Engar smá sögur eru komnar út í nýrri útgáfu með formála höfundar:
Engar smá sögur:
Ég var 19 ára þegar ég samdi mínar fyrstu smásögur og smátt og smátt bættust fleiri við ásamt ljóðum og sú hugsun læddist að mér að kannski gæti ég orðið rithöfundur. Ég var á eðlisfræðibraut í Menntaskóla og fór þaðan beint í læknisfræði þar sem ég taldi ekki praktískt að ætla að lifa á skriftum. Það var almennt ekki talið gæfuspor fyrir ungan mann að leggja fyrir sig skáldskap þegar hann gæti bæði leyst jöfnur og lagt gangstéttarhellur. Ég sat því uppi á lesstofu í byggingu verkfræðideildar Háskóla Íslands og skrifaði sögu um Sjómann sem veiddi hafmeyju í stað þess að lesa fósturfræði og sagan um Lögmál árstíðanna var skrifuð fyrir vini mína sem voru að kikna undan námskeiði í raunfallagreiningu. Ég komst ekki í gegnum Numerus Clausus í læknisfræðinni og það hefur eflaust bjargað einhverjum mannslífum. Ég komst í lokaúrtak í inntökuprófi flugumferðarstjóra en féll þar á persónuleikaprófi. Eflaust björguðust þar enn fleiri mannslíf.