Í tilefni af Hönnunarmars er við hæfi að birta hér svipmyndir úr verkefni sem ég tók þátt í á dögunum en það er tillaga að nýbyggingu á einum mikilvægasta reit borgarinnar. Þessi reitur er gengt Árnarhóli og við hliðina á Hörpu. Höfundar tillögunnar eru BIG Bjarke Ingels Group í Danmörku ásamt Arkíteó, DLD og mér sjálfum. BIG hefur verið að gera magnaða hluti á síðustu árum, áhugaverðar íbúðarbyggingar í Danmörku, höfuðstöðvar LEGO og Google, Dryline varnargarð um Manhattan svo fátt eitt sé nefnt. Því miður bar tillagan ekki sigur úr býtum en ég hafði heilmikla trú á að byggingin myndi bæta nýrri vídd við okkar ágætu höfuðborg. Það eru forréttindi að fá að vinna með svona hæfileikaríkum hópi en tillaga okkar heitir Öndvegi.
ÖNDVEGI
,,Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi.“ – Landnámabók
Reiturinn þar sem höfuðstöðvar Landsbankans munu rísa er ekki hvaða lóð sem er. Hér er um að ræða fjöruborðið þar sem sögur segja að súlur Ingólfs hafi rekið að landi og héðan hafi Ísland byggst. Sú sögulega staðreynd gerir kröfur til byggingarinnar, jafnvel að hægt sé að benda á hana og segja: ,,Frá þessum stað hófst byggð á Íslandi.“ Þá er eins gott að húsið sé sérstakt og fallegt. Það má segja að húsið standi í Öndvegi.
Öndvegi nafnorð hvorugkyn:
– tignarsæti, mesta virðingarsæti
– skipa öndvegi
– vera í mikilvægasta hlutverki
Húsið stendur næst Hörpu sem einnig setur kröfur um gæði í hönnun og áhugaverða hugmyndafræði án þess að keppa við Hörpu eða skyggja á hana. Húsið á síðan að þjóna tilgangi sem lifandi bygging utan um bankastarfsemi í sífelldri þróun og á jarðhæð verða kaffihús, veitingarekstur og verslanir. Önnur krafa er að miðborg Reykjavíkur þarf að hafa aðdráttarafl fyrir heimamenn jafnt sem erlenda ferðamenn, þeir eru orðnir aflvél hagkerfisins og um leið undirstaða bankans að einhverju leyti. Því er tækifæri til að búa til byggingu sem er áhugaverð í sjálfri sér og í rauninni mikilvægt að þarna rísi ekki hvert annað Borgartún.
Við þurfum líka að lesa í andrúmsloftið í samfélaginu, það er viðkvæmt að byggja nærri Hörpu, og sumir telja þrengt að henni með hraðri uppbyggingu í miðbæ Reykjavíkur, að of mikið af gráum og svörtum kössum hafi risið undanfarið, of mikill kuldi.
Það er einnig ástæða til að vanda vel til verka þegar byggt er á þessum reit. Við teljum okkur geta samræmt byggingu sem er hagkvæm en um leið óvenjuleg og áhugaverð, byggingu sem þjónar samfélaginu og færir því aukin gæði, samhliða því að vera eftirsótt bygging fyrir starfsfólk. Við teljum að húsið verði eftirsóttur vinnustaður. Öndvegi verður eitt af eftirsóttari húsum borgarinnar þegar finna á stað fyrir alþjóðlega stofnun, framsækið stórfyrirtæki eða mikilvæga menningarstofnun á næstu árum og áratugum.
Við drögum húsið niður næst Hörpu og í hógværðinni og mýktinni felst reisn hússins. Það dregur sig frá Hörpu en það er samt ekki eftirbátur hennar hönnunarlega séð. Rétt eins og Öndvegi snýst um að lyfta því sem er talið mikilvægast, þá gerir húsið einmitt það. Húsið útilokar ekki almenning, það eykur gæði borgarinnar, lyftir fólkinu og setur það í hásætið uppi á þaki.
Öndvegi: einskonar upphækkun eða hásæti sem snýr að komumanni.
Tillaga okkar gengur út á að spegla Arnarhól, að bankinn leggi í rauninni ekki undir sig opið rými og nýti sér í eigin þágu heldur gefi húsið borgarbúum nýtt og óvænt grænt svæði sem dregur að sér fólk og virkni borgaranna. Með því að sveigja húsið og hleypa vegfarendum upp hæðirnar eftir tröðum sem hlykkjast um þakið sem verður fífilbrekka, grasi vaxin, búum við til einskonar Highline fyrir Reykavík. Við búum til nauðsynlegt aðdráttarafl til þess að fólk vilji koma á þetta svæði svo að miðborgin verði sú aflvél sem hún á að vera og Reykjavík festi sig í sessi sem áhugaverð ferðamannaborg. Með því að spegla Arnarhól búum við til einskonar dalverpi fyrir Kalkofnsveg, fífilbrekka sem liggur upp á fimmtu hæð með útsýniskífu gerir fólki kleift að njóta Hörpu en sömuleiðis hönnum við byggingu sem nýtur sín vel frá Hörpu séð.
Byggingin tekur mið af landslaginu, eins og eyjarnar á Faxaflóa með klettabeltum umkringd grænu grasi, þannig skapar byggingin græna línu frá Arnarhóli með snertingu við Þúfu hinum megin hafnarinnar. Þannig mýkjum við ásýnd miðbogarinnar, endurvekjum græna litinn og búum til áhugaverðar gönguleiðir upp á þak en líka áfram út í höfnina. Einnig tryggjum við líf á svæðinu fyrir fólk á rómantískri kvöldgöngu en viðskiptahverfi eiga það til að missa aðdráttaraflið eftir klukkan fjögur á daginn. Það er mikilvægt fyrir kaffihúsin og verslunarrýmin að húsið sé lifandi fram á kvöld.
Verslunargatan er bein og hefðbundin verslunargata, inngangur bankans er þar sem við teljum að meginstraumur verslunar og þjónustu muni liggja en fyrst og fremst viljum við skapa hús sem vefur sig inn í daglegt líf borgarbúa, verði í áfangastaður sem styður við nærliggjandi byggingar og umhverfi, að húsið verði í senn kennileiti, jafnvel innblástur fyrir þá sem ætla að byggja og skapa borgina á næstu árum og áratugum.
öndvegi hk
setja <málið; > í öndvegi
setjast í öndvegi
sitja í öndvegi
skipa öndvegi
vera í öndvegi
<bókmenntir> skipa öndvegi <í menningu þjóðarinnar>
<þessi listgrein> skipar öndvegi