Að minnka losun Íslands um 50% á 10 árum

Það er óhætt að segja að þeir sem fygljast með fréttum af loftslagsmálum séu fljótir að þróa með sér samviskubit og jafnvel sjálfshatur eins og margir upplifðu þegar þeir sáu þessa frétt. Ég lifi sjálfur í þessari þversögn, flýg til útlanda oft á ári vegna útgáfu verka minna og held fyrirlestra sem fjalla meðal annars um bráðnun jökla og framtíð jarðar. Það er erfitt að sjá einhverjar raunverulegar breytingar eiga sér stað, framfarir eða vonarglætur og sífellt koma fram alvarlegri afleiðingar og ógnvekjandi spár.

Það getur verið erfitt að fóta sig í þessum loftslagsfræðum og loftslagsfræðingar virðast ekki beinlínis hafa fengið skáldgáfu í vöggugjöf þegar sviðsmyndir IPCC heita SSP1 og SSP2 og línuritin segja manni að eitthvað sé án LULUCF. Maður hrökklast auðveldlega burt og lætur sérfræðingum eftir að ræða þetta, miðla og skilja.

Markmiðin sem eru sett fram í nýjustu skýrslu vísindanefndar sameinuðu þjóðanna virðast nánast fáránleg og óframkvæmanleg. Samkvæmt henni á mannkynið að hafa hætt losun á CO2 árið 2050 og eftir þann tíma á jákvæð binding CO2 að verða smám saman jafn mikil og losunin er núna. Semsagt, við eigum að binda meira en við losum, við eigum að spóla til baka öllum okkar hringvegum, utanlandsferðum og rúntum unglingsáranna. Vandinn er sá að ef við náum ekki þessum markmiðum mun mannkynið og jörðin öll ganga gegnum langan lista af hörmungum, súrnun sjávar, þurrka, uppskerubrest, skógarelda, eyðimerkumyndun, flóttamannastraum osfrv…

Á kvöldi sem ég stóð fyrir í Hannesarholti var fjallað um tímann og loftslagið. Þar ákvað ég að prófa að leggja áherslu á vonina eftir nokkuð þynglyndislegar spár um framtíð hafsins og jöklanna. Mig langaði að heyra um lausnir, en við þurfum semsagt að binda meira en við losum. Það er nánast f´áránlegtilhugsun eins og staðan er í dag. En ef við horfum á losun Íslands þá er hún nærri fimm milljónum tonna af CO2 árlega. 

En er svo fáránlegt að koma Íslandi nærri núlli í losun á CO2? Ef við lítum nánar á tölurnar þá losar bílaumferð c.a milljón tonn árlega hérlendis. Það er nú þegar komin fram tækni til að rafbílavæða samgönguflotann og eftir 20 ár verður fyrirbærið bensínstöð álíka framandi fyrirbæri og sjoppa eða vídeóleiga.

Ef við lítum síðan enn nánar á tölurnar má sjá að álverin þrjú, Alcoa, Rio Tinto og Century losa álíka mikið og bílaflotinn og flugið til samans og nú virðist komin fram tækni til að koma þeirri losun niður í núll.

Í Hannesarholti var Dr. Sandra Snæbjörnsdóttir með erindi en hún hefur verið hluti af CarbFix teyminu uppi á Hellisheiði. Þau hafa staðið fyrir tilraunaverkefni sem hefur tekist framar vonum og nú eru þau farin að binda um 10.000 tonn árlega af losun Hellisheiðarvirkjunar og megnið af brennisteinsvetninu sem verksmiðjan losaði. Aðferðin er tiltölulega einföld, í rauninni er hér um að ræða hálfgert Soda Stream. CO2 er blandað við vatn og sódavatninu er dælt ofan í jörðina og þar verða efnahvörf þar sem lofttegundin breytist í silfurberg en með brennisteininum verður til glópagull.

Nú hafa þau gefið út vísindagrein þar sem kostnaður við að losna við hvert tonn af CO2 er c.a 25 dollarar tonnið. Þetta verð miðast við tækni sem er rétt að komast af þróunarstigi og er í eðli sínu alls ekki flókin þannig að verðið ætti að lækka talsvert ennþá. Tæknin felur ekki í sér flókin aukaefni heldur er einfaldlega verið að vinna með náttúrulegum ferlum.

Álverin og kísilverin á Íslandi losa um 1.8 milljón tonn á ári og eru þannig langstærsti einstaki mengunarvaldur á Íslandi. Þannig að ef CarbFix virkar eins og það virðist gera væri hægt að minnka losun frá Íslandi, sem nemur öllu flugi og allri bílaumferð á örfáum árum með því að koma böndum á álverin. 

Samtals, miðað við núverandi tækni blasir við að á næstu árum ætti að vera hægt að minnka losun Íslands um að minnsta kosti 50% og það væri alls ekki dýrt, heldur þvert á móti, af því yrði mikill hagur.

Tonnið á áli er á heimsmarkaði um 2000 dollarar tonnið. Þannig að kostnaður við að binda CO2 frá álverunum ætti ekki að vera meiri en 4 – 5 milljarðar árlega -eða c.a 1-2% af álverði. Það er minna en meðalsveifla á álverði milli mánaða. Ef heimsmarkaðurinn er ekki tilbúinn að greiða 1% hærra verð frá verksmiðju sem er án CO2 losunar – þá yrði það einfaldlega til merkis um gagnsleysi markaðarins þegar kemur að mikilvægum málefnum.

Ég tek auðvitað ekki ábyrgð á nýrri tækni en þetta er kjörið efni fyrir fjölmiðla og stjórnmálamenn að fylgja eftir. Væri raunhæft að nota Carbfix tæknina og núlla út álverin á nokkrum árum? Hérlendis eru ungir vísindamenn og konur sem geta og kunna að leysa þetta vandamál. Ef tæknin er talin örugg og öll aðstaða er fyrir hendi er ekki eftir neinu að bíða. Þá er heldur engin ástæða til að bíða eftir markaðnum, ef þetta gerist ekki nógu hratt má setja skatt eða lög. 

Síðan má fljúga sjaldnar og betur og kolefnisjafn flugið sitt með því að styrkja sjóði eins og Auðlind sem stuðlar að endurheimt votlendis og Yrkju en gegnum hann hafa grunnskólabörn bundið tugþúsundir tonna af CO2 á síðustu þrjátíu árum.

Og þegar það er komið þarf að taka á landbúnaðnum, skipunum, matarvenjum, neyslu og úrgangi. Þannig að ef við horfum bara á Ísland, þá er full ástæða til bjartsýni um að hægt verði að ná talsverðum hluta af þessum markmiðum.

Allt að gerast í Brazilíu – Tímakistan og LoveStar

Ferill minn er býsna ólínulegur þegar komið er út fyrir landsteina og nú nýlega var LoveStar að koma út í Brazilíu, um það bil 16 árum eftir útkomu bókarinnar hérlendis. Langlífi bóka er auðvitað ákveðið lúxusvandamál fyrir rithöfund og frábært að sjá LoveStar lifa svona ágætu og löngu lífi, nú er hún talsvert borin saman við Black Mirror seríuna og einhver hefur haft á orði að sumt í ákveðnum þáttum þar fari full nærri LoveStar, ég skal ekki meta það. Í Brazilíu fylgir LoveStar fylgir í kjölfar Tímakistunnar sem kom út í fyrra og þar er ég að eignast í fyrsta sinn lesendur sem lesa eina bók og síðan aðra strax í kjölfarið. Tímakistan og LoveStar koma út hjá Morro Branco, sem er vaxandi forlag í Sao Paulo með marga virta og góða höfunda. LoveStar virðist vera einstaklega vel úr garði gerð skv Instagram myndum sem ég hef séð. Ég er ekki enn kominn með eintak í hendurnar. Blái hnötturinn kom út í Brazilíu fyrir nokkrum árum, þannig að nú eru þrjár bækur fáanlegar á Portúgölsku.

Tímakistan hefur fengið fullt af góðum dómum og umsögnum frá lesendum. Þar sýnist mér titillinn hitta vel í mark: A Ilusao do Tempo, eða Tímablekkingin / Sjónverfing tímans. Mjög ljóðrænn og góður titill sem hæfir vel portúgölskunni. Þýðandi tímakistunnar er Suzannah Almeida. Þýðandi LoveStar er Fabio Fernandez hefur komið víða við en meðal höfunda sem hann hefur þýtt eru goðsagnir vísindaskáldsögunnar: Isaac Asimov, Philip K. Dick og William Gibson.

Hér er fullt af fimm stjörnu dómum um Tímakistuna.

Hér er stórt viðtal við mig í einu stærsta dagblaði Brazilíu:

Hér er ritdómur um Tímakistuna:

https://www.correiodocidadao.com.br/noticia/uma-fabula-que-nos-avisa-sobre-o-nosso-futuro-a-ilusao-do-tempo

Annar dómur hér:

http://acervodoleitor.com.br/a-ilusao-do-tempo-resenha/

Og hér er dómur um LoveStar:

http://www.ficcoeshumanas.com/fantasia–ficcao-cientifica/resenha-lovestar-de-andri-snaer-magnasson

Suður Amerískar bókmenntir hafa alltaf haft mikil áhrif á mig og það er mikill heiður að fá góðar móttökur þarna niðurfrá í hjarta töfraraunsæisins.

 

Bónusljóð 44% meira

Bónusljóð hafa verið ófáanleg um langt skeið en nú eru þau loksins komin út í endurbættri útgáfu, 44% fleiri ljóð en í upphaflegu útgáfunni.

Bónusljóð lýsa guðdómlega gleðilegu ferðalagi gegnum undraheim Bónusverslunar sem er skipt eins og Guðdómlega Gleðilleiknum eftir Dante. Við byrjum í Paradíso, grænmetisdeildinni, förum í Inferno, Kjötvörurnar og endum í Purgatorio, hreinlætisvörunum.

Bónusljóð hafa átt óvæntu fylgi að fagna erlendis, hún er til dæmis metsölubók í Færeyjum en Sanna Andrassardottir Dahl þýddi hana fyrir Unga Föroyar. 

Walter Rosselli þýddi bókina fyrir Nottetempo og franska útgáfan var einnig þýdd af Walter og kom út hjá Editions d’en Bas á frönsku.

Þýska útgáfan var þýdd af Tinu Flecken og gefin út hjá  Orange Press

Ensku útgáfuna þýddi Elísabet Jóhannesdóttir og Forlagið sér um útgáfu og dreifingu ásamt Bónus.

Hér er myndband sem ég gerði fyrir ensku útgáfuna:

 

Sagan af Bláa hnettinum á Akureyri

Myndasafn

Hér hef ég tekið saman flest eintökin af Sögunni af Bláa hnettinum sem ég á sjálfur. Mig vantar nokkur í safnið, ekki síst þá litháísku sem ég hef aldrei séð eða eignast. Þessar bækur verða til sýnis á Amtsbóksafninu á Akureyri í febrúar eða eins og ségir hér í tilynningu frá Amtsbókasafninu:

,,Í febrúar fögnum við fjölbreytileikanum og tileinkum mánuðinn hinum ýmsu tungumálum sem töluð er á Akureyri og fleiri til – Við sýnum þýðingar á sögu Andra Snæs Magnasonar af bláa hnettinunum en sagan hefur verið þýdd á yfir 30 tungmál.  Mismunandi útgáfur á ólíkum tungumálum sýna vel þann skemmtilega mun sem er á málum okkar og letri

Laugardaginn 6. janúar fáum við fulltrúa nokkurra þeirra tungumála sem við höfum hér í bænum til þess að lesa upp úr bókinni og leyfa okkur að heyra hvernig þau hljóma.“

Ég er að vona að ég nái að koma arabísku þýðingunni til þeirra í handriti en hún kemur ekki út fyrr en á næsta ári. Hér má sjá börn í Huidong í Kína lesa úr sögunni af Bláa hnettinum:

 

 

Upptaka frá HÍ – hvernig verður bók til?

Hér fyrir neðan er upptaka af innleggi Andra Snæs Magnasonar í fyrirlestraröðinni Hvernig verður bók til? sem hefur verið haldið úti af námsbraut í ritlist og Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands frá 2009. Fyrirlesturinn fór fram í stofu 101 í Lögbergi milli 12 og 13 fimmtudaginn 13. febrúar 2014.

Hvernig verður bók til?

Ég hélt mér einkum við Bláa hnöttinn en hafði ætlað mér að fara um víðan völl og inn í önnur verk, en Blái hnötturinn reyndist meira en nóg fyrir eina kennslustund, þó kom ég við bæði í LoveStar og Draumalandinu og Bónus ljóðum. Það var gott stuð í salnum og skemmtileg stund að mér sýndist. Hér er upptaka af þessum fyrirlestri.

Það er aldrei að vita nema ég hendi inn nokkrum frumgögnum til viðbótar svo fólk geti lesið og áttaði sig á því hvert ég var að fara. Þar með talinn áður óbirta endann á LoveStar, millikaflann í Bláa hnettinum, umsókina um listamannalaun frá 1998 sem lýsir hugmynd höfundar um verkið áður en það kom út og reyndar – áður en það var skrifað og kannski nokkur ljóð eftir Bergsvein Birgisson. Ég hafði ætlað mér að lesa þau í Háskólanum en gleymdi að lesa – eitt þeirra úr Innrás liljanna varð kveikjan að skógarbirni og heilum kafla í Bláa hnettinum.