Blái hnötturinn á pólsku í Reykjavík og Akureyri

Pavel Adamowicz

 

Í þessari viku verða tvær sýningar á nýrri uppfærslu á Bláa hnettinum frá Gdansk í Póllandi, þetta er falleg sýning sem allir sem þekkja söguna gætu haft gaman af. Hér fyrir ofan er mynd af Pavel Adamowicz borgarstjóra Gdansk en hann kom á sýninguna. Erling Jóhannesson leikstýrir og múm bjó til nýja tónlist fyrir verkið.  En nú biðla ég til þeirra sem þekkir einhvern frá póllandi eða kennara á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri – hér er kjörið tækifæri til málræktar þar sem Sagan af Bláa hnettinum er til á íslensku og pólsku og það er mikilvægt að pólsk börn á Íslandi hafi aðgang að skemmtilegu menningarefni á sínu móðurmáli – og kannski fyrir vini þeirra að upplifa eina fallega sýningu á pólsku. Hér eru upplýsingar á íslensku og pólsku um verkið og sýningartíma:

Przedstawienie „Błękitna planeta” na podstawie książki Andriego Snæra Magnasona w Rejkiawiku i Akureyri

W dniach 18 i 19 września w Tjarnarbio w Reykiawiku, a 21 września w Rýmið w Akureyri zapraszamy na pokazy spektaklu „Błękitna planeta” Miejskiego Teatru Miniatura z Gdańska (Polska) w reżyserii Erlinga Jóhannessona. Przedstawienie jest polską prapremierą sztuki Andriego Snæra Magnasona, adaptacją wielokrotnie nagradzanej książki „Historia błękitnej planety”, przetłumaczonej na ponad 30 języków. Książka opowiada o planecie zamieszkanej wyłącznie przez dzieci, na której pewnego razu pojawia się pierwszy dorosły, sprzedawca kosmicznych odkurzaczy Cezary Nakręcony – w ten sposób rozpoczyna się pełna magii, piękna, ale i zmagań przygoda.

Przedstawienie zrealizował międzynarodowy zespół artystów. Erling Jóhannesson to islandzki aktor i reżyser, współzałożyciel i dyrektor artystyczny w latach 1994-2009 jednego z największych profesjonalnych teatrów niezależnych w Islandii – The Hafnarfjörður Theatre, realizującego w większości repertuar oparty na współczesnych sztukach islandzkich pisanych na potrzeby teatru. Scenografię do przedstawienia zaprojektowała Iza Toroniewicz, autorka scenografii i kostiumów do ponad stu polskich spektakli, zarówno dramatycznych, jak i lalkowych. Muzykę skomponował jeden z najbardziej popularnych zespołów islandzkiej sceny muzycznej, múm. W spektaklu występują aktorzy Miejskiego Teatru Miniatura

Pokazy przedstawienia odbywają się w ramach projektu „Blue Planet” dofinansowanego z funduszy EOG, pochodzących z Islandii, Liechtensteinu i Norwegii, oraz środków krajowych. Spektakl będzie grany w języku polskim.

 

 

Kveðjuorð til ömmu. Herdís Sigurjónsdóttir 1925 – 2014.

Afi Jón og amma Dísa.

Afi Jón og amma Dísa.

Þá eru þau bæði farin, amma Dísa og afi Jón, fallegu hjónin sem gáfu okkur kríurnar, miðnætursólina og dúninn, rekann og silunginn, viskuna, húmorinn og kærleikann.

Ég man hvað ég var smeykur við þau, þar sem þau sátu í eldhúsinu, reyktu og drukku kaffi, hlógu hátt og görguðu síðan eins og skarfar þegar þau voru ósammála. Að muna eftir bílferðinni norður 1982, með bát bundinn við þakið á Moskvitz bílnum hans afa og viðvaranir ömmu – þetta gæti orðið okkar hinsta ferð, framundan voru lífshættur: Brattabrekka, Vaðlaheiði, Tjörnesið og Sléttan sjálf þar sem mógrafir leyndust í mýrinni. 

Amma og afi birtust á Sléttunni á sama tíma og krían og fóru ekki fyrr en krían var farin. Ég lærði að meta þau meira en flest annað. Teigagerðið, litla rauða húsið þar sem þau biðu af sér veturinn. Amma í pelsinum, í leikhúsinu, með uppsett hárið glæsileg eins og drottning. Amma í rifnum náttkjól í eldhúsinu, með skakkar tær, æðahnúta, tannlaus og tuðandi við hann Jón. Amma sem var hreinskilin og hafði ekkert að fela. Amma og réttlætiskenndin, hún fékk fyrir hjartað þegar kvótakerfið var sett á. Amma sem prjónaði nýtt þak á Teigagerðið. Amma sem var listræn og átti teikningar frá unglingsárum sem sýndu hæfileika, sem hún ræktaði ekki aftur fyrr en 70 árum síðar. 

Dísa í Dalakofanum í Draumalandinu. Þegar þau dönsuðu í eldhúsinu, gullhamrarnir hans afa. Engin er jafn falleg og hún Dísa mín. Gallagripurinn hann Jón sem tók leigubíl frá Reykjavík austur á Norðfjörð til að biðja hennar og var mörg ár að borga bílinn. Líf þeirra sem var eins Dalakofinn enda spurði afi stundum: Hvort var þetta eftir mig eða Davíð Stefánsson?: Og meðan blómin anga og sorgir okkar sofa / er sælt að vera fátækur, elsku Dísa mín / og byggja sér í lyngholti lítinn dalakofa / við lindina, sem minnir á bláu augun þín.

Þau voru af gamla skólanum, nýtnin gerði þeim kleift að dvelja á Sléttunni sælusumrin löng, amma setti slátrið í gamlar nælonsokkabuxur þegar vambirnar voru á þrotum. Ég notaði auðvitað ekki tærnar og rassbótina, sagði hún mér til hughreystingar. Amma var glettin og sagðist ætla að ganga aftur ef einhver dirfðist að skrifa minningargrein um hana og tala bara um kleinur og pönnukökur. Þegar ég fyllti Borgarleikhúsið eitt árið var hún í salnum og sagði eftirá: Ég hélt alltaf að þú værir þroskaheftur en nú er ég ekki lengur viss.

Amma var óspör á að minna á að ræturnar fyrir austan. Hún talaði um svartalognið á Norðfirði, hún talaði um ömmu sína sem spann upp sögur úti í hlöðu. Hún talaði um pabba sinn sem skrifaði bréf fyrir franska sjómenn. Hún talaði um fátæktina, hvernig mjólkursopi var eins og að eignast gull og hvernig það var að fara í vist til Akureyrar, átta ára gömul. Hún var hjá góðu fólki en heimþráin fylgdi henni alla ævi.

Við vorum stödd á Melrakkasléttu þegar andlátsfréttin kom. Tuttugu ættingjar sjálfviljugir á sama bletti á hjara veraldar við undirspil kríunnar, með Rauðanúp á sjóndeildahringnum á meðan langömmubörn léku sér frjáls í móanum. Takk fyrir allt – elsku amma.

 

Mögnuð mynd af Íslandi frá NASA

image06182014_250m

Hér er mögnuð mynd frá NASA af svifþörungum undan Suðurlandi. Þarna eru gresjur hafsins þar sem ljóstillífun skapar undirstöðu lífkeðjunnar og jafnframt undirstöðu fiskveiða á Íslandi. Það er engin tilviljun að þessi mikli blómi á sér stað þar sem jökulfljótin renna í hafið, það má segja að sprenging verði í lífríkinu þegar ferskt jökulvatnið með sínum uppleystu efnum mætir söltum sjónum einmitt þegar sólin skín skærast.

Þeir sem hafa talað um að jökulárnar okkar renni til einskis til sjávar, vannýttar og engum til gagns, hafa ekki heildarmyndina í huga. Þeir hafa ekki ÞESSA MYND í huga. Það má segja að eini tíminn sem vatnsfall eins og Þjórsá rennur raunverulega til einskis sé að vetri til, þegar myrkur grúfir yfir og ljóstillífun er í lágmarki. Að öllu jöfnu ætti stór hluti af rennsli árinnar að skila sér til sjávar á vorin þegar snjóa leysir – en í staðinn er rennsli hennar jafnt mest allt árið. Jón Ólafsson haffræðingur sagði okkur frá þessu í ítarlegu viðtali þegar við kvikmynduðum Draumalandið en umfjöllunarefnið var efni í heila mynd eitt og sér.

Ólafur S. Andrésson líffræðingur ritaði grein árið 1992 um ,,hlaupaþorska“, hvernig hlaup í Skeiðará virðast tengjast stórum þorskárgöngum. Menn hafa einnig bent á hvernig varanlegt hrun varð í þorskstofninum fimm árum eftir að Búrfellsvirkjun var gangsett. Sá sem skoðar þessa mynd ætti í rauninni að ,,sjá“ hvað Ólafur var að tala um. Með réttu ættu sjómenn að hafa miklar áhyggjur af virkjunarröðinni í Þjórsá. Fyrir rafmagn sem upphaflega knúði framleiðslu á 40 þúsund tonnum af áli fórnuðum við hugsanlega milljónum tonna af lífmassa með því að tempra flæði Þjórsár og láta hana ,,gera gagn“.

photo 1

Guðmundur Páll Ólafsson útskýrir þetta samband á afar fallegan hátt hér: ,,Þegar vorið vitjar sjávarins bráðnar klaki og snjór á landi, lækir þrútna og ár hlaupa. Vorflóð eru næringarsturta sjávar. Þau töfra fram þrennt í senn: flytja framburð og uppleyst næringarefni og mynda ferskvatnshimnu ofan á sjónum – og þar sem ferska lagið mætir því salta blómgast þörungalíf og svifdýr tímgast. Þörungar eru æti svifdýra og svifdýrin æti þorskseiðanna en líka loðnuseiða svo dæmi séu tekin af stofnum sem eru í hættu. Samspilið þarf að vera ein allsherjar harmonía á þeirri ögurstund þegar seiðin leita ætis. Þetta samofna lífkerfi lands og sjávar – þar sem Þjórsá er helsta lífæðin – var ekki ofið í gær, heldur hefur viska náttúrunnar tvinnað samhengið – í Íslands milljón ár.”

Hverjir vilja ,,vernda“ þig?

Gæsir búa til friðardúfu

Lífið gengur sinn vanagang og fólk gengur að sínum réttindum vísum og man eða veit ekki á hvaða grundvelli við byggjum okkar samfélag. Ég sé að ég á 70 vini sem mótmæla byggingu bænahúss í tengslum við trúarbrögð sem 1/5 jarðarbúa virðast aðhyllast. Staðsetningin skiptir fæsta máli á síðunni, menn vilja bara koma í veg fyrir að svona miðstöð verði til og sumir vilja banna þessi trúarbrögð almennt á Íslandi, meðal þeirra er fyrrum framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðismanna. Gott og vel, við skulum banna eina tegund trúarbragða en hvernig framkvæmum við þetta bann? Bönnum við fólki að biðja? Bönnum við fólki að leigja sér sal eða bara að byggja eða eiga hús undir starfsemina? Lokum við landinu fyrir þeim sem aðhyllast þessa trú og hvernig metum við og mælum við trú fólks? En ef menn eru frá viðkomandi löndum og segjast trúlausir? Lokum við landinu almennt og við hvaða lönd miðum við? En ef þetta er sænskur ríkisborgari? Og hvernig framfylgjum við lögunum og losum okkur við þessa trú eða komum í veg fyrir að hún birtist okkur í daglegu lífi? Með lögregluvaldi? Rannsóknum, hlerunum? Vísum við fólki úr landi en hvað með blönduð hjónabönd? Hvað með þá 600 sem eru hér – (fáránlega lítill hópur miðað við tvo borgarfulltrúa) Hvað með börnin þeirra? Á að endurmennta þau? Á að kristna þau? Hvernig? Og er það ekki þannig að þeir sem eru harðastir á þessum síðum hata líka umhverfisverndarsinna og femínista og sósíalista og þeim er meinilla við RÚV, listamenn, Evrópu almennt, Háskólann og reiðhjól og hver er þá munurinn á þeim og þeim sem þeir ætla að ,,vernda okkur“ gegn.

Upptaka frá HÍ – hvernig verður bók til?

Hér fyrir neðan er upptaka af innleggi Andra Snæs Magnasonar í fyrirlestraröðinni Hvernig verður bók til? sem hefur verið haldið úti af námsbraut í ritlist og Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands frá 2009. Fyrirlesturinn fór fram í stofu 101 í Lögbergi milli 12 og 13 fimmtudaginn 13. febrúar 2014.

Hvernig verður bók til?

Ég hélt mér einkum við Bláa hnöttinn en hafði ætlað mér að fara um víðan völl og inn í önnur verk, en Blái hnötturinn reyndist meira en nóg fyrir eina kennslustund, þó kom ég við bæði í LoveStar og Draumalandinu og Bónus ljóðum. Það var gott stuð í salnum og skemmtileg stund að mér sýndist. Hér er upptaka af þessum fyrirlestri.

Það er aldrei að vita nema ég hendi inn nokkrum frumgögnum til viðbótar svo fólk geti lesið og áttaði sig á því hvert ég var að fara. Þar með talinn áður óbirta endann á LoveStar, millikaflann í Bláa hnettinum, umsókina um listamannalaun frá 1998 sem lýsir hugmynd höfundar um verkið áður en það kom út og reyndar – áður en það var skrifað og kannski nokkur ljóð eftir Bergsvein Birgisson. Ég hafði ætlað mér að lesa þau í Háskólanum en gleymdi að lesa – eitt þeirra úr Innrás liljanna varð kveikjan að skógarbirni og heilum kafla í Bláa hnettinum.