Tímakistan fær Íslensku bókmenntaverðlaunin – ræðan og fleira

Forseti Íslands og aðrir gestir

Ég er stoltur og glaður að taka við þessum verðlaunum og auðvitað rígmontinn, þetta er í þriðja sinn sem ég stend hér og einhverjum gæti fundist nóg komið en ég vil benda á að ein uppáhaldsbókin mín, Morgunþula í stráum fékk þessi verðlaun árið 1998. Thor Vilhjálmsson skrifaði hana en þá var hann 73 ára gamall. Þar hef ég stillt stöngina.

En stærsta stundin mín tengd þessum verðlaunum er ekki frá árinu 1999 eða 2006 – heldur árið 2008 þegar Sigurður Pálsson hélt sína þakkarræðu. Þá varð mér litið á símann og sá þar 16 missed calls á síðustu 10 mínútum. Konan mín hafði misst vatnið, ég rauk út og okkur fæddist dóttir sama kvöld. Hún er hérna í dag – 6 ára á morgun. Já tíminn flýgur.

Og ég var ansi lengi með þessa bók í maganum, þreföld fílameðganga og það er mörgum sem ber að þakka. Ég vil þakka konu minni Margréti Sjöfn Torp fyrir óteljandi yfirlestra og óendanlega þolinmæði þegar ég skrifaði þessa bók. Ég vil þakka Sigga vini mínum fyrir að hýsa mig í New York þegar ég kom bókinni loksins á skrið og fann rétta tóninn og Dony og Grétu á Ustica þegar við tókum lokasprettinn. Ég þakka Forlaginu fyrir að nenna að biða svona lengi eftir bókinni, Sigþrúði fyrir ritstjórnina og öðrum vinum mínum sem lásu hana yfir. Katla Rós fær sérstakar þakkir fyrir að gera bókina fallega.

Ég vil líka þakka launasjóði rithöfunda fyrir stuðninginn og föður mínum fyrir að lesa fyrir mig Elsku Míó minn og móður minni fyrir skuggaleikhúsin – sem ég man því miður ekki lengur um hvað fjölluðu. Jú svo vil ég þakka Mikael Ende, HC Andersen, Jóni Árnasyni þjóðsagnasafnara, Grimms bræðrum og mörgum fleirum. Félag bókaútgefanda á heiður skilinn fyrir að hefja barnabókmenntir á þennan stall.

Ég hef þá trú að ævintýrin reyni að segja okkur eitthvað um það hver við erum. Ævintýrin geyma erkitýpur og frummyndir sem spegla veruleikann. Stundum óljósar, stundum augljósar. Þau fara með okkur lengra en raunveruleikinn getur borið okkur.

Það hefur svosem ekki verið auðvelt að sökkva sér ofan í ævintýraheim hér á Íslandi síðustu árin, raunveruleikinn hefur verið yfirþyrmandi, á köflum vissulega ævintýralegur. Við höfum séð hetjur og skúrka, ris og fall stórvelda. Raunveruleikinn hefur verið fáránlegur, hneykslanlegur, sorglegur, tragíkómískur og oftar en ekki brýnn og aðkallandi. Þegar ég skrifaði þessa þakkarræðu varð hún oftar einu sinni fimm blaðsíðna ritgerð um Þjórsárver eða hraunið sem við sjáum hérna út um gluggann eða umfjöllun um samfélag sem hendir ástríðufullum rithöfundi og áhugamanni um samfélagið úr stjórn RÚV og setur innmúraðan flokksmann í staðinn. Stundum er engu líkara en að Láki jarðálfur vakni hér á hverjum morgni og hugsi sem svo – hvern á ég að ergja í dag? En einhvernveginn svona er vinnuumhverfið á þessu landi.

Í sögunni minni eignast Dímon konungur Tímakistu. Hún er ofin úr kóngulóarsilki, úr svo þéttu efni að tíminn sjálfur kemst ekki inn í hana, hann eignast alveg einstakt tæki til þess að fylla alveg upp í öll göt tímans, að gjörnýta hvert augnablik og hverja einustu stund í lífi Hrafntinnu dóttur sinnar.

Sá sem skrifar bók fyrir börn og unglinga lendir sjálfkrafa í umræðunni um lestur og læsi og PISA könnunina alræmdu. Margir segja að lestur sé mikilvægur. En hvers vegna? Ég stend mig iðulega að því að beita efnahagslegum röksemdum – að bókvitið verði í askana látið, lestur sé lykill að námsárangri – þannig verði Ísland samkeppnisfært í framtíðinni, án lestrar verður enginn hagvöxtur og þá geta hjól atvinnulífsins ekki reykspólað um allar trissur. Og svo benda menn á að bækur séu vinsæl gjafavara og atvinnuskapandi hluti af hinum skapandi greinum, jafnvel góð landkynning. En svo hugsa ég – af hverju get ég bara talað svona um eitthvað jafn mikilvægt og læsi, með tilvísun í arðsemi og hagvöxt?

Og mér finnst ég vera að bregðst einhverju með því að tala svona. Ef þetta eru helstu rökin, hvernig get ég réttlætt listamann sem býr til eitthvað sem ekki er til sölu? Hvernig getum við réttlætt hálendið sem er þarna bara eins og risastórt gat í miðju landsins? Já til hvers er það? Við réttlætum tilgang listamanna með því að benda á einn sem seldi fyrir hundrað milljónir, annan sem er heimsfrægur. Bendum á ferðamannaeyðslu til að réttlæta náttúruna. En hvað með staði sem hafa ekkert áhorf? Hvað með uppáhalds skáldin okkar – sem seldu aldrei neitt á meðan þau lifðu? Hvað með þá sem gera tilraunir, taka áhættu, færa út mörk listarinnar, hugsunar okkar og skynjunar?

Þegar ég skrifaði Tímakistuna var ég meðal annars innblásinn af blaðsíðu í gömlu eintaki af ,,Bókinni um veginn“ frá 1921 – þar er fjallað um nytsemina:

,,Þrjátíu hjólrimar mætast í nöfinni,

en nytsemi hjólsins er komin undir öxulgatinu.

Leirkerin verða að gagni

vegna þess að þau eru hol að innan.

Menn smíða dyr og glugga

og húsið verður nytsamt

af því að það er tómt.

Og geti tilveran borið ávöxt,

er hið tilvistarlausa nytsamt. “

Ég hallast að því að eina leiðin til að útskýra tilgang listarinnar sé með vísun í gagnsleysi öxulgatsins. Að listin leitist við að vera þetta tóm og listin sé leit að þessu tómi, að þegar best tekst til þá er listin gatið sem leyfir hjólinu að snúast og án hennar snúist það alls ekki. Tilraunir til að sanna að skáldskapur, ljóð eða ævintýri borgi sig og skili mælanlegum hagnaði fyrir þjóðina eru til þess eins að fylla upp í þetta gat, stöðva hjólið og segja að kerið eigi í raun og veru að vera fullt af steypu.

Orðræðan um gagnsemi og hagkvæmni hefur komið mörgum í varnarstöðu og í hvert sinn sem menn gleyma því að tilgangurinn sé einmitt tilgangsleysið, ómælanleikinn, leitin að þessu gati – þá færist víglínan og krafan um mælanleg markmið nær öðrum sviðum. Til hvers lærum við ljóð? Hverju skila þau? Til hvers er þá að læra sögu eða segja sögur eða spila á selló? Til hvers er þá nokkur hlutur sem ekki hefur mælanleg áhrif? Til hvers eru ónýtanleg náttúra – eða fátækir eða gamlir. Til hvers er heimspeki? Til hvers eru fuglar? Við viljum setja fullkomna mælistiku á lífið en hvernig verður jörðin, þegar hver blettur hefur verið verðlagður og nýttur? Hvernig verður vinátta okkar þegar hún er orðin ekkert nema tengslanet?

Nú höfum við til dæmis dregið menn og konur fyrir dóm fyrir það að vera læsir á myndlistarsögu, náttúrusögu, íslandssögu og jarðsögu okkar. Þau eru krafin um svar – til hvers er þetta hraun? Já til hvers eru ljóð, til hvers er hraun? Til hvers eru fuglar og til hvers að vera læs – ef það færir mönnum aðeins angur og óþægindi ef meirihlutinn kýs ólæsið. Við verðum að nýta gatið, fylla kerið af steypu, eins og menn skilji ekki að þá er ekki hægt að fylla það af vatni, þegar maður er þyrstur.

Því segi ég að hafi bók mín heppnast raunverulega vel þá finnur einhver hana eftir 50 ár, helst í gamalli hillu eða á bókasafni og gætir þess þannig að valda ekki minnstu gáru í hagkerfinu. Hann slekkur á sjónvarpinu og spillir þannig auðlindinni sem hann sjálfur er sem áhorf, neytandi, auglýsingaþegi. Hann sest upp í rúm og les fyrir sjálfan sig, konu sína, barn sitt – eða alla þrjá. Hann eyðir hálftíma, klukkutíma, átta tímum. Eins og þegar pabbi las fyrir mig Elsku Míó minn – og ef menn hverfa saman inn í þetta gat þá hefur tilgangurinn komið í ljós og við skiljum að tilveran getur borið ávöxt.

Takk fyrir mig.

 

 

Hvernig líður flækjunni?

Eins og hér má sjá hefur vegagerðin hannað umfangsmikil mislæg gatnamót og slaufur - sem taka meira landrými en gatnamótin þar sem tugþúsundir bíla fara um daglega.

Eins og hér má sjá hefur vegagerðin hannað umfangsmikil mislæg gatnamót og slaufur – sem taka meira landrými en gatnamótin þar sem tugþúsundir bíla fara um daglega.

Ég sé að fólk er farið að deila þessum pistli hér um Gálgahraunið og það minnir mig á eitt. Í úrskurði Vegamálastjóra og bæjarstjórans í Garðabæ virðist felast viðurkenning á því að ofangreint umferðarmannvirki sé óþarfa umfangsmikið og kostnaðarsamt. Ég skil ekki að íbúar Ásahverfis vilji skipta út útsýni yfir fallegt hraun fyrir þessa flækju. Hugsanlega er þetta landlægur skortur á tíma frekar en ímyndunarafli. Fólk hefur ekki tíma til að sjá hlutina fyrir sér, en útsýni hefur bein áhrif á fasteignaverð. En bæjarstjóri og Vegagerðin tóku undir gagnrýnina að einu leyti:

,,Þó hafa verið gerðar athugasemdir við mislæg gatnamót og að vegslaufur eyðileggi hraunbrúnina að austanverðu, auk þess sem það sé dýr framkvæmd. Garðabær og Vegagerðin munu í tilefni af því kanna og stefna að því að þar komi hringtorg og undirgöng fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur í stað mislægra gatnamóta, enda hafi það ekki áhrif á framkvæmdina að öðru leyti.”

Sjá nánar hér.

Nú má spyrja – hefur þessu verið fylgt eftir? Eru komnar fram teikningar eða frumdrög? Hvað sparast mikið? Það munar um hvern tug milljóna milljónir og offjárfesting í umferðarmannvirkjum er alltaf hrein sóun. Hundrað milljónir í bætur til verktakans eru tíu sinnum betri en að sóa milljarði að óþörfu. Menn viðurkenna of umfangsmikil mannvirki en ganga samt til samninga við verktakann – er ekki eitthvað skrítið við það?

FIMMTUDAGSKVÖLD Á ÞINGVÖLLUM -TAKTU ÞETTA BLAÐ OG STINGDU ÞVÍ OFANÍ SAUÐARLEGG.

 

Andri Snær Magnason er leiðsögumaður í fimmtudagskvöldgöngu á Þingvöllum þann 20.júní. Eitt meginþema göngunnar er þetta hér:

,,Taktu þetta blað og stingdu því ofaní sauðarlegg. Á Jónsmessunótt skaltu fara með legginn og leggjast á gröf Jónasar Hallgrímssonar á Þingvöllum. Ef þér tekst að vera þar heila nótt þar til fyrsta túristarúta morgunsins kemur mun skáldgáfa hans hlotnast þér.“

Þetta textabrot kemur fyrir í ,,Engum smá sögum“ einni af fyrstu bókum Andra Snæs Magnasonar. Sagan fjallar um mann sem leggst á gröf Jónasar í von um skáldgáfu en ýmislegt fer úrskeiðis. Andri Snær mun leiða okkur í ferðalag um Þingvelli, blanda saman sögum úr fortíð og framtíð, lesa úr textum sem hljómuðu sannanlega á Þingvöllum og texta sem aldrei hafa hljómað þar áður.

 

myndjonas_600x402

Andri Snær mun velta upp ýmsum flötum, spegla þá í sínum eigin skáldskap og annarra. Þingvellir eru sameiningartákn þjóðarinnar en þar kristallast líka andstæður okkar, Evrópa og Ameríka, Einar og Jónas, kristni og heiðni, frelsi og kúgun, lög og lögleysa, fegurð og hryllingur. Andri Snær mun fara gegnum þetta svið og feta einstigið milli vits og vitleysu.

Kvöldgangan hefst klukkan 20.00 þann 20. júní við fræðslumiðstöðina við Hakið og eru allir velkomnir.
Frekari upplýsingar um göngurnar í sumar má finna á vef Þingvalla: http://thingvellir.is/1857
Myndina af skáldinu tók Ari Magg.

Varstu afvegaleiddur af Vegagerðinni? Líka: Örsigur fyrir heimilin og smá sýra.

Þegar rætt er um umhverfis og skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu þá er ágætt að kippa hausnum um stund út úr Gálgahrauni og skoða þessa mynd hér:

Frá Háusölum í Kópavogi í Hæðarsel eru 5.6 km. Eitt skýrasta dæmið um sýruna í skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu. Eitrað samband landamæra, bæjarstjórna og Vegagerðar sem leggur ,,stofnbrautirnar".

Frá Háusölum í Kópavogi í Hæðarsel í Breiðholti eru 5.6 km. Göngufjarlægð eru 50 metrar en lengst af hefur enginn göngustígur tengt hverfin. Eitt skýrasta dæmið um sýruna í skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu. Eitrað samband tilviljanakenndra landamæra og bæjarstjórna í smákóngaleik.

Hér er dæmi um tvö samfélög, í þessu tilfelli Seljahverfi og Salahverfi. Ef mannfræðingur skoðaði skipulagið myndi hann halda að þetta væri stríðshrjáð svæði, aðskilið með einskismannslandi eins og Belfast, Palestína eða Berlín. En svo er ekki, þarna er ósýnilegur fjallgarður, hærri en Everest sem aðeins stjórnmálamenn sjá: sveitarfélags og kjördæmamörk. Þess vegna er 5.6 kílómetra akstur á milli hverfa – sem eru landfræðilega í 50 metra fjarlægð frá hvort öðru. Þarna búa afar og ömmur í 5km fjarlægð frá barnabörnum sínum og gjalda þess á hverjum degi að Gunnar Birgisson gat ekki talað við Ingibjörgu Sólrúnu. Skipulagið virðist miðast að því að lama samskipti og samgang milli hverfanna. Þetta er smákóngaskipulag sem þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að halda fólki innan girðingar, innan ,,lénsins“ – kannski í von um að fólk fari Smáralind fremur en Mjóddina. 

Skipulag af þessu tagi rýrir heilsu okkar, skapar stress og óhagkvæmni í daglegu lífi, eyðir tíma okkar og umhverfisgæði, minnkar fjölbreytni hvað varðar val á leikskólum, grunnskólum og tómstundum. Svona skipulag íþyngir jafnvel fólki sem býr í svokölluðum ,,heimilum“. Þetta er frábært dæmi um hvernig skattfé okkar er sóað í allt of flókna og dýra innviði. Dýr holræsi, dýra vegi, dýrar opinberar byggingar og óhentugar og óhagkvæmar almenningssamgöngur. 

Vegagerðin spilar hér mikilvægt hlutverk, hún skapar óeðlilega hvata fyrir lélegt skipulag á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hafa veghönnuðir sagt mér sjálfir. Ríkið borgar fyrir stofnvegi sem eru gamaldags og dýr mannvirki sem ýmist skera sundur hverfi eða tengja frá hvort öðru. Sveitarfélögin skynja sig sem eylönd, nærliggjandi sveitarfélög eru jafnvel ekki merkt inn á kort hjá þeim sem hanga uppi á vegg. Hönnuður Salahverfis virðist hafa litið á íbúa Seljahverfis sem hvert annað Huldufólk. Skipulag eins og sést á myndinni hér fyrir ofan ætti aldrei að samrýmast ,,stöðlum“ neinnar stofnunar.

Aftur í Gálgahraun: 

Í úrskurði Innanríkisráðherra um Álftansesveg voru tilmæli til Bæjarstjórnar Garðabæjar og Vegagerðar um að hafa samráð við Hraunavini og finna viðundandi lausn á deilum um Gálgahraun. Þessir aðilar hafa nú samið plagg án samráðs þar sem þeir dæma í eigin sök. Þeir komast að því að framkvæmdin sé ekki aðeins skynsamleg, heldur óhjákvæmileg. Engir aðrir kostir eru í boði. Þrátt fyrir hálftóm hverfi um alla borg er vegurinn nauðsynlegur út frá þessum forsendum:

,,Í matsskýrslunum er gert ráð fyrir að fjöldi íbúa á Garðaholti verði 5 – 7.000 og umferð árið 2024 verði 18 – 22.000 bílar á sólarhring árið 2024.“

Garðaholtið er svæðið sunnanmegin a Álftanesi allt til Hafnarfjarðar. Þessa fullyrðingu setja menn fram blygðunarlaust þrátt fyrir að veruleikinn sé sá að fyrst þarf að fylla tómu hverfin á höfuðborgarsvæðinu. Það má síðan gagnrýna þetta markmið almennt. Þeir sem sitja fastir í morgunumferð við Kópavogslæk eða í Fossvogsdal eru eflaust ekki á því að 15.000 bílar til viðbótar ,,auki lífsgæði þeirra“. Vegagerðin gerir óhikað ráð fyrir aukningu umferðar í höfuðborginni um alla framtíð – hún er sett fram í matskýrslum sem ,,jákvæð byggðaþróun“.

En gagnrýnin var ekki til einskis fyrir ,,heimilin í landinu“. Vegna þess að Vegagerðin hefur komist að því að einhver hluti gagnrýninnar var rættmætur. Hún snýr að þessari gulu flækju hér fyrir neðan:

Eins og hér má sjá hefur vegagerðin hannað umfangsmikil mislæg gatnamót og slaufur - sem taka meira landrými en gatnamótin þar sem tugþúsundir bíla fara um daglega.

Eins og hér má sjá hefur vegagerðin hannað umfangsmikil mislæg gatnamót og slaufur – sem taka meira landrými en gatnamótin þar sem tugþúsundir bíla fara um daglega.

Bæjarstjórinn og Vegagerðin komast nefnilega að þessari niðurstöðu:

,,Þó hafa verið gerðar athugasemdir við mislæg gatnamót og að vegslaufur eyðileggi hraunbrúnina að austanverðu, auk þess sem það sé dýr framkvæmd. Garðabær og Vegagerðin munu í tilefni af því kanna og stefna að því að þar komi hringtorg og undirgöng fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur í stað mislægra gatnamóta, enda hafi það ekki áhrif á framkvæmdina að öðru leyti.“

Þessar fáu línur eru sigur fyrir heimilin í landinu. Þarna sparast strax meira en 100 milljónir króna af þeim rúma miljjarði sem vegurinn kostar. Hvert einasta heimili á landinu sparar sér þar heilar þúsund krónur. Til að setja upphæðina í samhengi þá gætum við gefið öllum þeim 4000 börnum sem útskrifast úr grunnskólum landsins bækurnar Íslenskir Jöklar eftir Helga Björnsson og Fugla í Náttúru Íslands eftir Guðmund Pál Ólafsson (miðað við magnafslátt):

Fuglar og jöklar

Þetta sannar nauðsyn þess að opinberum aðilum sé sýnt aðhald.

Uppbyggingu í Garðaholti verður síðan að setja í víðara samhengi. Hvernig verður hverfið skipulagt? Verður það alveg ótengt Hafnarfirði – á sama hátt og hinir stríðshrjáðu íbúar Selja og Salahverfis búa í sitthvorri heimsálfunni? Er vegurinn hannaður til að beina fólki frá miðbæ Hafnarfjarðar? Er ekki líklegt að sameinaður Hafnarfjörður og Garðabær myndu skipuleggja Garðaholtið á annan hátt en Garðabær myndi gera einn og sér? Er Vegagerðin eða ríkið – eða við – enn einu sinni að styrkja vanhugsað skipulag?

Túrbínutrixið í Gálgahrauni

En nú kemur túrbínutrixið. Óviss og enn óskipulögð uppbygging á Garðaholti er forsenda vegarins gegnum Gálgahraun. Það vill hins vegar svo einkennilega til að fyrirhugaður vegur hefur enga eðlilega tengingu við Garðaholtið. Til þess að tengja Garðaholtið við veginn – þarf enn og aftur að fara gegnum hraunið. Álftanesvegurinn á þessum myndum frá Vegagerðinni sýnir aðeins FYRRI áfanga vegarins.

Eins og sjá má eru hér fyrirhuguð önnur mislæg gatnamót - sem mætti auðveldlega leysa fyrir brot af kostnaðarverði með hringtorgi.

Sé vegurinn skoðaður á korti er augljóst að menn þurfa að viðhalda gamla Álftanesveginum áfram með tilheyrandi kostnaði. Síðan þarf að leggja annan veg þvert gegnum hraunið.

Til að tengja byggð á Garðaholti við veginn þarf að leggja aðra þvergötu, samanber myndina hér fyrir neðan. Hér er hrauninu skipt í fjóra búta. Þessi bútaskipting er til samræmis við aðalskipulag Garðabæjar og ,,friðun“ Gálgahrauns. Ég birti þessa mynd á vefsíðu minni á sínum tíma til þess að fólk skildi hvað væri í húfi.

603796_4558414243232_765750293_n

Upplýsingafulltrúi vegagerðarinnar benti mér hins vegar á að þessi mynd væri ekki rétt. Vegurinn sem er verið að byggja væri þessi hér:

384182_10151163765302512_2134408800_n

En nú segir Vegagerðin og Garðabær að FORSENDA vegarins séu þúsundir bíla sem þurfa að komast inn á veginn frá Garðaholti. Vegur þaðan myndi þvera hraunið enn einu sinni og hann kostar einhver hundruð milljóna til viðbótar.

Við lestur greinar Vegamálastjóra verð ég því að segja að mér finnst eins og ég hafi verið afvegaleiddur af Vegagerðinni. Forsenda vegarins er umferð sem kemst ekki inn á veginn nema gegnum veg sem ekki til umræðu núna. En sá vegur er kannski ekki á forræði Vegagerðar enda tengir hann ekki saman ,,sveitarfélög“ heldur Garðabæ við Garðabæ – og telst því væntanlega innanbæjarvegur. Hér sjáum við enn eitt dæmið um skipulagssýruna á höfuðborgarsvæðinu. Þar sem vel menntað fólk sóar hæfileikum sínum og tíma og almenningur sturtar peningum út um gluggann, í þessu tilfelli með þeim afleiðingum að fallegu hrauni er spillt í leiðinni.

Gálgahraun og veglagning í því samkvæmt deiliskipulagi Garðabær.

Gálgahraun og veglagning í því samkvæmt deiliskipulagi Garðabæjar. Vegagerðin hefur afvegaleitt fólk með því að sýna ekki þvertengingar sem eru forsenda vegarins samkvæmt úrskurði Vegamálastjóra og Bæjarstjórans í Garðabæ. Heildarkostnaður er mun meiri auk skemmda á hrauninu. Það má því segja að sú mynd sem er kynnt almenningi – sé annaðhvort óvart röng – eða meðvituð blekking.

Ég tel að menn þurfi að fara að ræða vandlega um siðferði opinberra aðila og hvort Ísland eigi yfirleitt að fúnkera sem samfélag. Það verður að ræða um túrbínutrixin og það sem ég verð því miður að kalla – kerfisbundinn óheiðarleika þegar miikilsverðum upplýsingum er haldið frá umræðunni. Menn fjalla ekki um heildarmynd eða heildarkostnað, hvað þá heildarsamhengi hlutanna og skammta fólki veruleikann með teskeið. En heildarmyndin er hér fyrir ofan, svona er deiliskipulagið.  Rætt hefur verið um að falla frá hluta krosstengingarinnar – en án þvertengingar við Garðaholt bresta forsendur vegarins. Kortin sem Vegagerðin notar eru því beinlínis blekkjandi og röng, því þau sýna ekki grunnforsendur vegarins. En ekki nóg með það – gamla veginn þarf að viðhalda um ókomna framtíð vegna þess að vegurinn úti í hrauni er gagnslaus nema til gegnumaksturs.

Þannig að staðan er þessi:

1. Gagnrýni Hraunavina hefur þegar sparað þig lesandi góður 100 milljónir með því að hringtorg verður byggt í stað mislægra gatnamóta.

2. Með því að halda ekki uppi tveimur Álftanesvegum sparast enn meira fé.

3.  Með því að nýta gamla veginn og nýta reynslu af Sóleyjargötu, Langholtsvegi, Skeiðarvogi og nýjustu hugmyndum í borgarfræðum (Sigmundur!) getur heildarsparnaður numið um það bil 800 milljónum króna.

4. Með því að hlífa hrauninu varðveitum við mikil náttúruverðmæti, möguleika fólks til útiveru og þroska og þunglyndi sem fólk mun upplifa ef enn ein náttúruperlan er eyðilögð að óþörfu.

5. Ef við sameinum sveitarfélög getum við smám saman læknað borgina af þeim skaða sem berlínarmúrar smákónga hafa valdið. Garðaholt ætti alls ekki að vera skipulagt nema í samhengi og sameingu við Hafnarfjörð.

Greinin er ekki hugsuð sem stríðyfirlýsing við Vegagerðina eða Garðabæ. Gagnrýni er ókeypis ráðgjöf, hún hefur þegar sparað hundrað milljónir en það eru 900 milljónir í pottinum. Þeir sem hanna innviði okkar eiga að vera stoltir af sínum verkum og sinni borg og þeir eiga aldrei að taka þátt í vitleysu eins og efsta myndin ber með sér – og vegurinn gegnum Gálgahraun. Ég hef fyrir satt að margir sem koma nálægt þessu verki skilja alls ekki rökin bak við það.

Sigmundur Davíð og Hanna Birna velkomin til starfa – boltinn er hjá ykkur.

 

Um Álftanesveg, Skeiðarvog og umræðu úti í hrauni

Skeiðarvogur

Ég bý í c.a 30 metra fjarlægð frá götu í Reykjavík sem heitir Skeiðarvogur. Þetta eru tvær aðskildar akreinar sem fara hver í sína áttina og um þennan veg fara c.a 12.000 bílar á sólarhring. Ég heyri ekki í bílum inn í hús og veit ekki af þeim úti í garði enda er umferðarhraði lítill og börn fara yfir þessa götu daglega á leið í skóla eða til vina sinna.

Nálægð við götur er nokkuð algeng þegar fólk býr í svokallaðri borg. Ég væri alveg til í að sjá minni umferð í borginni og minni gegnumakstur gegnum hverfið en þessi gata fer almennt ekki í taugarnar á fólki. Yfirleitt er umferðin létt og gatan stíflast nánast aldrei þótt hún hafi verið mjókkuð úr fjórum akreinum í tvær fyrir nokkrum árum og hraði lækkaður. 12.000 bílar hljómar mikið en það þarf enginn að vorkenna mér, þetta er fínt hverfi.

Helsta röksemdin fyrir færslu Álftanesvegar er lítil þyrping húsa sem er kallað Prýðahverfi. Á Vísi.is má finna viðtal við konu sem býr í þessu hverfi við Álftanesveg og lýsir yfir nauðsyn þess að Álftanesvegurinn verði færður út í Gálgahraunið:

Tilvitnun: Íbúi í Garðahrauni er afar ósáttur við frestun á lagningu nýs Álftanesvegar og segir gamla veginn bjóða hættunni heim. Börn í hverfinu geti ekki leikið sér úti, við óbreytt ástand.

Af hverju geta börn ekki leikið sér úti í þessu litla Prýðahverfi með um 4000 bíla á sólarhring á meðan börn leika sér um alla borg í nánd við mun stærri götur? Þarf að spilla hrauni og eyða milljarði til að leysa vandamálið? Hún minnist ekkert á að í bakgarðinum er mesta ævintýraland sem barn á höfuðborgarsvæðinu gæti haft aðgang að – alveg frá húsvegg til sjávar – en hún vill leggja veg í gegnum það. Af hverju byggja menn á stað sem þeir kunna ekki að meta?

Hér er loftmynd af húsunum í Prýðahverfi þar sem ofangreindur viðmælandi getur ekki hleypt börnum sínum út. Það má spyrja sig – er óhætt að hleypa börnum út yfirleitt?

Screen Shot 2013-04-23 at 9.08.28 PM

Nú skulum við hugsa. Af hverju getur Álftanesvegurinn ekki farið framhjá Prýðahverfi á sama hátt og vegir fara framhjá húsum um allan heim? Við Skeiðarvog, í Grimsby, Róm, Vesturbæ og Grafarvogi?

Væri flókið að lækka blindhæð, setja upp hringtorg við gatnamótin við Herjólfsbraut, Gálgahraunsveg og Hraunholtsbraut? Eru ekki þrjú hringtorg á Vesturlandsvegi á leiðinni í Mosó? Nokkur hringtorg á Reykjanesbraut í Hafnarfirði? Gætu hringtorg og hraðahindrun breytt Álftanesveginum í innanbæjarveg rétt á meðan hann fer framhjá þessum húsum, svona eins og að aka gegnum danskt sveitaþorp, breytt honum í götu eins og Rofabæ, Langholtsveg, Sundlaugarveg, Hamrahlíð, Reykjaveg, með 50km eða jafnvel 30km hraða og aðskildum akreinum eins og Skeiðarvog? Hér er mynd af honum:

Húsin sem voru byggð í hrauninu í Prýðahverfi nýta að engu leyti sérstætt umhverfi sitt. Þessi hálfbyggðu hús eru dæmi um versta verktakahönnun síðustu ára og táknrænt ef hrauninu verði spillt í nafni þessara húsa - sem standa þó við fáfarna götu sem má auðveldlega laga - með vandaðri hönnun.

Skeiðarvogur – 12.000 bílar á sólarhring í miðju skólahverfi. Húsin liggja nær götu en við Álftanesveg og umferð er þrefalt meiri.

Hér er ekki raunverulegt vandamál á ferðinni. Fólk þarf ekki að vera í STÓRHÆTTU á Álftanesveginum eins og menn þrástagast á. Með því að breyta ákveðnum hluta Álftanesvegar í einskonar Skeiðarvog gætu strætisvagnar þjónað hverfinu, sem verður illmögulegt með nýja veginum. Það má spyrja sig hvort það sé eðlileg hönnun á hverfi? Áhugasamir geta nýtt sér nýjustu tækni og súmmað út og inn á svæðið á já.is eða Google Earth:

Því miður er umræðan úti í hrauni. Ég hlustaði á viðtal við Gunnar Einarsson bæjarstjóra á Bylgjunni. Hann talar um að mótvægið við veginn um Gálgahraun sé að setja þennan tiltölulega fáfarna veg í STOKK fyrir 3 milljarða til að hann trufli ekki svefnfriðinn í 15 húsum í svefnhverfinu við Prýðahverfi. 200 milljónir á hvert hús? Viðtalið er hér:

http://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=18239

Og nú skulum við velta fyrir okkur. Er góð hugmynd að setja götu í stokk svo fólk í 15 húsum þurfi ekki að upplifa umferð sem er c.a 1/3 af Skeiðarvogi? Af hverju er þá ekki stokkur á Selfossi? Stokkur á Hverfisgötu? Af hverju erum við ekki með heilt neðanjarðarbílakerfi? Er verið að gera grín að fólki með því að draga upp svona rök? Getur verið að ,,athugun“ bæjarstjóra og Vegagerðarinnar muni leiða það í ljós að stokkurinn sé allt of dýr framkvæmd og því ekkert annað í stöðunni, vegna kostnaðar, að fara gegnum hraunið? Talað er um skaðabætur til handa íbúum – en eru það mannréttindi að búa fjarri umferð án tengingar við almenningssamgöngur – til þess eins að geta brunað framhjá annarra manna húsum á leið í vinnuna? Ég veit ekki hvað slík athugun heitir – en hún er tilbrigði við túrbínutrix orkufyrirtækja. 

Húsin sem voru byggð í hrauninu í Prýðahverfi nýta að engu leyti sérstætt umhverfi sitt. Þessi hálfbyggðu hús eru dæmi um versta verktakahönnun síðustu ára og táknrænt ef hrauninu verði spillt í nafni þessara húsa - sem standa þó við fáfarna götu sem má auðveldlega laga - með vandaðri hönnun.

Húsin fimmtán í hrauninu við Prýðahverfi nýta fæst einstakt umhverfið sem þau eru byggð í. Nokkur þeirra eru dæmi um vonda verktakahönnun í slæmu skipulagi. Það væri í raun táknrænt ef einstæðu hrauni yrði spillt í nafni þessara húsa. Með hekki og skjólgirðingu myndu hugsanlegir íbúar vart vita af Álftanesveginum.

Vegur hannaður eins og Skeiðarvogur getur farið framhjá Prýðahverfinu og þjónað Álftanesi og tekið við nýjum íbúum ef einhverntíma verður byggt á Garðaholti. Það er hins vegar álitamál hvort stofnbrautir Kópavogs og Reykjavíkur þoli aukna umferð. Það er forgangsmál að fullbyggja hálfbyggð hverfi með skuldsettum lögnum og fráveitum áður en menn eyða milljarði í væntingabíla.

Helsta röksemdin fyrir færslu Álftanesvegar er nálægð við Prýðahverfi. 4000 bílar fara þar fjær húsum en 12.000 bílar sem fara Skeiðarvog daglega.

Helsta röksemdin fyrir færslu Álftanesvegar er nálægð við Prýðahverfi. 4000 bílar fara þar fjær húsum en 12.000 bílar aka um Skeiðarvog daglega. Vegaverkfræðingur sem getur ekki leyst málið innan þessa vegstæðis, er annaðhvort að blekkja, eða er ekki starfi sínu vaxinn.

Lausnin í þessu máli er jarðbundin og leiðinleg. Þrjú hringtorg og venjuleg borgargata myndi laga vandann sem fylgir hættulegum innkeyrslum. Kannski getur verið gaman að spreyta sig á slaufu þótt engin þörf sé á henni. En sorrý, Vegagerðin á að þjóna okkur, ekki öfugt.

Nú reynir á fjölmiðla, bæjarstjórn og almenning að vinda ofan af þessari vitleysu. Ef nýr vegur verður lagður að óþörfu gegnum hraunið þá er það til vitnis um veika fjölmiðla, ábyrgðarleysi sveitarstjórna, óheilbrigð samskipti við verktaka og stofnanir sem láta þjóðarhag og náttúru sig engu máli skipta. Og í guðanna bænum blaðamenn – ef stokkurinn kemur upp í umræðunni – vinsamlegast slátrið. Ef fólk vill láta vorkenna sér, vinsamlegast vorkennið öllum borgarbúum heimsins. Ef fólk fer fram á skaðabætur – spyrjið hvort allir höfuðborgarbúar í 30 metra fjarlægð frá vegi eigi ekki að fá sambærilegar bætur? Enn og aftur – ég hvet bæjarstjórann í Garðabæ til að spilla ekki þeirri einstæðu náttúruperlu sem finna má í Garða/Gálgahrauni og finna nútímalega lausn á þessu máli. 

Lausnin er afar einföld

Lausnin er afar einföld og ódýr. Allir græða – nema kannski verktakinn.