efnahag þeirra – í þeim tilgangi að komast í enn meiri og ódýrari auðlindir. Perkins er hagfræðingur að mennt og ein helsta aðferðin sem beitt var voru falsaðar og ýktar efnahagsspár, að ýkja efnahagslegan og samfélagslegan ávinning af risaframkvæmdum. Niðurstaðan var yfirleitt sú að landinu var útvegað gríðarstórt lán til að byggja vegi, brýr og stíflur – innviði sem þjónuðu einungis hagsmunum fyrirtækisins, peningarnir runnu aldrei í raun og veru til landins – heldur til verktakafyrirtækja eins og Bechtel. Innlendir aðilar nátengdir stjórnvöldum fengu hins vegar nægilega mola til að hagsmunir þeirra færu saman við hagsmuni stórfyrirtækisins. Landið og þjóðin stóð síðan eftir – með gríðarlegar skuldir og raskaðan efnahag eftir stórframkvæmdina. Eina leiðin til að komast út úr vandanum var að selja auðlindir sínar ódýrt – til þessara sömu fyrirtækja. Hver og einn getur dæmt fyrir sig, hvort Ísland lenti í Economic Hitman – eða hvort hérlendir aðilar frömdu efnahagslegt harakiri að eigin frumkvæði með aðferðum Perkins. En hér hafa vissulega verið menn sem passa við starfslýsingu Perkins og ég hef hitt þá og þeir starfa um allan heim. John Perkins segir – Iceland has been hit by an economic hitman – more than one. Í ljósi þess að Landsvirkjun er að fara á hausinn – eftir að hafa útvegað Bechtel risaverkefni og Alcoa ódýrt rafmagn sem sparar Alcoa um 200 milljón dollara árlega, má velta fyrir sér hvort raunverulegur Economic Hitman hafi komið hingað – eða hvort aðferðin sé hreinlega orðin almenn í þessum viðskiptaheimi. Ísland tekur nánast alla áhættuna af Alcoa með því að binda orkuverð við álverð. Rándýrshugsunarhátturinn sést vel í bréfi sem ég hef undir höndum og mælir með kaupum í Century Aluminum sem ætlar að byggja álver í Helguvík. ,,Icelandic energy companies will make extraordinary profits if aluminum prices keep strong – but if aluminum prices weaken – Iceland is not biting the hand that feeds it“. Þetta er samspil innlendra hagsmunaaðila, vonglaðra heimamanna, skorts á upplýsingum og gegnsæi, áróðurs og pólitískrar spillingar – en umfram allt risa sem hefur alþjóðlega yfirsýn og leikur sama leikinn aftur og aftur. John Perkins er með fyrirlestur á Háskólatorgi á mánudaginn klukkan 17:00. Hann verður einnig í Silfri Egils á sunnudag. Kaupið bókina hans – Confessions of an Economic Hitman – magnaður lestur.