Fimm stjörnur Morgunblaðið…

Fimmtudaginn 9. apríl, 2009 – Kvikmyndir – Háskólabíó

Tilfinningarússíbani

Draumalandið – *****

Leikstjórn: Þorfinnur Guðnason og Andri Snær Magnason.

Í gærkvöldi var heimildamyndin Draumalandið í leikstjórn Þorfinns Guðnasonar og Andra Snæs Magnasonar frumsýnd. Þorfinnur hafði yfirumsjón með kvikmyndatöku en hann hefur áður hlotið verðskuldaða athygli fyrir heimildamyndir sínar um hagamúsina Óskar, Lalla Johns og Húsey. Handritið byggist á samnefndri metsölubók Andra Snæs en hún hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2006. Bókin hefur verið umtöluð og komið við kaun þjóðarsálarinnar en óhætt er að lofa að myndin verður ekki eftirbátur hennar.Hér er um að ræða heimildamynd með afþreyingargildi á við frambærilegustu frásagnarkvikmyndir. Myndin er allt í senn epísk, glettin og spennuþrungin. Stórbrotið sjónarspil og eldfimt umfjöllunarefni ferja áhorfandann á heljarþröm í gegnum „tilfinningarússíbana“ sem stuðar farþegana til umhugsunar – sama hvort þeir samþykkja málstað myndarinnar eður ei. Metnaður og ástríða aðstandenda skila sér í hverjum ramma og háleit framleiðsluviðmið auka sjónræna nautn áhorfenda. Ómetanlegt gamalt myndefni hefur verið fléttað saman við frásögnina, myndefni af horfinni náttúru, merkum atburðum síðustu aldar og persónulegum minningabrotum úr einkaeign. Fyrir vikið er sköpuð tilfinning fyrir nánd fjölskyldunnar, náttúrunnar, landsins og menningarsögu þess – fyrir arfi sem á það á hættu að falla í gleymskunnar dá. Fortíðin er böðuð rómantískum blæ en samtíminn og náin framtíð fá á sig bölsýnan heimsendabrag sem er í anda annarra grænna heimildamynda síðustu ára en segja má að þessar myndir séu nýstárlegar hrollvekjur eða stórslysamyndir.

Hrynjandi myndefnis og hljóðflétta er álagaþrungin en stórbrotnust eru myndskeiðin af ægifegurð landsins sem fest voru á 35 mm filmu, aðallega úr þyrlu. Segja má að þessi myndskeið miðli „guðdómlegri“ sýn á truflaða náttúrufegurð fyrir og eftir „spjöll“ mannsins. Viðfangsefnið er umhugsunarvert og myndin góð afþreying en áhorfendur mega ekki afsala sér gagnrýninni hugsun.

Það má helst finna myndinni til foráttu að málflutningurinn er fremur einhliða og spennumögnun frásagnarinnar gefur ekki mikið svigrúm til umhugsunar á meðan á sýningu stendur. Þó er rætt við marga trúverðuga sérfræðinga sem víkka út málstað bókarinnar og það telst til tekna. Myndin er einnig grátbrosleg á köflum en hún er fyndin á kostnað andstæðinga málstaðarins. Vissulega eru þeir sinnar eigin gæfu smiðir en kaldhæðnislega er skerpt á óförum þeirra með hliðrun á samhengi heimildaefnis.

Markmið myndarinnar er þrátt fyrir þetta göfugt, hún hvetur áhorfendur til að spyrna gegn gleypandi áhrifum alheimsvæðingar, neysluæðis og vera ekki sjálfstýrðir af ráðandi hugmyndafræði. Hún reynir að tendra vitundarvakningu meðal almennings um neikvæðar hliðar þeirrar framfaratrúar sem ríkt hefur síðan á upplýsingaöld. Hún ákallar áhorfendur að rækta líf sitt, jörð, frumleika og sköpunarkraft. Draumalandið er stórmynd á heimsmælikvarða og frjó innspýting í eldfima samfélagsumræðuna.

Hjördís Stefánsdóttir