Ekki draumastarfið? Er unga fólkið vanþakklátt?

Hér er áhugaverð rannsókn á Eyjunni um að ungt fólk úti á landi láti sig ekki dreyma um starf í stóriðjunni og allt virðist benda til þess að uppbygging á landsbyggðinni sé á skjön við drauma ungs fólks. Þegar umræðan um stóriðju hófst á Austurlandi kringum 1999 þá kostaði 100.000 krónur á mánuði (ef ég man rétt) að fá ADSL tengingu á Seyðisfirði (100 kall á kílómeter frá Múlastöð) – en tenging var forsenda þess að menn gætu unnið verkefni í tölvu á Austurlandi.  Þeir sem alast upp á Íslandi í dag njóta þeirra forréttinda (ólíkt flestum jarðarbúum í gjörvallri mannkynssögunni) að geta valið sér starfsvettvang í öllum heiminum, þá á ég við í ÖLLUM heiminum. Það er að segja: viltu vinna á rannsóknarstöð á Suðurskautinu, hjúkrunarstörf í Afríku, fiðluleikari í New York, arkítekt í Danmörku, smiður í Noregi, skúringar á Hornafirði, tryggingaráðgjöf í Garðabæ, þrívíddarhönnuður í London, sjómaður á Akureyri, flugmaður í Arabíu, barþjónn á Indlandi eða eitthvað af þeim 190.000 störfum sem nú eru til á Íslandi og þeim tugþúsundum starfa sem verða til á næstu 20 árum í greinum sem við kunnum ekki að nefna. Af hverju kemur einhverjum á óvart að draumurinn er ekki að vinna í óheilnæmu lofti í geimbúningi á virkasta jarðskjálftasvæði landsins sem áður var einhver fallegasta vík á landinu að kraka í 1000 gráðu heitum málmi fyrir eitthvað Þýskt fyrirtæki sem býr til eitthvað fyrir einhvern.

Screenshot 2015-07-09 01.41.44Screenshot 2015-07-09 01.44.34Screenshot 2015-07-09 01.47.11Screen Shot 2015-07-02 at 18.48.29

Hvað gætu íslenskar konur framleitt mikla mjólk á ári ef auðlindin væri fullnýtt….

photo 1Það var hressandi frétt um daginn á RÚV þar sem sagt var ítarlega frá hugmyndum um virkjun Jökulsár á Fjöllum og Dettifoss – allskyns tölur voru nefndar, rennslistölur og firra pirra bull skull sem ég veit ekki af hverju ég þurfti að vita. Var einhver í alvöru að fara að virkja fossinn? Ég velti fyrir mér, fyrir hvern voru þessar tölur, af hverju var þetta sett fram? Af hverju var ekki bara lesið ljóð um fossinn? Af hverju árið 2015 er LSD draugurinn enn á kreiki? Er þetta formsatriði, eitthvað sem menn gera samkvæmt ,,lögum“ eða er enn til fólk innan Orkustofnunar sem vill klára LSD? Er fólk í stjórnkerfinu eða stjórnmálaflokkum eða Landsvirkjun sem vilja þetta? Og ef svo er ekki – er þetta þá ekki bara jafn mikið bull og að tala um að fréttamaðurinn hafi verið 79 kg og samkvæmt lögum ætti að meta hvort hann væri gott prótein í laxafóður? Og að tala um Pantheon sé hentugt efni í vegfyllingu af því að lagalega á að ,,kanna alla kosti“ og að konur á Íslandi gætu framleitt 1800 tonn af mjólk árlega ef þær væru mjólkandi og að gangverð á 320.000 nýrum á Íslandi gæti stoppað upp í fjárlagagatið.

En það er óþarfi að búa til ný orð vegna þess að hjá Orkustofnun stendur tíminn í stað og hægt að nýta sér Halldór Laxness orðréttan um þetta mál nema skipta út Gullfossi fyrir Dettifoss: ,,Annar kontóristi úr Orkustofnun kom í útvarpið og talaði um Gullfoss. Rannsóknir og mælíngar hafa verið gerðar á fossinum, sagði þessi maður, og hægt að leggja til atlögu við vatnsfall þetta með litlum fyrirvara. Eru svona ræður haldnar til að storka landslýðnum, eða hvað? Einginn virðist þó kippa sér upp. Landslýðurinn hlustaði með þolinmæði sem mátti heita kristileg. Manni skildist að Gullfoss ætti að vera hafður í nýar málmbræðslur, meira alúminíum, að sínu leyti einsog vakir fyrir laxárvirkjunarnefnd nyrðra: stórir “orkunotendur” að utan gefa sig vonandi fram!“ ,,Hernaðurinn gegn landinu“ eftir Halldór Laxness 1971.

 

Útsala útsala!

 

Screen Shot 2014-11-16 at 11.54.12 AM

Síðan ég man eftir mér hafa ríkisstjórnir skapað útsölustemningu með reglulegu millibili. Það er engin festa eða samfella og sveiflan verður að varanlegri sjóriðu í þjóðarsálinni. Það er engin tilviljun að vörugjöld á flatskjái lækka um leið og ,,allir fá péning“ í reiðiléttingunni, þvert á alla leikskólahagfræði á að skapa gamalkunnugt neyslugóðæri með þörungablóma við innflutning sem leiðir til viðskiptahalla og þynnku en þetta er það sem við viljum, byggt á fársjúku sambandi stjórnmálamanna og kjósenda sem haga sér eins og börn sem vilja frekar fá eitt smartís í dag frekar en þrjú á morgun. Man eftir þessari útsölu frá 1987 á sama tíma og ,,skattlausa árið“ gekk yfir. Þá fékk ég einmitt fermingargræjur úr Miklagarði. Man eftir menntaskólaárunum þegar niðursveiflan var hafin og allir lúxusbílar voru einmitt 1987 árgerð, þegar ég var í Árnagarði árið 1994 var atvinnulífið í ruglinu og nýútskrifaður rafmagnsverkfræðingur vann á loftbor við að brjóta múrinn utan af húsinu í sérstöku atvinnuátaki. Enda vildum við ekki menntun, vísindi og nýsköpun árið 1987. Núna á meira að segja að skattleggja lestur til viðbótar.

Jarvis Cocker og amma – á BBC Radio 4

Jarvis Cocker forsprakki hljómsveitarinnar Pulp hefur haldið úti ansi skemmtilegum útvarpsþætti á BBC radio 4 sem heitir Wireless Nights og fjallar um nóttina í öllum hugsanlegum myndum. Þættirnir fjalla um næturlíf, næturvinnu, drauma, svefnleysi, tunglið, stjörnur – hvað sem er svo lengi sem það tengist nóttinni. Nú brá svo við að Jarvis kom til Íslands til að fjalla um nóttina á Íslandi og teymið hans hafði samband við mig, hvort ég gæti sagt þeim frá sumarnóttinni, borgarmyrkvanum, dimmu hlið Bláa hnattarins og gömlu íslensku kvöldvökunni. Ég var staddur á Melrakkasléttu og sagði að þeir gætu heimsótt mig þangað og sagði af mínu alkunna júkvæði að jú jú –  eflaust gæti ég riggað upp kvöldvöku. Það var hins vegar einn hængur á því máli –  nánast enginn í mínum ættlegg fyrir norðan kann að syngja og vindur snerist í norðanátt eftir einmuna blíðu og svo að helstu söngspírur ættarinnar frestuðu norðanför. Ég hringdi í Miðtún þar sem hinir söngelsku Lund bræður voru allir samankomnir með sínar stórfjölskyldur og þar með var málið leyst, BBC kom á svæðið og allt leit vel út en að morgni 31. júlí, daginn sem kvöldvakan átti að fara fram fengum við þær sorgarfréttir að amma hefði látist suður á Droplaugarstöðum. Amma var sólin sjálf, ættmóðirin og miðpunktur alls norður á Sléttu – en hvað skyldi gera við BBC og kvöldvökuna? Við ákváðum að halda henni til streitu og breyttum kvöldvökunni í minningarstund um ömmu í gamla bænum að Oddstöðum á Melrakkasléttu. Þannig atvikast það – að poppgoðið Jarvis Cocker – útvarpar broti af minningarstund um hana ömmu mína – á BBC Radio 4 í kvöld, mánudag, súrrealískt að sönnu – en einhvernveginn finnst mér núna eins og henni hefði fundist þetta bráðfyndið.

Screen Shot 2014-10-26 at 11.23.05 PM

11. september í héraðsdómi

 

Ég bar vitni í Héraðsdómi Reykjaness þann 11. september og það var merkilegt að koma inn í dómshús í fyrsta sinn. Ég þekki ekki vel hvernig dómstólar vinna eða hvað þeir meta. Mér fannst skipta miklu máli að jarðýtan sem mætti í hraunið þennan eina dag hefði ekki verið þarna nema vegna þess að þarna voru mótmælendur, hún kom vegagerðinni sjálfri ekkert við. Jarðýtan ruddist gegnum hraunið – alla veglínuna og sárið eftir þessa einu umferð gegnum hraunið stóð óhreyft tveimur mánuðum síðar. Jarðýtan hafði aðeins það hlutverk að ógna fólkinu, ryðja því burt og eyðileggja í leifturárás það sem fólkið vildi vernda og taldi með rökum að væri hægt að vernda í dómsmáli sem lá fyrir – en lá ofan í skúffu í dómskerfinu.

Screen Shot 2014-02-07 at 5.22.19 PM

Aukafjárveiting var ekki veitt til að flýta málinu og útkljá það heldur kusu yfirvöld að fara mun dýrari leið valdbeitingar (ofbeldis) þar sem 60 lögreglumenn niðurlægðu fólkið og ógnuðu á sama tíma og hraunið sem þeim var heilagt var troðið niður og rústað fyrir augum þeirra af fádæma ruddaskap. Markmiðið var ekki að semja, fólk fékk kærur sem höfðu verið prentaðar út og dagsettar á föstudegi, þegar blitzvegagerðin var á mánudegi. Þeir sem voru kjarkaðir og staðfastir (og undir 100kg) voru settir í kalda einangrunarklefa og síðan fyrir dómstóla. Hvert er markmiðið? Hverjum datt í hug að í þessu litla landi ætti að byggja upp kalt og ópersónulegt lögregluríki? Eru þetta skilaboð til samfélagsins? Er skilyrðislaus hlýðni æðsta dyggðin og reyndist hún 20. öldinni vel?

1656310_608941332512609_836467742_n

Hefur ekki svona fólk einmitt verið fyrirmyndir í öllum viti bornum samfélögum? Og það sem ég hugsaði í þessum dómssal var – eru dómstólar til að verja fólk eða valdakerfið? Meta þeir hvort þessi jarðýta hafi verið þarna að óþörfu og jafnvel ólöglega, til þess eins að storka fólki og búa til glæpamenn úr þeim sem eru með heilbrigða réttlætiskennd – meta þeir meðalhófsreglu og mannúð – eða er þetta meira eins og lögfræðivél – 01010110: Hlýddirðu skipunum? Ef NEI – þá ertu sekur. Og með nákvæmlega þessari aðferð – væri ekki hægt að handtaka hvern sem er hvar sem er og gera að glæpamanni?