Allt að gerast í Brazilíu – Tímakistan og LoveStar

Ferill minn er býsna ólínulegur þegar komið er út fyrir landsteina og nú nýlega var LoveStar að koma út í Brazilíu, um það bil 16 árum eftir útkomu bókarinnar hérlendis. Langlífi bóka er auðvitað ákveðið lúxusvandamál fyrir rithöfund og frábært að sjá LoveStar lifa svona ágætu og löngu lífi, nú er hún talsvert borin saman við Black Mirror seríuna og einhver hefur haft á orði að sumt í ákveðnum þáttum þar fari full nærri LoveStar, ég skal ekki meta það. Í Brazilíu fylgir LoveStar fylgir í kjölfar Tímakistunnar sem kom út í fyrra og þar er ég að eignast í fyrsta sinn lesendur sem lesa eina bók og síðan aðra strax í kjölfarið. Tímakistan og LoveStar koma út hjá Morro Branco, sem er vaxandi forlag í Sao Paulo með marga virta og góða höfunda. LoveStar virðist vera einstaklega vel úr garði gerð skv Instagram myndum sem ég hef séð. Ég er ekki enn kominn með eintak í hendurnar. Blái hnötturinn kom út í Brazilíu fyrir nokkrum árum, þannig að nú eru þrjár bækur fáanlegar á Portúgölsku.

Tímakistan hefur fengið fullt af góðum dómum og umsögnum frá lesendum. Þar sýnist mér titillinn hitta vel í mark: A Ilusao do Tempo, eða Tímablekkingin / Sjónverfing tímans. Mjög ljóðrænn og góður titill sem hæfir vel portúgölskunni. Þýðandi tímakistunnar er Suzannah Almeida. Þýðandi LoveStar er Fabio Fernandez hefur komið víða við en meðal höfunda sem hann hefur þýtt eru goðsagnir vísindaskáldsögunnar: Isaac Asimov, Philip K. Dick og William Gibson.

Hér er fullt af fimm stjörnu dómum um Tímakistuna.

Hér er stórt viðtal við mig í einu stærsta dagblaði Brazilíu:

Hér er ritdómur um Tímakistuna:

https://www.correiodocidadao.com.br/noticia/uma-fabula-que-nos-avisa-sobre-o-nosso-futuro-a-ilusao-do-tempo

Annar dómur hér:

http://acervodoleitor.com.br/a-ilusao-do-tempo-resenha/

Og hér er dómur um LoveStar:

http://www.ficcoeshumanas.com/fantasia–ficcao-cientifica/resenha-lovestar-de-andri-snaer-magnasson

Suður Amerískar bókmenntir hafa alltaf haft mikil áhrif á mig og það er mikill heiður að fá góðar móttökur þarna niðurfrá í hjarta töfraraunsæisins.

 

Upptaka frá HÍ – hvernig verður bók til?

Hér fyrir neðan er upptaka af innleggi Andra Snæs Magnasonar í fyrirlestraröðinni Hvernig verður bók til? sem hefur verið haldið úti af námsbraut í ritlist og Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands frá 2009. Fyrirlesturinn fór fram í stofu 101 í Lögbergi milli 12 og 13 fimmtudaginn 13. febrúar 2014.

Hvernig verður bók til?

Ég hélt mér einkum við Bláa hnöttinn en hafði ætlað mér að fara um víðan völl og inn í önnur verk, en Blái hnötturinn reyndist meira en nóg fyrir eina kennslustund, þó kom ég við bæði í LoveStar og Draumalandinu og Bónus ljóðum. Það var gott stuð í salnum og skemmtileg stund að mér sýndist. Hér er upptaka af þessum fyrirlestri.

Það er aldrei að vita nema ég hendi inn nokkrum frumgögnum til viðbótar svo fólk geti lesið og áttaði sig á því hvert ég var að fara. Þar með talinn áður óbirta endann á LoveStar, millikaflann í Bláa hnettinum, umsókina um listamannalaun frá 1998 sem lýsir hugmynd höfundar um verkið áður en það kom út og reyndar – áður en það var skrifað og kannski nokkur ljóð eftir Bergsvein Birgisson. Ég hafði ætlað mér að lesa þau í Háskólanum en gleymdi að lesa – eitt þeirra úr Innrás liljanna varð kveikjan að skógarbirni og heilum kafla í Bláa hnettinum.

Tímakistan fær Íslensku bókmenntaverðlaunin – ræðan og fleira

Forseti Íslands og aðrir gestir

Ég er stoltur og glaður að taka við þessum verðlaunum og auðvitað rígmontinn, þetta er í þriðja sinn sem ég stend hér og einhverjum gæti fundist nóg komið en ég vil benda á að ein uppáhaldsbókin mín, Morgunþula í stráum fékk þessi verðlaun árið 1998. Thor Vilhjálmsson skrifaði hana en þá var hann 73 ára gamall. Þar hef ég stillt stöngina.

En stærsta stundin mín tengd þessum verðlaunum er ekki frá árinu 1999 eða 2006 – heldur árið 2008 þegar Sigurður Pálsson hélt sína þakkarræðu. Þá varð mér litið á símann og sá þar 16 missed calls á síðustu 10 mínútum. Konan mín hafði misst vatnið, ég rauk út og okkur fæddist dóttir sama kvöld. Hún er hérna í dag – 6 ára á morgun. Já tíminn flýgur.

Og ég var ansi lengi með þessa bók í maganum, þreföld fílameðganga og það er mörgum sem ber að þakka. Ég vil þakka konu minni Margréti Sjöfn Torp fyrir óteljandi yfirlestra og óendanlega þolinmæði þegar ég skrifaði þessa bók. Ég vil þakka Sigga vini mínum fyrir að hýsa mig í New York þegar ég kom bókinni loksins á skrið og fann rétta tóninn og Dony og Grétu á Ustica þegar við tókum lokasprettinn. Ég þakka Forlaginu fyrir að nenna að biða svona lengi eftir bókinni, Sigþrúði fyrir ritstjórnina og öðrum vinum mínum sem lásu hana yfir. Katla Rós fær sérstakar þakkir fyrir að gera bókina fallega.

Ég vil líka þakka launasjóði rithöfunda fyrir stuðninginn og föður mínum fyrir að lesa fyrir mig Elsku Míó minn og móður minni fyrir skuggaleikhúsin – sem ég man því miður ekki lengur um hvað fjölluðu. Jú svo vil ég þakka Mikael Ende, HC Andersen, Jóni Árnasyni þjóðsagnasafnara, Grimms bræðrum og mörgum fleirum. Félag bókaútgefanda á heiður skilinn fyrir að hefja barnabókmenntir á þennan stall.

Ég hef þá trú að ævintýrin reyni að segja okkur eitthvað um það hver við erum. Ævintýrin geyma erkitýpur og frummyndir sem spegla veruleikann. Stundum óljósar, stundum augljósar. Þau fara með okkur lengra en raunveruleikinn getur borið okkur.

Það hefur svosem ekki verið auðvelt að sökkva sér ofan í ævintýraheim hér á Íslandi síðustu árin, raunveruleikinn hefur verið yfirþyrmandi, á köflum vissulega ævintýralegur. Við höfum séð hetjur og skúrka, ris og fall stórvelda. Raunveruleikinn hefur verið fáránlegur, hneykslanlegur, sorglegur, tragíkómískur og oftar en ekki brýnn og aðkallandi. Þegar ég skrifaði þessa þakkarræðu varð hún oftar einu sinni fimm blaðsíðna ritgerð um Þjórsárver eða hraunið sem við sjáum hérna út um gluggann eða umfjöllun um samfélag sem hendir ástríðufullum rithöfundi og áhugamanni um samfélagið úr stjórn RÚV og setur innmúraðan flokksmann í staðinn. Stundum er engu líkara en að Láki jarðálfur vakni hér á hverjum morgni og hugsi sem svo – hvern á ég að ergja í dag? En einhvernveginn svona er vinnuumhverfið á þessu landi.

Í sögunni minni eignast Dímon konungur Tímakistu. Hún er ofin úr kóngulóarsilki, úr svo þéttu efni að tíminn sjálfur kemst ekki inn í hana, hann eignast alveg einstakt tæki til þess að fylla alveg upp í öll göt tímans, að gjörnýta hvert augnablik og hverja einustu stund í lífi Hrafntinnu dóttur sinnar.

Sá sem skrifar bók fyrir börn og unglinga lendir sjálfkrafa í umræðunni um lestur og læsi og PISA könnunina alræmdu. Margir segja að lestur sé mikilvægur. En hvers vegna? Ég stend mig iðulega að því að beita efnahagslegum röksemdum – að bókvitið verði í askana látið, lestur sé lykill að námsárangri – þannig verði Ísland samkeppnisfært í framtíðinni, án lestrar verður enginn hagvöxtur og þá geta hjól atvinnulífsins ekki reykspólað um allar trissur. Og svo benda menn á að bækur séu vinsæl gjafavara og atvinnuskapandi hluti af hinum skapandi greinum, jafnvel góð landkynning. En svo hugsa ég – af hverju get ég bara talað svona um eitthvað jafn mikilvægt og læsi, með tilvísun í arðsemi og hagvöxt?

Og mér finnst ég vera að bregðst einhverju með því að tala svona. Ef þetta eru helstu rökin, hvernig get ég réttlætt listamann sem býr til eitthvað sem ekki er til sölu? Hvernig getum við réttlætt hálendið sem er þarna bara eins og risastórt gat í miðju landsins? Já til hvers er það? Við réttlætum tilgang listamanna með því að benda á einn sem seldi fyrir hundrað milljónir, annan sem er heimsfrægur. Bendum á ferðamannaeyðslu til að réttlæta náttúruna. En hvað með staði sem hafa ekkert áhorf? Hvað með uppáhalds skáldin okkar – sem seldu aldrei neitt á meðan þau lifðu? Hvað með þá sem gera tilraunir, taka áhættu, færa út mörk listarinnar, hugsunar okkar og skynjunar?

Þegar ég skrifaði Tímakistuna var ég meðal annars innblásinn af blaðsíðu í gömlu eintaki af ,,Bókinni um veginn“ frá 1921 – þar er fjallað um nytsemina:

,,Þrjátíu hjólrimar mætast í nöfinni,

en nytsemi hjólsins er komin undir öxulgatinu.

Leirkerin verða að gagni

vegna þess að þau eru hol að innan.

Menn smíða dyr og glugga

og húsið verður nytsamt

af því að það er tómt.

Og geti tilveran borið ávöxt,

er hið tilvistarlausa nytsamt. “

Ég hallast að því að eina leiðin til að útskýra tilgang listarinnar sé með vísun í gagnsleysi öxulgatsins. Að listin leitist við að vera þetta tóm og listin sé leit að þessu tómi, að þegar best tekst til þá er listin gatið sem leyfir hjólinu að snúast og án hennar snúist það alls ekki. Tilraunir til að sanna að skáldskapur, ljóð eða ævintýri borgi sig og skili mælanlegum hagnaði fyrir þjóðina eru til þess eins að fylla upp í þetta gat, stöðva hjólið og segja að kerið eigi í raun og veru að vera fullt af steypu.

Orðræðan um gagnsemi og hagkvæmni hefur komið mörgum í varnarstöðu og í hvert sinn sem menn gleyma því að tilgangurinn sé einmitt tilgangsleysið, ómælanleikinn, leitin að þessu gati – þá færist víglínan og krafan um mælanleg markmið nær öðrum sviðum. Til hvers lærum við ljóð? Hverju skila þau? Til hvers er þá að læra sögu eða segja sögur eða spila á selló? Til hvers er þá nokkur hlutur sem ekki hefur mælanleg áhrif? Til hvers eru ónýtanleg náttúra – eða fátækir eða gamlir. Til hvers er heimspeki? Til hvers eru fuglar? Við viljum setja fullkomna mælistiku á lífið en hvernig verður jörðin, þegar hver blettur hefur verið verðlagður og nýttur? Hvernig verður vinátta okkar þegar hún er orðin ekkert nema tengslanet?

Nú höfum við til dæmis dregið menn og konur fyrir dóm fyrir það að vera læsir á myndlistarsögu, náttúrusögu, íslandssögu og jarðsögu okkar. Þau eru krafin um svar – til hvers er þetta hraun? Já til hvers eru ljóð, til hvers er hraun? Til hvers eru fuglar og til hvers að vera læs – ef það færir mönnum aðeins angur og óþægindi ef meirihlutinn kýs ólæsið. Við verðum að nýta gatið, fylla kerið af steypu, eins og menn skilji ekki að þá er ekki hægt að fylla það af vatni, þegar maður er þyrstur.

Því segi ég að hafi bók mín heppnast raunverulega vel þá finnur einhver hana eftir 50 ár, helst í gamalli hillu eða á bókasafni og gætir þess þannig að valda ekki minnstu gáru í hagkerfinu. Hann slekkur á sjónvarpinu og spillir þannig auðlindinni sem hann sjálfur er sem áhorf, neytandi, auglýsingaþegi. Hann sest upp í rúm og les fyrir sjálfan sig, konu sína, barn sitt – eða alla þrjá. Hann eyðir hálftíma, klukkutíma, átta tímum. Eins og þegar pabbi las fyrir mig Elsku Míó minn – og ef menn hverfa saman inn í þetta gat þá hefur tilgangurinn komið í ljós og við skiljum að tilveran getur borið ávöxt.

Takk fyrir mig.

 

 

Tímakistan kemur í búðir í dag – útgáfuhóf á morgun

Tímakistan, Kápumynd eftir Kötlu Rós

Tímakistan eftir Andra Snæ Magnason. Kápumynd eftir Kötlu Rós

Jæja, þá er tímakistan að koma í búðir í dag. Á morgun er síðan útgáfuhóf í Borgarleikhúsinu sem hefst tímanlega klukkan 20:00.

hiccbhcd

Tímakistan er nútíma ævintýri fyrir 9-99 ára (og fyrir einhverja eldri og yngri, það kemur betur í ljós á næstu vikum)

Nov. 2nd with Daniel Bjarnason and Ryan Boudinot

Airwords

 

AIRWAVES SATURDAY: off-venue hangover/brunch poetry/jam session.Daníel Bjarnason and Jófríður Ákadóttir (of Samaris and Pascal Pinon) accompany readings by writers associated with local grassroots poetry collective Meðgönguljóð as well as heavy-hitters Andri Snær and Ryan Boudinot.

12.00-13.00
Daníel Bjarnason (and special guest) accompany readings by:
– Andri Snær Magnason (IS)
– Ryan Boudinot (US)

13.00-14.00
Jófríður Ákadóttir provides musical accompaniment to readings by:
– Ásta Fanney Sigurðardóttir (IS)
– Bergrún Anna Hallsteinsdóttir (IS)
– Valgerður Þóroddsdóttir (IS)

EVERYTHING IS IN ENGLISH (perhaps some Icelandic – depending on the audience!)