Að minnka losun Íslands um 50% á 10 árum

Það er óhætt að segja að þeir sem fygljast með fréttum af loftslagsmálum séu fljótir að þróa með sér samviskubit og jafnvel sjálfshatur eins og margir upplifðu þegar þeir sáu þessa frétt. Ég lifi sjálfur í þessari þversögn, flýg til útlanda oft á ári vegna útgáfu verka minna og held fyrirlestra sem fjalla meðal annars um bráðnun jökla og framtíð jarðar. Það er erfitt að sjá einhverjar raunverulegar breytingar eiga sér stað, framfarir eða vonarglætur og sífellt koma fram alvarlegri afleiðingar og ógnvekjandi spár.

Það getur verið erfitt að fóta sig í þessum loftslagsfræðum og loftslagsfræðingar virðast ekki beinlínis hafa fengið skáldgáfu í vöggugjöf þegar sviðsmyndir IPCC heita SSP1 og SSP2 og línuritin segja manni að eitthvað sé án LULUCF. Maður hrökklast auðveldlega burt og lætur sérfræðingum eftir að ræða þetta, miðla og skilja.

Markmiðin sem eru sett fram í nýjustu skýrslu vísindanefndar sameinuðu þjóðanna virðast nánast fáránleg og óframkvæmanleg. Samkvæmt henni á mannkynið að hafa hætt losun á CO2 árið 2050 og eftir þann tíma á jákvæð binding CO2 að verða smám saman jafn mikil og losunin er núna. Semsagt, við eigum að binda meira en við losum, við eigum að spóla til baka öllum okkar hringvegum, utanlandsferðum og rúntum unglingsáranna. Vandinn er sá að ef við náum ekki þessum markmiðum mun mannkynið og jörðin öll ganga gegnum langan lista af hörmungum, súrnun sjávar, þurrka, uppskerubrest, skógarelda, eyðimerkumyndun, flóttamannastraum osfrv…

Á kvöldi sem ég stóð fyrir í Hannesarholti var fjallað um tímann og loftslagið. Þar ákvað ég að prófa að leggja áherslu á vonina eftir nokkuð þynglyndislegar spár um framtíð hafsins og jöklanna. Mig langaði að heyra um lausnir, en við þurfum semsagt að binda meira en við losum. Það er nánast f´áránlegtilhugsun eins og staðan er í dag. En ef við horfum á losun Íslands þá er hún nærri fimm milljónum tonna af CO2 árlega. 

En er svo fáránlegt að koma Íslandi nærri núlli í losun á CO2? Ef við lítum nánar á tölurnar þá losar bílaumferð c.a milljón tonn árlega hérlendis. Það er nú þegar komin fram tækni til að rafbílavæða samgönguflotann og eftir 20 ár verður fyrirbærið bensínstöð álíka framandi fyrirbæri og sjoppa eða vídeóleiga.

Ef við lítum síðan enn nánar á tölurnar má sjá að álverin þrjú, Alcoa, Rio Tinto og Century losa álíka mikið og bílaflotinn og flugið til samans og nú virðist komin fram tækni til að koma þeirri losun niður í núll.

Í Hannesarholti var Dr. Sandra Snæbjörnsdóttir með erindi en hún hefur verið hluti af CarbFix teyminu uppi á Hellisheiði. Þau hafa staðið fyrir tilraunaverkefni sem hefur tekist framar vonum og nú eru þau farin að binda um 10.000 tonn árlega af losun Hellisheiðarvirkjunar og megnið af brennisteinsvetninu sem verksmiðjan losaði. Aðferðin er tiltölulega einföld, í rauninni er hér um að ræða hálfgert Soda Stream. CO2 er blandað við vatn og sódavatninu er dælt ofan í jörðina og þar verða efnahvörf þar sem lofttegundin breytist í silfurberg en með brennisteininum verður til glópagull.

Nú hafa þau gefið út vísindagrein þar sem kostnaður við að losna við hvert tonn af CO2 er c.a 25 dollarar tonnið. Þetta verð miðast við tækni sem er rétt að komast af þróunarstigi og er í eðli sínu alls ekki flókin þannig að verðið ætti að lækka talsvert ennþá. Tæknin felur ekki í sér flókin aukaefni heldur er einfaldlega verið að vinna með náttúrulegum ferlum.

Álverin og kísilverin á Íslandi losa um 1.8 milljón tonn á ári og eru þannig langstærsti einstaki mengunarvaldur á Íslandi. Þannig að ef CarbFix virkar eins og það virðist gera væri hægt að minnka losun frá Íslandi, sem nemur öllu flugi og allri bílaumferð á örfáum árum með því að koma böndum á álverin. 

Samtals, miðað við núverandi tækni blasir við að á næstu árum ætti að vera hægt að minnka losun Íslands um að minnsta kosti 50% og það væri alls ekki dýrt, heldur þvert á móti, af því yrði mikill hagur.

Tonnið á áli er á heimsmarkaði um 2000 dollarar tonnið. Þannig að kostnaður við að binda CO2 frá álverunum ætti ekki að vera meiri en 4 – 5 milljarðar árlega -eða c.a 1-2% af álverði. Það er minna en meðalsveifla á álverði milli mánaða. Ef heimsmarkaðurinn er ekki tilbúinn að greiða 1% hærra verð frá verksmiðju sem er án CO2 losunar – þá yrði það einfaldlega til merkis um gagnsleysi markaðarins þegar kemur að mikilvægum málefnum.

Ég tek auðvitað ekki ábyrgð á nýrri tækni en þetta er kjörið efni fyrir fjölmiðla og stjórnmálamenn að fylgja eftir. Væri raunhæft að nota Carbfix tæknina og núlla út álverin á nokkrum árum? Hérlendis eru ungir vísindamenn og konur sem geta og kunna að leysa þetta vandamál. Ef tæknin er talin örugg og öll aðstaða er fyrir hendi er ekki eftir neinu að bíða. Þá er heldur engin ástæða til að bíða eftir markaðnum, ef þetta gerist ekki nógu hratt má setja skatt eða lög. 

Síðan má fljúga sjaldnar og betur og kolefnisjafn flugið sitt með því að styrkja sjóði eins og Auðlind sem stuðlar að endurheimt votlendis og Yrkju en gegnum hann hafa grunnskólabörn bundið tugþúsundir tonna af CO2 á síðustu þrjátíu árum.

Og þegar það er komið þarf að taka á landbúnaðnum, skipunum, matarvenjum, neyslu og úrgangi. Þannig að ef við horfum bara á Ísland, þá er full ástæða til bjartsýni um að hægt verði að ná talsverðum hluta af þessum markmiðum.

Tíminn og vatnið – fyrsti viðburður er 2. október

Í haust verð ég með þríleik í Hannesarholti byggðan á verki sem ég er með í vinnslu og má segja að fjalli um ,,Tímann og vatnið“. Á þessari öld spá vísindamenn grundvallarbreytingum á eðli vatnsins á jörðinni. Jöklar bráðnar hraðar en dæmi eru um, hafsborðið rís og hafið súrnar hraðar en sést hefur í 30 milljón ár og veðrakerfi raskast með tilflutningi á regni og grunnvatni. 100 ár eru fyrir okkur eins og órafjarlæg framtíð en ef maður talar við 100 ára gamla manneskju voru hundrað ár undrafljót að líða.

Fyrsta kvöldið er 2. október og fjallar um Tímann ogísinn þar sem Helgi Bjornsson miðlar af sinni visku og Árni Heiðar Karlsson leikur af fingrum fram. Þann 25. október verður fjallað um ,,Tímann og hafið“ en Hrönn Egilsdóttir sjávarlíffræðingur verður með mér og Jónas Sigurðsson tónlistarmaður. Hið þriðja verður 8 nóvember og fjallar um tímann og andrúmsloftið en Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir verður með mér þar og Svavar Knútur. Hvert kvöld er sjálfstætt en þau mynda þó eina heild. Væri gaman að sjá sem flesta. 

nánari uppl´ýsingar hér:

http://www.hannesarholt.is/vidburdir/vidburdir/audur-islands-timinn-og-vatnid

 

Forsetaframboð Andra Snæs 2016

12987137_10154135300010844_5421268627675036675_n

Þjóðleikhúsið

Mánudagurinn 11. apríl 2016

Kæru vinir, ættingjar og aðrir gestir

Það er vandi að taka stórt skref, að taka stóra stökkið og eins og einhvern hér inni hefur ef til vill grunað – þá hef ég ákveðið að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands.

Forseti Íslands.

Forseti Íslands getur verið farvegur fyrir nýjar hugmyndir og nýja strauma, Bessastaðir voru á tímum Fjölnismanna sá staður á Íslandi þar sem nýjar hugmyndir í listum og vísindum bárust fyrst til landsins og voru orðaðar í fyrsta sinn á íslensku.

Forseti Íslands getur tengt fólk saman, hann getur leitt saman ólíka hópa, hann getur lyft mikilvægum málum, hann getur látið andstæður mætast og fundið sameiginlega fleti en um leið þarf forseti að hafa skýra sýn, sterka rödd og sannfæringu.

Forsetaembættið á Íslandi er merkilega opið og skapandi. Forseti Íslands getur sett mál á dagskrá, hann getur vísað lögum til þjóðaratkvæðis, hann getur haft áhrif á stjórnarmyndun og hann er eina manneskjan á Íslandi sem er raunverulega þjóðkjörin.

Við viljum öll vera stolt af því að tilheyra íslensku samfélagi, við viljum eiga eitthvað sameiginlegt og okkur langar að vaxa og dafna í þessu fallega landi en stundum er eins og við eigum fátt sameiginlegt.

Á síðustu dögum hefur gamalt sár opnast en kannski er þetta líkara beinbroti sem gréri vitlaust saman og þarf að brjóta aftur til að það grói rétt. Það er sárt en líklega óhjákvæmilegt.

Ég stíg fram vegna þess að mig langar að bjóða fram ákveðna framtíðarsýn.

Ég hef verið heppinn með fyrirmyndir í lífinu og samferðafólk, margir eru í salnum hér í dag. Ég á tvær sterkar fyrirmyndir í Guðmundi Páli Ólafssyni og Vigdísi Finnbogadóttur. Uppáhalds ljóð þeirra er eftir Snorra Hjartarsonar sem byrjar svona: ,,Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein, þér var ég gefinn barn á móðurkné.“

Ljóðið fjallar um vöggugjafirnar sem Íslendingum eru gefnar. Við getum kallað það land, þjóð og tunga eða náttúru, lýðræði og menningu – í rauninni liggur þar kjarni embættis Forseta Íslands.

Þrjár stoðir sem hann þarf að gæta að.

Mig langar til að leggja fram þrjú verkefni sem ég tel að gætu verið þjóðinni til heilla.

Við þurfum að spyrja okkur. Í hvernig landi viljum við búa? Hvað viljum við standa fyrir, hvernig viljum við taka þátt í hinum stóra heimi? Já hvaða skilaboð viljum við færa heiminum?

Hvað ætlar okkar kynslóð að gera, hvað ætlar hún að skilja eftir sig í stóra samhenginu? Ein kynslóð stofnaði lýðveldið 1944, ein kynslóð færði út landhelgina, ein kynslóð kaus konu sem þjóðarleiðtoga fyrsta allra þjóða. En hvað viljum við gera? Hvað á sá sem talar fyrir okkar hönd að hafa í farteskinu?

Ég tel að þjóðgarður á Hálendi Íslands sé ein af þessum stóru hugmyndum sem við gætum látið verða að veruleika. Þjóðgarður myndi staðfesta mikilvægi og gildi náttúrunnar í sjálfri sér. Hálendið er hluti af sjálfsmynd okkar. Hálendið er kjarninn í ímynd Íslands og þjónar þannig öllum landsmönnum. 40.000 ferkílómetra þjóðgarður væru mikilvæg skilaboð út í heim þar sem náttúran á alls staðar í vök að verjast.

Umhverfismálin eru og verða langstærsta áskorun 21.aldar. Ef jörðin á að bera öll þau börn sem við viljum eignast þá þurfum við að endurhanna og endurhugsa nánast alla 20, öldina. Þessar breytingar eru lífsnauðsynlegar en þær eru ekki neikvæðar. Þær verða kjarninn í allri framþróun í öllum greinum í náinni og fjarlægri framtíð.

Sem fiskveiðiþjóð eigum við allt okkar undir hafinu. Ég sé fyrir mér að embættið geti verið mikilvæg rödd í verndun hafsins. Barn sem elst upp á Íslandi á að hafa æði fyrir fiskum. Hvort hvalir verði ætir í framtíðinni, er líklega mikilvægari spurning en hvort þeir séu veiddir.

Jöklar bráðna fyrir augum okkar. Amma mín er hér í salnum. Hún fór í brúðkaupsferð upp á Vatnajökul árið 1956. Ef barnabarn mitt nær sama aldri og hún – verður það enn á lífi árið 2120.

1924 – 2120 Það er tíminn sem tilheyrir okkur – það er tíminn sem við getum snert með berum höndum. Tími einhvers sem við þekkjum og elskum og tími einhvers sem við munum þekkja og elska.

Við þurfum að læra að hugsa í lengri tíma en ársfjórðungsuppgjörum og mislöngum kjörtímabilum.

Þess vegna eru umhverfismálin eitt mikilvægasta viðfangsefni forseta Íslands.

Jöfnuður, jafnrétti og jöfn tækifæri er forsenda þess að við getum kallað okkur þjóð. Ég fylgdist með þjóðfundinum, þar sem 1000 Íslendingar valdir í slembiúrtaki komu saman og ræddu gildi sín og framtíðarsýn. Ég fylltist ákveðinni von vegna þess að sneiðmyndin af þjóðinni var fallegur hópur sem gat talað saman. Almenningi var gefin rödd og við sýndum að lýðræðið er skapandi ferli í sífelldri þróun. Í kjölfarið átti að verða til nýr samfélagssáttmáli og grundvallarlög fyrir samfélagið okkar. Tilraunin var einstök og vakti athygli um allan heim.

Það er mikilvægt að klára stjórnarskrána, við þurfum nýjan samfélagssáttmála og ferlið er ekki ónýtt, þótt það hafi laskast. Nýja stjórnarskráin verður að eiga rótfestu í þjóðfundinum.

Þjóðgarður og stjórnarskrá væru verkefni sem myndu lýsa langt út fyrir landsteinana og vekja vonir hjá fólki um allan heim.

Guðmundur Páll Ólafsson sagði þetta:

Þú verndar aðeins það sem þú elskar,
þú elskar aðeins það sem þú þekkir.
Þú þekkir aðeins það sem þér er kennt

Ég hef hitt meira en 20.000 skólabörn hér heima og erlendis síðustu 10 ár, ég hef tekið þátt í verkefnum sem tengjast skapandi skrifum og læsi. Ég spyr börnin oft hvort þau tali fleiri tungumál en íslensku og í hverjum bekk réttir einn eða fleiri upp hönd og þau nefna alls kyns tungumál.

Sá sem ræktar sitt móðurmál skilur gildi tungumála almennt og þar er ein stærsta áskorun komandi ára. Tungumálið og móðurmálin þurfa að eiga sér málsvara. Við verðum að gæta þess að krakkarnir taki við keflinu og fyllist ást á tungumálinu.

Ísland verður að vera land tækifæranna fyrir börn sem flytja hingað. Tölfræðin sýnir að mörg þeirra standa höllum fæti. Ef við vöndum okkur munum við eignast sterka einstaklinga með djúpar rætur í fjarlægum menningarheimum. Ef við sofum á verðinum gæti stór hópur misst tökin á sínu eigin móðurmáli án þess að læra íslensku. Tungumálin eru lykill að heiminum og embættið getur lyft þessum málaflokki.

Land, þjóð og tunga. Þrjú orð sem fela í rauninni í sér öll önnur svið sem heyra undir embættið.

Hvað gerði okkar kynslóð?

Við ættum að klára þjóðgarðinn sem er kjarninn í náttúru okkar.
Við eigum að ljúka við stjórnarskrána sem er grundvöllur stjórnskipunar okkar.
Við eigum að taka utan um móðurmálin okkar – sem eru farvegur hugsunar okkar og menningar.

Það er af þessum ástæðum – kæru vinir sem ég býð mig fram í embætti forseta Íslands.

 

  1. apríl 2016.

Andri Snær Magnason

 

 

 

 

Ljósmyndir: Christopher Lund og Jón Gústafsson

Draumalandið 10 ára!

Í þessari viku eru nákvæmlega 10 ár frá því Draumalandið – Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð kom út. Eftir á að hyggja var þetta ansi brjálað tímabil, spennandi og sorglegt á köflum en líka verðmætt enda kynntist ég svo mörgum í kringum og eftir útgáfuna. Nafnið á bókinni var lengi að fæðast, það vísar auðvitað í Draumalandið eftir Jón Trausta en lagið við ljóðið var uppáhaldslagið hans Jóns afa, en hann dó rétt áður en bókin kom út.

Afi Jón og amma Dísa.

Afi Jón og amma Dísa.

Ég boðaði fólk til fundar við mig í Borgarleikhúsinu og stundum hef ég reynt að skilja hvernig ég þorði því, nokkur ofdirfska að ætla sér að fylla Borgarleikhúsið á mánudagskvöldi í mars og messa yfir fólkinu í klukkutíma. KK var mér til halds og trausts. Draumalandið fjallaði um að fara aðrar leiðir og hugsa öðruvísi, að nýta sér vankosti sem styrk og tækifæri. Við ákváðum að gefa út bókina á versta tíma í bóksölu og það tókst vonum framar. Bókin seldist í um 23.000 eintökum áður en árið var úti og núna er hún komin út á japönsku, þýsku, dönsku, ensku og spænsku.

Eftir fundinn í Borgarleikhúsinu sagði amma í Teigó við mig með stríðnisglampa í augum: ,,Ég hélt alltaf að þú værir þroskaheftur, en núna er ég ekki lengur viss.“ Þetta var hennar leið til að hrósa. En svo sagði hún mér að þarna hefði gerst dálítið kraftaverk. Úrið hans afa hafði verið týnt frá því að hann dó, en í Borgarleikhúsinu fann amma úrið allt í einu, hún var með það á hendinni. Ömmu sýndist þetta vera augljóst tákn um að hún ætti að gefa mér úrið.

Screen Shot 2016-01-17 at 16.32.21

Nánast hver einasti kafli Draumalandsins hefur leitt mig inn í nýjan heim eða nýja heima sem eru ekki endilega hinn dæmigerði vettvangur rithöfundar. Árið var fullt af tilviljunum og merkilegum tímasetningum. Ég skrifaði heilan kafla um öll tækifærin sem mætti nýta á varnarsvæðinu ef herinn færi. Mér fannst vanta þann vinkil í umræðuna, að þar væri skapandi möguleikar en ekki einungis svartnætti. Herinn tilkynnti brotthvarf sitt í sömu viku og bókin kom út.

Hugmyndakaflinn ,,Leitin að raunveruleikanum“ dró mig inn í stór og smá fyrirtæki og tengingar við sprotageirann þar sem menn trúðu því að hægt væri að byggja upp öflugt afvinnulíf með öðrum hætti en með stóriðjustefnu stjórnvalda. Þar varð til merkilegt bandalag listamanna og frumkvöðla sem endurspeglaðist í Framtíðarlandinu, félagi sem beitti sér fyrir náttúruvernd en varð einnig leiðandi í umræðunni um annars konar atvinnulíf.

Kaflinn um sveitirnar leiddi mig inn í verkefni á vegum Impru á Akureyri um Vaxtarsprota í sveitum. Bókin byggði á þeirri sýn að við ættum marga og fjölbreytta fjölbreytta möguleika um allt land, í ferðamennsku, matvælaframleiðslu, nýsköpun og nýjasta tækni gæti komið framleiðendum í beint samband við neytendur og gjörbreytt forsendum byggðar. Að ímynda sér hvaða ókönnuðu möguleikar gætu leynst í öllum þeim 6000 lögbýlum sem eru á Íslandi. Hugmyndin var síðan tekin miklu lengra af Sigríði Sigurjónsdóttur og hönnunardeild Listaháskóla Íslands. Hér er síða sem lýsir því verkefni betur: http://www.designersandfarmers.com/about/

Screen Shot 2016-03-25 at 10.44.56

Býli á Íslandi G – H

Stærsti kaflinn í bókinni um Terawöttin í almættinu dró mig síðan inn í hringiðu þjóðmálaumræðunnar og umhverfisbaráttunnar. Ég setti mig inn í orkumál á landinu, línulagnir, tonn í álverum og hversu mikla orku þyrfti til að drífa þau og hvaðan orkan ætti að koma. Það var sláandi hvað leikmaður gat fundið miklar brotalamir í þessum málum. Loforð um gríðarlega mikla orkuafhendingu og atvinnumöguleika voru komin á forsíður fjölmiðla áður en svæði höfðu verið rannsökuð að neinu marki. Af sumum varð ég talinn öfgamaður og óvinur ,,alvöru vinnu“ eða landsbyggðarinnar í heild sinni. Tímabundin varnarstaða landsbyggðarinnar var nýtt af stórfyrirtækjum, verktakafyrirtækjum og orkufyrirtækjum, allur vöxtur og framtíð skyldi vera á forsendum þeirra.

Ég lá andvaka í margar nætur út af svæðum sem ég þekkti vel og voru í beinni hættu. Það var sláandi að sjá hvernig þjóðríki gera sífellt sömu mistökin. Þau skuldsetja sig gagnvart erlendum bönkum, byggja alla innviði fyrir stórfyrirtækið sem síðan mokar auðlindinni úr landi og hagnaðurinn hverfur í skattaskjóli. Ef einhver vill vita hvers vegna 62 ríkustu menn í heimi eiga meira en helmingur jarðarbúa – þá urðu sumir þeirra einmitt ríkir á þennan hátt, gott ef einn þeirra er ekki aðaleigandi Norðuráls í Hvalfirði.

koldukvislarbotnar_590px_hs

Það var nánast yfirþyrmandi að horfa upp á landið okkar stefna í þessa átt hér. Opinber orkufyrirtæki ætluðu að skuldsetja þjóðina fyrir meira en þúsund milljarða og veðja á einn málm og eitt eða tvö stórfyrirtæki. Þetta var ekki sett fram sem valkostur, heldur var þetta sett fram sem hin eina mögulega framtíðarsýn Íslands.

Virkjunarhugmyndir árið 2006

Blaðsíða 19 í Draumalandinu: 

Alveg frá útgáfu hefur varla liðið sú vika að ekki komi upp eitthvað verkefni, beiðni eða viðvik sem tengist Draumalandinu. Núna á þriðjudag átti ég fund með fólki frá kóreska LG raftækjarisanum sem er með heilmikið verkefni í uppsiglingu hérlendis – allt byggt á blaðsíðu 19 í Draumalandinu en þar er þessi einfaldi texti:

Slokkni ljós – kvikna stjörnur

Á fallegu vetrarkvöldi
er slökkt á öllum ljósum á Íslandi á milli klukkan 21:00 og 22:00

Stjörnufræðingur lýsir himninum

í beinni útsendingu.

Allir fara út og njóta.

IMG_3983

LG sendi mér þetta myndband hér þar sem Slokkni ljós / kvikna stjörnur kemur við sögu enda er snilldin í nýja OLED tækinu þeirra hið algera myrkur sem þeim tekst að fá á skjáinn.

Í myndbandinu hér að ofan ræðir Ridley Scott um Mars myndina sína og síðan kemur kafli um Reykjavík. Þarna má sjá hvernig ,,Slokkni ljós / kvikna stjörnur“ gjörningurinn árið 2006 lítur út í augum tæknibrellumeistara í kóreu. Það er ansi vel dramítiserað hjá þeim en skemmtilegt. Þeir ætla að ganga lengra og gera Reykjavík, tónlistarlífið hér og ,,Lights out stars on“ að kjarna í nýrri ímyndarherferð fyrir OLED tækin hjá LG. Í sumar verður haldinn stórviðburður sem verður betur auglýstur síðar. Youtube tæknibloggarinn Lewis hjá Unbox Therapy sem er með milljón áhorf á hvert myndband var hér um daginn og stjörnuljósmyndarinn Sean Parker hefur verið á ferð um landið að taka myndir fyrir OLED skjáina. Auglýsingadeildin flaug sérstaklega til landsins og kvikmyndatökulið kom frá LA til að taka viðtal við mig og Lewis og ég áritaði fyrir þau Bláa hnöttinn á kóresku. Hún er með myndum eftir þarlendan listamann. IMG_3943

Þetta er semsagt bara dæmi um eina blaðsíðu og hvað getur gerst tíu árum eftir að hugmynd hefur verið sleppt út í veröldina.

Fljótlega eftir að Draumalandið kom út byrjaði ég að vinna að kvikmyndun á verkinu með Þorfinni Guðnasyni, þeim mikla snillingi. Framleiðandi var Sigurður Gísli Pálmason. Hér er trailerinn:

Það sem átti að verða stutt og snörp heimildarmynd sem átti helst að fara í bíó haustið 2006 tók að lokum næstum þrjú ár í vinnslu með öllum þeim endurskrifum, endurklippum, safnaleit og heimildarleit sem fylgir svo umfangsmiklu verki. Við klipptum myndina heima hjá Þorfinni í Hrosshaga í Biskupstungum. Í kjölfarið fór myndin á kvikmyndahátíðir um allan heim. Ég sakna alltaf Þorfinns sem lést fyrir rétt rúmu ári síðan eftir baráttu við illvígt krabbamein. Ég var staddur í Chicago þegar andlátsfréttin barst til mín. Ég leit á úrið sem amma hafði gefið mér í Borgarleikhúsinu og það var stopp. Ég er yfirleitt með það á mér – þótt klukkan sé alltaf hálf níu.

 

 

Sjálfstæðisyfirlýsing

Jón Gunnarsson býr í kjördæmi þar sem ferðamennska er langstærsti atvinnuvegurinn, hann á engan þátt í þeim ferðamannastraumi, það er náttúran og ímyndin – sem hann hefur ekki átt nokkurn þátt í að skapa eða vernda. Helsta gæluverkefni Jóns – hið strandaða draugaskip álversins í Helguvík átti að soga til sín alla orku suðvesturhornsins og stórauka loftmengun við Faxaflóa. Ekkert stendur eftir af því dæmi nema tugmilljarða tap og hálf gjaldþrota sveitarfélag.

Náttúruvendarsinnar hafa þurft að gerast talsmenn fyrir venjulegan kísildalsfrumkvöðlakapítalisma. Vinir Jóns hnussa yfir því og nota níðyrðið ,,eitthvað annað“ um heila iðnbyltingu sem hefur farið framhjá þeim. Björk sjálf virðist Jón taka sem dæmi um eitthvað sem enginn sjálfstæðismaður á að gera. Hún hefur alltaf farið sínar eigin leiðir, hún hefur ekki fylgt flokkslínum, hún hefur skapað allt úr engu, hún skapaði sína eigin klíku og sitt eigið vald, hún hefur unnið með mestu listamönnum okkar tíma, fengið tilnefningar til nánast allra verðlauna nema nóbelsverðlauna, eini Íslendingurinn sem segja má að sé mælanleg hagstærð. Já auðvitað er þetta algera sjálfstæði og einkaframtak grunsamlegt, ekkert frá hernum, enginn úthlutaður virkjunarkostur, engin meðgjöf og enginn frændi sem reddaði plötusamningi í Bretlandi.

Jón Gunnarsson er dæmi um menn sem hafa málað sig svo gjörsamlega út í horn að sjálf náttúran og sköpunarkrafturinn er ,,óvinurinn“ en sjálft ósjálfstæðið – að fórna landi sínu fyrir nokkur störf hjá alþjóðlegu stórfyrirtæki er æðsta dyggðin. Lágpunktur Jón Gunnarssonar, nota bene – valdamanns sem situr á alþingi – eru dylgjur um skattamál, sem er fasísk aðferð – á sama tíma og blinda auganu er snúið að þeim milljörðum sem Alcoa hefur skotið undan skatti. Ég skora á alla vini mína í Sjálfstæðisfloknum að lýsa yfir sjálfstæði, að þeir séu ósammála og ótengdir Jóni Gunnarssyni, ég skora á þá að skora á hann að biðjast afsökunar. Ég skora á þá að játa sig sigraða og sættast við fegurð Íslands og sköpunarkraftinn sem býr í fólkinu sem hér býr.