Þjóðleikhúsið
Mánudagurinn 11. apríl 2016
Kæru vinir, ættingjar og aðrir gestir
Það er vandi að taka stórt skref, að taka stóra stökkið og eins og einhvern hér inni hefur ef til vill grunað – þá hef ég ákveðið að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands.
Forseti Íslands.
Forseti Íslands getur verið farvegur fyrir nýjar hugmyndir og nýja strauma, Bessastaðir voru á tímum Fjölnismanna sá staður á Íslandi þar sem nýjar hugmyndir í listum og vísindum bárust fyrst til landsins og voru orðaðar í fyrsta sinn á íslensku.
Forseti Íslands getur tengt fólk saman, hann getur leitt saman ólíka hópa, hann getur lyft mikilvægum málum, hann getur látið andstæður mætast og fundið sameiginlega fleti en um leið þarf forseti að hafa skýra sýn, sterka rödd og sannfæringu.
Forsetaembættið á Íslandi er merkilega opið og skapandi. Forseti Íslands getur sett mál á dagskrá, hann getur vísað lögum til þjóðaratkvæðis, hann getur haft áhrif á stjórnarmyndun og hann er eina manneskjan á Íslandi sem er raunverulega þjóðkjörin.
Við viljum öll vera stolt af því að tilheyra íslensku samfélagi, við viljum eiga eitthvað sameiginlegt og okkur langar að vaxa og dafna í þessu fallega landi en stundum er eins og við eigum fátt sameiginlegt.
Á síðustu dögum hefur gamalt sár opnast en kannski er þetta líkara beinbroti sem gréri vitlaust saman og þarf að brjóta aftur til að það grói rétt. Það er sárt en líklega óhjákvæmilegt.
Ég stíg fram vegna þess að mig langar að bjóða fram ákveðna framtíðarsýn.
Ég hef verið heppinn með fyrirmyndir í lífinu og samferðafólk, margir eru í salnum hér í dag. Ég á tvær sterkar fyrirmyndir í Guðmundi Páli Ólafssyni og Vigdísi Finnbogadóttur. Uppáhalds ljóð þeirra er eftir Snorra Hjartarsonar sem byrjar svona: ,,Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein, þér var ég gefinn barn á móðurkné.“
Ljóðið fjallar um vöggugjafirnar sem Íslendingum eru gefnar. Við getum kallað það land, þjóð og tunga eða náttúru, lýðræði og menningu – í rauninni liggur þar kjarni embættis Forseta Íslands.
Þrjár stoðir sem hann þarf að gæta að.
Mig langar til að leggja fram þrjú verkefni sem ég tel að gætu verið þjóðinni til heilla.
Við þurfum að spyrja okkur. Í hvernig landi viljum við búa? Hvað viljum við standa fyrir, hvernig viljum við taka þátt í hinum stóra heimi? Já hvaða skilaboð viljum við færa heiminum?
Hvað ætlar okkar kynslóð að gera, hvað ætlar hún að skilja eftir sig í stóra samhenginu? Ein kynslóð stofnaði lýðveldið 1944, ein kynslóð færði út landhelgina, ein kynslóð kaus konu sem þjóðarleiðtoga fyrsta allra þjóða. En hvað viljum við gera? Hvað á sá sem talar fyrir okkar hönd að hafa í farteskinu?
Ég tel að þjóðgarður á Hálendi Íslands sé ein af þessum stóru hugmyndum sem við gætum látið verða að veruleika. Þjóðgarður myndi staðfesta mikilvægi og gildi náttúrunnar í sjálfri sér. Hálendið er hluti af sjálfsmynd okkar. Hálendið er kjarninn í ímynd Íslands og þjónar þannig öllum landsmönnum. 40.000 ferkílómetra þjóðgarður væru mikilvæg skilaboð út í heim þar sem náttúran á alls staðar í vök að verjast.
Umhverfismálin eru og verða langstærsta áskorun 21.aldar. Ef jörðin á að bera öll þau börn sem við viljum eignast þá þurfum við að endurhanna og endurhugsa nánast alla 20, öldina. Þessar breytingar eru lífsnauðsynlegar en þær eru ekki neikvæðar. Þær verða kjarninn í allri framþróun í öllum greinum í náinni og fjarlægri framtíð.
Sem fiskveiðiþjóð eigum við allt okkar undir hafinu. Ég sé fyrir mér að embættið geti verið mikilvæg rödd í verndun hafsins. Barn sem elst upp á Íslandi á að hafa æði fyrir fiskum. Hvort hvalir verði ætir í framtíðinni, er líklega mikilvægari spurning en hvort þeir séu veiddir.
Jöklar bráðna fyrir augum okkar. Amma mín er hér í salnum. Hún fór í brúðkaupsferð upp á Vatnajökul árið 1956. Ef barnabarn mitt nær sama aldri og hún – verður það enn á lífi árið 2120.
1924 – 2120 Það er tíminn sem tilheyrir okkur – það er tíminn sem við getum snert með berum höndum. Tími einhvers sem við þekkjum og elskum og tími einhvers sem við munum þekkja og elska.
Við þurfum að læra að hugsa í lengri tíma en ársfjórðungsuppgjörum og mislöngum kjörtímabilum.
Þess vegna eru umhverfismálin eitt mikilvægasta viðfangsefni forseta Íslands.
Jöfnuður, jafnrétti og jöfn tækifæri er forsenda þess að við getum kallað okkur þjóð. Ég fylgdist með þjóðfundinum, þar sem 1000 Íslendingar valdir í slembiúrtaki komu saman og ræddu gildi sín og framtíðarsýn. Ég fylltist ákveðinni von vegna þess að sneiðmyndin af þjóðinni var fallegur hópur sem gat talað saman. Almenningi var gefin rödd og við sýndum að lýðræðið er skapandi ferli í sífelldri þróun. Í kjölfarið átti að verða til nýr samfélagssáttmáli og grundvallarlög fyrir samfélagið okkar. Tilraunin var einstök og vakti athygli um allan heim.
Það er mikilvægt að klára stjórnarskrána, við þurfum nýjan samfélagssáttmála og ferlið er ekki ónýtt, þótt það hafi laskast. Nýja stjórnarskráin verður að eiga rótfestu í þjóðfundinum.
Þjóðgarður og stjórnarskrá væru verkefni sem myndu lýsa langt út fyrir landsteinana og vekja vonir hjá fólki um allan heim.
Guðmundur Páll Ólafsson sagði þetta:
Þú verndar aðeins það sem þú elskar,
þú elskar aðeins það sem þú þekkir.
Þú þekkir aðeins það sem þér er kennt
Ég hef hitt meira en 20.000 skólabörn hér heima og erlendis síðustu 10 ár, ég hef tekið þátt í verkefnum sem tengjast skapandi skrifum og læsi. Ég spyr börnin oft hvort þau tali fleiri tungumál en íslensku og í hverjum bekk réttir einn eða fleiri upp hönd og þau nefna alls kyns tungumál.
Sá sem ræktar sitt móðurmál skilur gildi tungumála almennt og þar er ein stærsta áskorun komandi ára. Tungumálið og móðurmálin þurfa að eiga sér málsvara. Við verðum að gæta þess að krakkarnir taki við keflinu og fyllist ást á tungumálinu.
Ísland verður að vera land tækifæranna fyrir börn sem flytja hingað. Tölfræðin sýnir að mörg þeirra standa höllum fæti. Ef við vöndum okkur munum við eignast sterka einstaklinga með djúpar rætur í fjarlægum menningarheimum. Ef við sofum á verðinum gæti stór hópur misst tökin á sínu eigin móðurmáli án þess að læra íslensku. Tungumálin eru lykill að heiminum og embættið getur lyft þessum málaflokki.
Land, þjóð og tunga. Þrjú orð sem fela í rauninni í sér öll önnur svið sem heyra undir embættið.
Hvað gerði okkar kynslóð?
Við ættum að klára þjóðgarðinn sem er kjarninn í náttúru okkar.
Við eigum að ljúka við stjórnarskrána sem er grundvöllur stjórnskipunar okkar.
Við eigum að taka utan um móðurmálin okkar – sem eru farvegur hugsunar okkar og menningar.
Það er af þessum ástæðum – kæru vinir sem ég býð mig fram í embætti forseta Íslands.
- apríl 2016.
Andri Snær Magnason
Ljósmyndir: Christopher Lund og Jón Gústafsson