Að minnka losun Íslands um 50% á 10 árum

Það er óhætt að segja að þeir sem fygljast með fréttum af loftslagsmálum séu fljótir að þróa með sér samviskubit og jafnvel sjálfshatur eins og margir upplifðu þegar þeir sáu þessa frétt. Ég lifi sjálfur í þessari þversögn, flýg til útlanda oft á ári vegna útgáfu verka minna og held fyrirlestra sem fjalla meðal annars um bráðnun jökla og framtíð jarðar. Það er erfitt að sjá einhverjar raunverulegar breytingar eiga sér stað, framfarir eða vonarglætur og sífellt koma fram alvarlegri afleiðingar og ógnvekjandi spár.

Það getur verið erfitt að fóta sig í þessum loftslagsfræðum og loftslagsfræðingar virðast ekki beinlínis hafa fengið skáldgáfu í vöggugjöf þegar sviðsmyndir IPCC heita SSP1 og SSP2 og línuritin segja manni að eitthvað sé án LULUCF. Maður hrökklast auðveldlega burt og lætur sérfræðingum eftir að ræða þetta, miðla og skilja.

Markmiðin sem eru sett fram í nýjustu skýrslu vísindanefndar sameinuðu þjóðanna virðast nánast fáránleg og óframkvæmanleg. Samkvæmt henni á mannkynið að hafa hætt losun á CO2 árið 2050 og eftir þann tíma á jákvæð binding CO2 að verða smám saman jafn mikil og losunin er núna. Semsagt, við eigum að binda meira en við losum, við eigum að spóla til baka öllum okkar hringvegum, utanlandsferðum og rúntum unglingsáranna. Vandinn er sá að ef við náum ekki þessum markmiðum mun mannkynið og jörðin öll ganga gegnum langan lista af hörmungum, súrnun sjávar, þurrka, uppskerubrest, skógarelda, eyðimerkumyndun, flóttamannastraum osfrv…

Á kvöldi sem ég stóð fyrir í Hannesarholti var fjallað um tímann og loftslagið. Þar ákvað ég að prófa að leggja áherslu á vonina eftir nokkuð þynglyndislegar spár um framtíð hafsins og jöklanna. Mig langaði að heyra um lausnir, en við þurfum semsagt að binda meira en við losum. Það er nánast f´áránlegtilhugsun eins og staðan er í dag. En ef við horfum á losun Íslands þá er hún nærri fimm milljónum tonna af CO2 árlega. 

En er svo fáránlegt að koma Íslandi nærri núlli í losun á CO2? Ef við lítum nánar á tölurnar þá losar bílaumferð c.a milljón tonn árlega hérlendis. Það er nú þegar komin fram tækni til að rafbílavæða samgönguflotann og eftir 20 ár verður fyrirbærið bensínstöð álíka framandi fyrirbæri og sjoppa eða vídeóleiga.

Ef við lítum síðan enn nánar á tölurnar má sjá að álverin þrjú, Alcoa, Rio Tinto og Century losa álíka mikið og bílaflotinn og flugið til samans og nú virðist komin fram tækni til að koma þeirri losun niður í núll.

Í Hannesarholti var Dr. Sandra Snæbjörnsdóttir með erindi en hún hefur verið hluti af CarbFix teyminu uppi á Hellisheiði. Þau hafa staðið fyrir tilraunaverkefni sem hefur tekist framar vonum og nú eru þau farin að binda um 10.000 tonn árlega af losun Hellisheiðarvirkjunar og megnið af brennisteinsvetninu sem verksmiðjan losaði. Aðferðin er tiltölulega einföld, í rauninni er hér um að ræða hálfgert Soda Stream. CO2 er blandað við vatn og sódavatninu er dælt ofan í jörðina og þar verða efnahvörf þar sem lofttegundin breytist í silfurberg en með brennisteininum verður til glópagull.

Nú hafa þau gefið út vísindagrein þar sem kostnaður við að losna við hvert tonn af CO2 er c.a 25 dollarar tonnið. Þetta verð miðast við tækni sem er rétt að komast af þróunarstigi og er í eðli sínu alls ekki flókin þannig að verðið ætti að lækka talsvert ennþá. Tæknin felur ekki í sér flókin aukaefni heldur er einfaldlega verið að vinna með náttúrulegum ferlum.

Álverin og kísilverin á Íslandi losa um 1.8 milljón tonn á ári og eru þannig langstærsti einstaki mengunarvaldur á Íslandi. Þannig að ef CarbFix virkar eins og það virðist gera væri hægt að minnka losun frá Íslandi, sem nemur öllu flugi og allri bílaumferð á örfáum árum með því að koma böndum á álverin. 

Samtals, miðað við núverandi tækni blasir við að á næstu árum ætti að vera hægt að minnka losun Íslands um að minnsta kosti 50% og það væri alls ekki dýrt, heldur þvert á móti, af því yrði mikill hagur.

Tonnið á áli er á heimsmarkaði um 2000 dollarar tonnið. Þannig að kostnaður við að binda CO2 frá álverunum ætti ekki að vera meiri en 4 – 5 milljarðar árlega -eða c.a 1-2% af álverði. Það er minna en meðalsveifla á álverði milli mánaða. Ef heimsmarkaðurinn er ekki tilbúinn að greiða 1% hærra verð frá verksmiðju sem er án CO2 losunar – þá yrði það einfaldlega til merkis um gagnsleysi markaðarins þegar kemur að mikilvægum málefnum.

Ég tek auðvitað ekki ábyrgð á nýrri tækni en þetta er kjörið efni fyrir fjölmiðla og stjórnmálamenn að fylgja eftir. Væri raunhæft að nota Carbfix tæknina og núlla út álverin á nokkrum árum? Hérlendis eru ungir vísindamenn og konur sem geta og kunna að leysa þetta vandamál. Ef tæknin er talin örugg og öll aðstaða er fyrir hendi er ekki eftir neinu að bíða. Þá er heldur engin ástæða til að bíða eftir markaðnum, ef þetta gerist ekki nógu hratt má setja skatt eða lög. 

Síðan má fljúga sjaldnar og betur og kolefnisjafn flugið sitt með því að styrkja sjóði eins og Auðlind sem stuðlar að endurheimt votlendis og Yrkju en gegnum hann hafa grunnskólabörn bundið tugþúsundir tonna af CO2 á síðustu þrjátíu árum.

Og þegar það er komið þarf að taka á landbúnaðnum, skipunum, matarvenjum, neyslu og úrgangi. Þannig að ef við horfum bara á Ísland, þá er full ástæða til bjartsýni um að hægt verði að ná talsverðum hluta af þessum markmiðum.

Forsetaframboð Andra Snæs 2016

12987137_10154135300010844_5421268627675036675_n

Þjóðleikhúsið

Mánudagurinn 11. apríl 2016

Kæru vinir, ættingjar og aðrir gestir

Það er vandi að taka stórt skref, að taka stóra stökkið og eins og einhvern hér inni hefur ef til vill grunað – þá hef ég ákveðið að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands.

Forseti Íslands.

Forseti Íslands getur verið farvegur fyrir nýjar hugmyndir og nýja strauma, Bessastaðir voru á tímum Fjölnismanna sá staður á Íslandi þar sem nýjar hugmyndir í listum og vísindum bárust fyrst til landsins og voru orðaðar í fyrsta sinn á íslensku.

Forseti Íslands getur tengt fólk saman, hann getur leitt saman ólíka hópa, hann getur lyft mikilvægum málum, hann getur látið andstæður mætast og fundið sameiginlega fleti en um leið þarf forseti að hafa skýra sýn, sterka rödd og sannfæringu.

Forsetaembættið á Íslandi er merkilega opið og skapandi. Forseti Íslands getur sett mál á dagskrá, hann getur vísað lögum til þjóðaratkvæðis, hann getur haft áhrif á stjórnarmyndun og hann er eina manneskjan á Íslandi sem er raunverulega þjóðkjörin.

Við viljum öll vera stolt af því að tilheyra íslensku samfélagi, við viljum eiga eitthvað sameiginlegt og okkur langar að vaxa og dafna í þessu fallega landi en stundum er eins og við eigum fátt sameiginlegt.

Á síðustu dögum hefur gamalt sár opnast en kannski er þetta líkara beinbroti sem gréri vitlaust saman og þarf að brjóta aftur til að það grói rétt. Það er sárt en líklega óhjákvæmilegt.

Ég stíg fram vegna þess að mig langar að bjóða fram ákveðna framtíðarsýn.

Ég hef verið heppinn með fyrirmyndir í lífinu og samferðafólk, margir eru í salnum hér í dag. Ég á tvær sterkar fyrirmyndir í Guðmundi Páli Ólafssyni og Vigdísi Finnbogadóttur. Uppáhalds ljóð þeirra er eftir Snorra Hjartarsonar sem byrjar svona: ,,Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein, þér var ég gefinn barn á móðurkné.“

Ljóðið fjallar um vöggugjafirnar sem Íslendingum eru gefnar. Við getum kallað það land, þjóð og tunga eða náttúru, lýðræði og menningu – í rauninni liggur þar kjarni embættis Forseta Íslands.

Þrjár stoðir sem hann þarf að gæta að.

Mig langar til að leggja fram þrjú verkefni sem ég tel að gætu verið þjóðinni til heilla.

Við þurfum að spyrja okkur. Í hvernig landi viljum við búa? Hvað viljum við standa fyrir, hvernig viljum við taka þátt í hinum stóra heimi? Já hvaða skilaboð viljum við færa heiminum?

Hvað ætlar okkar kynslóð að gera, hvað ætlar hún að skilja eftir sig í stóra samhenginu? Ein kynslóð stofnaði lýðveldið 1944, ein kynslóð færði út landhelgina, ein kynslóð kaus konu sem þjóðarleiðtoga fyrsta allra þjóða. En hvað viljum við gera? Hvað á sá sem talar fyrir okkar hönd að hafa í farteskinu?

Ég tel að þjóðgarður á Hálendi Íslands sé ein af þessum stóru hugmyndum sem við gætum látið verða að veruleika. Þjóðgarður myndi staðfesta mikilvægi og gildi náttúrunnar í sjálfri sér. Hálendið er hluti af sjálfsmynd okkar. Hálendið er kjarninn í ímynd Íslands og þjónar þannig öllum landsmönnum. 40.000 ferkílómetra þjóðgarður væru mikilvæg skilaboð út í heim þar sem náttúran á alls staðar í vök að verjast.

Umhverfismálin eru og verða langstærsta áskorun 21.aldar. Ef jörðin á að bera öll þau börn sem við viljum eignast þá þurfum við að endurhanna og endurhugsa nánast alla 20, öldina. Þessar breytingar eru lífsnauðsynlegar en þær eru ekki neikvæðar. Þær verða kjarninn í allri framþróun í öllum greinum í náinni og fjarlægri framtíð.

Sem fiskveiðiþjóð eigum við allt okkar undir hafinu. Ég sé fyrir mér að embættið geti verið mikilvæg rödd í verndun hafsins. Barn sem elst upp á Íslandi á að hafa æði fyrir fiskum. Hvort hvalir verði ætir í framtíðinni, er líklega mikilvægari spurning en hvort þeir séu veiddir.

Jöklar bráðna fyrir augum okkar. Amma mín er hér í salnum. Hún fór í brúðkaupsferð upp á Vatnajökul árið 1956. Ef barnabarn mitt nær sama aldri og hún – verður það enn á lífi árið 2120.

1924 – 2120 Það er tíminn sem tilheyrir okkur – það er tíminn sem við getum snert með berum höndum. Tími einhvers sem við þekkjum og elskum og tími einhvers sem við munum þekkja og elska.

Við þurfum að læra að hugsa í lengri tíma en ársfjórðungsuppgjörum og mislöngum kjörtímabilum.

Þess vegna eru umhverfismálin eitt mikilvægasta viðfangsefni forseta Íslands.

Jöfnuður, jafnrétti og jöfn tækifæri er forsenda þess að við getum kallað okkur þjóð. Ég fylgdist með þjóðfundinum, þar sem 1000 Íslendingar valdir í slembiúrtaki komu saman og ræddu gildi sín og framtíðarsýn. Ég fylltist ákveðinni von vegna þess að sneiðmyndin af þjóðinni var fallegur hópur sem gat talað saman. Almenningi var gefin rödd og við sýndum að lýðræðið er skapandi ferli í sífelldri þróun. Í kjölfarið átti að verða til nýr samfélagssáttmáli og grundvallarlög fyrir samfélagið okkar. Tilraunin var einstök og vakti athygli um allan heim.

Það er mikilvægt að klára stjórnarskrána, við þurfum nýjan samfélagssáttmála og ferlið er ekki ónýtt, þótt það hafi laskast. Nýja stjórnarskráin verður að eiga rótfestu í þjóðfundinum.

Þjóðgarður og stjórnarskrá væru verkefni sem myndu lýsa langt út fyrir landsteinana og vekja vonir hjá fólki um allan heim.

Guðmundur Páll Ólafsson sagði þetta:

Þú verndar aðeins það sem þú elskar,
þú elskar aðeins það sem þú þekkir.
Þú þekkir aðeins það sem þér er kennt

Ég hef hitt meira en 20.000 skólabörn hér heima og erlendis síðustu 10 ár, ég hef tekið þátt í verkefnum sem tengjast skapandi skrifum og læsi. Ég spyr börnin oft hvort þau tali fleiri tungumál en íslensku og í hverjum bekk réttir einn eða fleiri upp hönd og þau nefna alls kyns tungumál.

Sá sem ræktar sitt móðurmál skilur gildi tungumála almennt og þar er ein stærsta áskorun komandi ára. Tungumálið og móðurmálin þurfa að eiga sér málsvara. Við verðum að gæta þess að krakkarnir taki við keflinu og fyllist ást á tungumálinu.

Ísland verður að vera land tækifæranna fyrir börn sem flytja hingað. Tölfræðin sýnir að mörg þeirra standa höllum fæti. Ef við vöndum okkur munum við eignast sterka einstaklinga með djúpar rætur í fjarlægum menningarheimum. Ef við sofum á verðinum gæti stór hópur misst tökin á sínu eigin móðurmáli án þess að læra íslensku. Tungumálin eru lykill að heiminum og embættið getur lyft þessum málaflokki.

Land, þjóð og tunga. Þrjú orð sem fela í rauninni í sér öll önnur svið sem heyra undir embættið.

Hvað gerði okkar kynslóð?

Við ættum að klára þjóðgarðinn sem er kjarninn í náttúru okkar.
Við eigum að ljúka við stjórnarskrána sem er grundvöllur stjórnskipunar okkar.
Við eigum að taka utan um móðurmálin okkar – sem eru farvegur hugsunar okkar og menningar.

Það er af þessum ástæðum – kæru vinir sem ég býð mig fram í embætti forseta Íslands.

 

  1. apríl 2016.

Andri Snær Magnason

 

 

 

 

Ljósmyndir: Christopher Lund og Jón Gústafsson

Ekki draumastarfið? Er unga fólkið vanþakklátt?

Hér er áhugaverð rannsókn á Eyjunni um að ungt fólk úti á landi láti sig ekki dreyma um starf í stóriðjunni og allt virðist benda til þess að uppbygging á landsbyggðinni sé á skjön við drauma ungs fólks. Þegar umræðan um stóriðju hófst á Austurlandi kringum 1999 þá kostaði 100.000 krónur á mánuði (ef ég man rétt) að fá ADSL tengingu á Seyðisfirði (100 kall á kílómeter frá Múlastöð) – en tenging var forsenda þess að menn gætu unnið verkefni í tölvu á Austurlandi.  Þeir sem alast upp á Íslandi í dag njóta þeirra forréttinda (ólíkt flestum jarðarbúum í gjörvallri mannkynssögunni) að geta valið sér starfsvettvang í öllum heiminum, þá á ég við í ÖLLUM heiminum. Það er að segja: viltu vinna á rannsóknarstöð á Suðurskautinu, hjúkrunarstörf í Afríku, fiðluleikari í New York, arkítekt í Danmörku, smiður í Noregi, skúringar á Hornafirði, tryggingaráðgjöf í Garðabæ, þrívíddarhönnuður í London, sjómaður á Akureyri, flugmaður í Arabíu, barþjónn á Indlandi eða eitthvað af þeim 190.000 störfum sem nú eru til á Íslandi og þeim tugþúsundum starfa sem verða til á næstu 20 árum í greinum sem við kunnum ekki að nefna. Af hverju kemur einhverjum á óvart að draumurinn er ekki að vinna í óheilnæmu lofti í geimbúningi á virkasta jarðskjálftasvæði landsins sem áður var einhver fallegasta vík á landinu að kraka í 1000 gráðu heitum málmi fyrir eitthvað Þýskt fyrirtæki sem býr til eitthvað fyrir einhvern.

Screenshot 2015-07-09 01.41.44Screenshot 2015-07-09 01.44.34Screenshot 2015-07-09 01.47.11Screen Shot 2015-07-02 at 18.48.29

11. september í héraðsdómi

 

Ég bar vitni í Héraðsdómi Reykjaness þann 11. september og það var merkilegt að koma inn í dómshús í fyrsta sinn. Ég þekki ekki vel hvernig dómstólar vinna eða hvað þeir meta. Mér fannst skipta miklu máli að jarðýtan sem mætti í hraunið þennan eina dag hefði ekki verið þarna nema vegna þess að þarna voru mótmælendur, hún kom vegagerðinni sjálfri ekkert við. Jarðýtan ruddist gegnum hraunið – alla veglínuna og sárið eftir þessa einu umferð gegnum hraunið stóð óhreyft tveimur mánuðum síðar. Jarðýtan hafði aðeins það hlutverk að ógna fólkinu, ryðja því burt og eyðileggja í leifturárás það sem fólkið vildi vernda og taldi með rökum að væri hægt að vernda í dómsmáli sem lá fyrir – en lá ofan í skúffu í dómskerfinu.

Screen Shot 2014-02-07 at 5.22.19 PM

Aukafjárveiting var ekki veitt til að flýta málinu og útkljá það heldur kusu yfirvöld að fara mun dýrari leið valdbeitingar (ofbeldis) þar sem 60 lögreglumenn niðurlægðu fólkið og ógnuðu á sama tíma og hraunið sem þeim var heilagt var troðið niður og rústað fyrir augum þeirra af fádæma ruddaskap. Markmiðið var ekki að semja, fólk fékk kærur sem höfðu verið prentaðar út og dagsettar á föstudegi, þegar blitzvegagerðin var á mánudegi. Þeir sem voru kjarkaðir og staðfastir (og undir 100kg) voru settir í kalda einangrunarklefa og síðan fyrir dómstóla. Hvert er markmiðið? Hverjum datt í hug að í þessu litla landi ætti að byggja upp kalt og ópersónulegt lögregluríki? Eru þetta skilaboð til samfélagsins? Er skilyrðislaus hlýðni æðsta dyggðin og reyndist hún 20. öldinni vel?

1656310_608941332512609_836467742_n

Hefur ekki svona fólk einmitt verið fyrirmyndir í öllum viti bornum samfélögum? Og það sem ég hugsaði í þessum dómssal var – eru dómstólar til að verja fólk eða valdakerfið? Meta þeir hvort þessi jarðýta hafi verið þarna að óþörfu og jafnvel ólöglega, til þess eins að storka fólki og búa til glæpamenn úr þeim sem eru með heilbrigða réttlætiskennd – meta þeir meðalhófsreglu og mannúð – eða er þetta meira eins og lögfræðivél – 01010110: Hlýddirðu skipunum? Ef NEI – þá ertu sekur. Og með nákvæmlega þessari aðferð – væri ekki hægt að handtaka hvern sem er hvar sem er og gera að glæpamanni?

Hverjir vilja ,,vernda“ þig?

Gæsir búa til friðardúfu

Lífið gengur sinn vanagang og fólk gengur að sínum réttindum vísum og man eða veit ekki á hvaða grundvelli við byggjum okkar samfélag. Ég sé að ég á 70 vini sem mótmæla byggingu bænahúss í tengslum við trúarbrögð sem 1/5 jarðarbúa virðast aðhyllast. Staðsetningin skiptir fæsta máli á síðunni, menn vilja bara koma í veg fyrir að svona miðstöð verði til og sumir vilja banna þessi trúarbrögð almennt á Íslandi, meðal þeirra er fyrrum framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðismanna. Gott og vel, við skulum banna eina tegund trúarbragða en hvernig framkvæmum við þetta bann? Bönnum við fólki að biðja? Bönnum við fólki að leigja sér sal eða bara að byggja eða eiga hús undir starfsemina? Lokum við landinu fyrir þeim sem aðhyllast þessa trú og hvernig metum við og mælum við trú fólks? En ef menn eru frá viðkomandi löndum og segjast trúlausir? Lokum við landinu almennt og við hvaða lönd miðum við? En ef þetta er sænskur ríkisborgari? Og hvernig framfylgjum við lögunum og losum okkur við þessa trú eða komum í veg fyrir að hún birtist okkur í daglegu lífi? Með lögregluvaldi? Rannsóknum, hlerunum? Vísum við fólki úr landi en hvað með blönduð hjónabönd? Hvað með þá 600 sem eru hér – (fáránlega lítill hópur miðað við tvo borgarfulltrúa) Hvað með börnin þeirra? Á að endurmennta þau? Á að kristna þau? Hvernig? Og er það ekki þannig að þeir sem eru harðastir á þessum síðum hata líka umhverfisverndarsinna og femínista og sósíalista og þeim er meinilla við RÚV, listamenn, Evrópu almennt, Háskólann og reiðhjól og hver er þá munurinn á þeim og þeim sem þeir ætla að ,,vernda okkur“ gegn.