Það er óhætt að segja að þeir sem fygljast með fréttum af loftslagsmálum séu fljótir að þróa með sér samviskubit og jafnvel sjálfshatur eins og margir upplifðu þegar þeir sáu þessa frétt. Ég lifi sjálfur í þessari þversögn, flýg til útlanda oft á ári vegna útgáfu verka minna og held fyrirlestra sem fjalla meðal annars um bráðnun jökla og framtíð jarðar. Það er erfitt að sjá einhverjar raunverulegar breytingar eiga sér stað, framfarir eða vonarglætur og sífellt koma fram alvarlegri afleiðingar og ógnvekjandi spár.
Það getur verið erfitt að fóta sig í þessum loftslagsfræðum og loftslagsfræðingar virðast ekki beinlínis hafa fengið skáldgáfu í vöggugjöf þegar sviðsmyndir IPCC heita SSP1 og SSP2 og línuritin segja manni að eitthvað sé án LULUCF. Maður hrökklast auðveldlega burt og lætur sérfræðingum eftir að ræða þetta, miðla og skilja.
Markmiðin sem eru sett fram í nýjustu skýrslu vísindanefndar sameinuðu þjóðanna virðast nánast fáránleg og óframkvæmanleg. Samkvæmt henni á mannkynið að hafa hætt losun á CO2 árið 2050 og eftir þann tíma á jákvæð binding CO2 að verða smám saman jafn mikil og losunin er núna. Semsagt, við eigum að binda meira en við losum, við eigum að spóla til baka öllum okkar hringvegum, utanlandsferðum og rúntum unglingsáranna. Vandinn er sá að ef við náum ekki þessum markmiðum mun mannkynið og jörðin öll ganga gegnum langan lista af hörmungum, súrnun sjávar, þurrka, uppskerubrest, skógarelda, eyðimerkumyndun, flóttamannastraum osfrv…
Á kvöldi sem ég stóð fyrir í Hannesarholti var fjallað um tímann og loftslagið. Þar ákvað ég að prófa að leggja áherslu á vonina eftir nokkuð þynglyndislegar spár um framtíð hafsins og jöklanna. Mig langaði að heyra um lausnir, en við þurfum semsagt að binda meira en við losum. Það er nánast f´áránlegtilhugsun eins og staðan er í dag. En ef við horfum á losun Íslands þá er hún nærri fimm milljónum tonna af CO2 árlega.
En er svo fáránlegt að koma Íslandi nærri núlli í losun á CO2? Ef við lítum nánar á tölurnar þá losar bílaumferð c.a milljón tonn árlega hérlendis. Það er nú þegar komin fram tækni til að rafbílavæða samgönguflotann og eftir 20 ár verður fyrirbærið bensínstöð álíka framandi fyrirbæri og sjoppa eða vídeóleiga.
Ef við lítum síðan enn nánar á tölurnar má sjá að álverin þrjú, Alcoa, Rio Tinto og Century losa álíka mikið og bílaflotinn og flugið til samans og nú virðist komin fram tækni til að koma þeirri losun niður í núll.
Í Hannesarholti var Dr. Sandra Snæbjörnsdóttir með erindi en hún hefur verið hluti af CarbFix teyminu uppi á Hellisheiði. Þau hafa staðið fyrir tilraunaverkefni sem hefur tekist framar vonum og nú eru þau farin að binda um 10.000 tonn árlega af losun Hellisheiðarvirkjunar og megnið af brennisteinsvetninu sem verksmiðjan losaði. Aðferðin er tiltölulega einföld, í rauninni er hér um að ræða hálfgert Soda Stream. CO2 er blandað við vatn og sódavatninu er dælt ofan í jörðina og þar verða efnahvörf þar sem lofttegundin breytist í silfurberg en með brennisteininum verður til glópagull.
Nú hafa þau gefið út vísindagrein þar sem kostnaður við að losna við hvert tonn af CO2 er c.a 25 dollarar tonnið. Þetta verð miðast við tækni sem er rétt að komast af þróunarstigi og er í eðli sínu alls ekki flókin þannig að verðið ætti að lækka talsvert ennþá. Tæknin felur ekki í sér flókin aukaefni heldur er einfaldlega verið að vinna með náttúrulegum ferlum.
Álverin og kísilverin á Íslandi losa um 1.8 milljón tonn á ári og eru þannig langstærsti einstaki mengunarvaldur á Íslandi. Þannig að ef CarbFix virkar eins og það virðist gera væri hægt að minnka losun frá Íslandi, sem nemur öllu flugi og allri bílaumferð á örfáum árum með því að koma böndum á álverin.
Samtals, miðað við núverandi tækni blasir við að á næstu árum ætti að vera hægt að minnka losun Íslands um að minnsta kosti 50% og það væri alls ekki dýrt, heldur þvert á móti, af því yrði mikill hagur.
Tonnið á áli er á heimsmarkaði um 2000 dollarar tonnið. Þannig að kostnaður við að binda CO2 frá álverunum ætti ekki að vera meiri en 4 – 5 milljarðar árlega -eða c.a 1-2% af álverði. Það er minna en meðalsveifla á álverði milli mánaða. Ef heimsmarkaðurinn er ekki tilbúinn að greiða 1% hærra verð frá verksmiðju sem er án CO2 losunar – þá yrði það einfaldlega til merkis um gagnsleysi markaðarins þegar kemur að mikilvægum málefnum.
Ég tek auðvitað ekki ábyrgð á nýrri tækni en þetta er kjörið efni fyrir fjölmiðla og stjórnmálamenn að fylgja eftir. Væri raunhæft að nota Carbfix tæknina og núlla út álverin á nokkrum árum? Hérlendis eru ungir vísindamenn og konur sem geta og kunna að leysa þetta vandamál. Ef tæknin er talin örugg og öll aðstaða er fyrir hendi er ekki eftir neinu að bíða. Þá er heldur engin ástæða til að bíða eftir markaðnum, ef þetta gerist ekki nógu hratt má setja skatt eða lög.
Síðan má fljúga sjaldnar og betur og kolefnisjafn flugið sitt með því að styrkja sjóði eins og Auðlind sem stuðlar að endurheimt votlendis og Yrkju en gegnum hann hafa grunnskólabörn bundið tugþúsundir tonna af CO2 á síðustu þrjátíu árum.
Og þegar það er komið þarf að taka á landbúnaðnum, skipunum, matarvenjum, neyslu og úrgangi. Þannig að ef við horfum bara á Ísland, þá er full ástæða til bjartsýni um að hægt verði að ná talsverðum hluta af þessum markmiðum.