Að byggja mikilvægasta reit borgarinnar

Í tilefni af Hönnunarmars er við hæfi að birta hér svipmyndir úr verkefni sem ég tók þátt í á dögunum en það er tillaga að nýbyggingu á einum mikilvægasta reit borgarinnar. Þessi reitur er gengt Árnarhóli og við hliðina á Hörpu. Höfundar tillögunnar eru BIG Bjarke Ingels Group í Danmörku ásamt Arkíteó, DLD og mér sjálfum. BIG hefur verið að gera magnaða hluti á síðustu árum, áhugaverðar íbúðarbyggingar í Danmörku, höfuðstöðvar LEGO og Google, Dryline varnargarð um Manhattan svo fátt eitt sé nefnt. Því miður bar tillagan ekki sigur úr býtum en ég hafði heilmikla trú á að byggingin myndi bæta nýrri vídd við okkar ágætu höfuðborg. Það eru forréttindi að fá að vinna með svona hæfileikaríkum hópi en tillaga okkar heitir Öndvegi.

ÖNDVEGI

,,Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi.“ – Landnámabók

Reiturinn þar sem höfuðstöðvar Landsbankans munu rísa er ekki hvaða lóð sem er. Hér er um að ræða fjöruborðið þar sem sögur segja að súlur Ingólfs hafi rekið að landi og héðan hafi Ísland byggst. Sú sögulega staðreynd gerir kröfur til byggingarinnar, jafnvel að hægt sé að benda á hana og segja: ,,Frá þessum stað hófst byggð á Íslandi.“ Þá er eins gott að húsið sé sérstakt og fallegt. Það má segja að húsið standi í Öndvegi.

Öndvegi nafnorð hvorugkyn:
– tignarsæti, mesta virðingarsæti
– skipa öndvegi
– vera í mikilvægasta hlutverki

Húsið stendur næst Hörpu sem einnig setur kröfur um gæði í hönnun og áhugaverða hugmyndafræði án þess að keppa við Hörpu eða skyggja á hana. Húsið á síðan að þjóna tilgangi sem lifandi bygging utan um bankastarfsemi í sífelldri þróun og á jarðhæð verða kaffihús, veitingarekstur og verslanir. Önnur krafa er að miðborg Reykjavíkur þarf að hafa aðdráttarafl fyrir heimamenn jafnt sem erlenda ferðamenn, þeir eru orðnir aflvél hagkerfisins og um leið undirstaða bankans að einhverju leyti. Því er tækifæri til að búa til byggingu sem er áhugaverð í sjálfri sér og í rauninni mikilvægt að þarna rísi ekki hvert annað Borgartún.

Við þurfum líka að lesa í andrúmsloftið í samfélaginu, það er viðkvæmt að byggja nærri Hörpu, og sumir telja þrengt að henni með hraðri uppbyggingu í miðbæ Reykjavíkur, að of mikið af gráum og svörtum kössum hafi risið undanfarið, of mikill kuldi.
Það er einnig ástæða til að vanda vel til verka þegar byggt er á þessum reit. Við teljum okkur geta samræmt byggingu sem er hagkvæm en um leið óvenjuleg og áhugaverð, byggingu sem þjónar samfélaginu og færir því aukin gæði, samhliða því að vera eftirsótt bygging fyrir starfsfólk. Við teljum að húsið verði eftirsóttur vinnustaður. Öndvegi verður eitt af eftirsóttari húsum borgarinnar þegar finna á stað fyrir alþjóðlega stofnun, framsækið stórfyrirtæki eða mikilvæga menningarstofnun á næstu árum og áratugum.

Við drögum húsið niður næst Hörpu og í hógværðinni og mýktinni felst reisn hússins. Það dregur sig frá Hörpu en það er samt ekki eftirbátur hennar hönnunarlega séð. Rétt eins og Öndvegi snýst um að lyfta því sem er talið mikilvægast, þá gerir húsið einmitt það. Húsið útilokar ekki almenning, það eykur gæði borgarinnar, lyftir fólkinu og setur það í hásætið uppi á þaki.

Öndvegi: einskonar upphækkun eða hásæti sem snýr að komumanni.

 

Tillaga okkar gengur út á að spegla Arnarhól, að bankinn leggi í rauninni ekki undir sig opið rými og nýti sér í eigin þágu heldur gefi húsið borgarbúum nýtt og óvænt grænt svæði sem dregur að sér fólk og virkni borgaranna. Með því að sveigja húsið og hleypa vegfarendum upp hæðirnar eftir tröðum sem hlykkjast um þakið sem verður fífilbrekka, grasi vaxin, búum við til einskonar Highline fyrir Reykavík. Við búum til nauðsynlegt aðdráttarafl til þess að fólk vilji koma á þetta svæði svo að miðborgin verði sú aflvél sem hún á að vera og Reykjavík festi sig í sessi sem áhugaverð ferðamannaborg. Með því að spegla Arnarhól búum við til einskonar dalverpi fyrir Kalkofnsveg, fífilbrekka sem liggur upp á fimmtu hæð með útsýniskífu gerir fólki kleift að njóta Hörpu en sömuleiðis hönnum við byggingu sem nýtur sín vel frá Hörpu séð.

Byggingin tekur mið af landslaginu, eins og eyjarnar á Faxaflóa með klettabeltum umkringd grænu grasi, þannig skapar byggingin græna línu frá Arnarhóli með snertingu við Þúfu hinum megin hafnarinnar. Þannig mýkjum við ásýnd miðbogarinnar, endurvekjum græna litinn og búum til áhugaverðar gönguleiðir upp á þak en líka áfram út í höfnina. Einnig tryggjum við líf á svæðinu fyrir fólk á rómantískri kvöldgöngu en viðskiptahverfi eiga það til að missa aðdráttaraflið eftir klukkan fjögur á daginn. Það er mikilvægt fyrir kaffihúsin og verslunarrýmin að húsið sé lifandi fram á kvöld.

Verslunargatan er bein og hefðbundin verslunargata, inngangur bankans er þar sem við teljum að meginstraumur verslunar og þjónustu muni liggja en fyrst og fremst viljum við skapa hús sem vefur sig inn í daglegt líf borgarbúa, verði í áfangastaður sem styður við nærliggjandi byggingar og umhverfi, að húsið verði í senn kennileiti, jafnvel innblástur fyrir þá sem ætla að byggja og skapa borgina á næstu árum og áratugum.

öndvegi hk
setja <málið; > í öndvegi
setjast í öndvegi
sitja í öndvegi
skipa öndvegi
vera í öndvegi
<bókmenntir> skipa öndvegi <í menningu þjóðarinnar>
<þessi listgrein> skipar öndvegi

  

,,Að skreyta sig með nátthúfum lángafanna“

Screen-Shot-2015-12-27-at-17.37.01-768x498

Hér er jólakort frá forsætisráðuneytinu, búið er að skeyta inn á Vonarstrætið hús sem var víst skólaverkefni Guðjóns Samúelssonar en er nú orðið sérstakt gæluverkefni forsætisráðherra Íslands. Það er skemmtileg tilviljun að í hægra horni þessarar myndar skuli glitta í Ráðhús Reykjavíkur. Árið 1986 var nefnilega haldin opin samkeppni á vegum Reykjavíkurborgar um nýtt ráðhús við Tjörnina en alls bárust 38 hugmyndir í keppnina. Höfundar sigurtillögunnar voru kornungir arkítektar, þau Steve Christer og Margrétar Harðardóttir en þau voru ekki nema 27 ára gömul þegar þau fengu þetta vandasama verk upp í hendurnar. Með hliðsjón af tillögu forsætisráðherra er vert að rifja upp hvað Margrét Harðardóttir sagði í ræðu sinni við vígslu Ráðhússins 1992:

„Sumir virtust eiga þá ósk heitasta, að byggingarlistin tæki stefnuna rakleitt aftur til fortíðar. Þetta er algengt fyrirbæri og e.t.v. afleiðing þess, að menn átta sig ekki á því, að ástæða þess, að margar af eldri byggingum okkar eru svo fallegar, er einmitt sú, að þá vönduðu menn sig sem bezt þeir gátu. Nú leyfir peningavélin ekki, að menn geri sitt bezta. Þetta hefur leitt af sér hræðslu gagnvart öllu því, sem nýtt er. Halldór Laxness kallaði þetta „að skreyta sig með nátthúfum lángafanna“ og taldi það vitna um hnignun þjóðernis, þegar menn leituðu einkenna sinna mörg hundruð ár aftur í tímann. Það er jafn hættulegt að gerast þræll fortíðarinnar og að glata virðingu sinni og þekkingu á því, sem á undan er gengið. Ég tel mig geta fullyrt fyrir hönd allra, sem nálægt byggingu Ráðhúss Reykjavíkur hafa komið, að þeir eru þakklátir fyrir að hafa fengið, e.t.v. í eina skiptið á ævinni, að sýna fagmennsku í allri sinni fegurð.“

Ég held að það væri draumur margra 27 ára arkítekta í dag að fá að spreyta sig á stórhýsi fyrir Alþingi á þessum vandasama reit. Í opinni keppni væri heldur ekki ólíklegt að Margrét og Steve sendu inn tillögu en frá því þau teiknuðu Ráðhúsið árið 1986 hafa þau hannað mörg merkilegustu hús okkar samtíma, oftar en ekki á afar viðkvæmum og grónum reitum, eins og hús Hæstaréttar eða stúdíóið við Hverfisgötu sem er tilnefnt til Mies Van Der Rohe verðlaunanna.

R__h_s1-minni

Dómnefnd samkeppninnar um Ráðhúsið skipuðu Davíð Oddsson, Sigrún Magnúsdóttir, borgarfulltrúi, Þorvaldur S. Þorvaldsson, forstöðumaður Borgarskipulags, af hálfu borgarinnar og arkitektarnir Guðni Pálsson og Þorsteinn Gunnarsson af hálfu Arkitektafélags íslands. Þórður Þ. Þorbjamarson, borgarverkfræðingur var tæknilegur ráðgjafi nefndarinnar. Sigrún Magnúsdóttir er núverandi umhverfisráðherra, hún mætti gjarnan lesa opnunarræðu Margrétar Harðardóttur á Ríkisstjórnarfundi. Í öllum frásögnum er Davíð sjálfum eignuð hugmyndin að staðsetningu hússins. Þótt hann hafi þótt ráðríkur og jafnframt með listræna taug, þá held ég að honum hefði aldrei dottið í hug að ákveða sjálfur hvernig húsið skyldi líta út.

Að forsætisráðherra sjálfur ákveði sjálfur útlit og hönnun opinberrar byggingar er fáheyrt og fordæmalaust í vestrænu lýðræðisríki. Að hugmyndin sé þó komin svo langt sýnir algeran dómgreindarskort í hans nærumhverfi og afhjúpar alvarlega veikleika í stjórnsýslu Íslands. Að þetta skuli gerast með hús á vegum Alþingis er hreint hnignunarmerki. Tillagan ber vott um vaxandi stjórnlyndi þar sem lýðræðislegir ferlar og grundvallaratriði í verkaskiptingu eru brotin þegar þeir sérfræðingar sem við höfum treyst til að reka þetta land eru í vaxandi mæli sniðgengnir. Við höfum áður séð skýr brot á nútíma leikreglum í úthlutun á styrkjum sem fóru fram með SMS til flokksfélaga og nýlega beina íhlutun í dagskrárgerð Ríkisútvarpsins.

Húsin sem voru byggð í hrauninu í Prýðahverfi nýta að engu leyti sérstætt umhverfi sitt. Þessi hálfbyggðu hús eru dæmi um versta verktakahönnun síðustu ára og táknrænt ef hrauninu verði spillt í nafni þessara húsa - sem standa þó við fáfarna götu sem má auðveldlega laga - með vandaðri hönnun.

Verktakalist – glötuð tækifæri í Prýðahverfi í Garðabæ.

Vilji menn efla umræðu um arkítektúr, breyta byggingareglugerðum og auka kröfur um fagurfræði nýbygginga er það allt annað mál. Ef menn vilja setja reglur um efnisval, skala, gluggasetningu eða annað í miðborg Reykjavíkur má prófa að ræða það, en að sniðganga heila kynslóð listamanna og taka frá okkar kynslóð einstakt tækifæri til að skapa Guðjón Samúelssyni og dætur samtímans er algerlega forkastanlegt. Tillaga Sigmundar eða óánægja með samtímann er að sumu leyti skiljanleg í ljósi ljótra húsa og jafnvel hverfa sem hafa risið undanfarin ár. En ljótleiki í samtímanum er yfirleitt ekki vegna arkítektúrsins heldur vegna skorts á honum, ljótleikinn stafar af græðgi og metnaðarleysi sem hefur því miður ríkt í verktakabransanum en þar hafa glatast ótal tækifæri á síðustu árum. Írónían er einmitt sú að í hópi þessara sömu verktaka má finna helstu bakhjarla þeirra sem nú ráða á Alþingi. Lausnin er ekki afturhvarf til fortíðar, lausnin felst í því að sýna metnað og leyfa okkar besta fólki að gera sitt besta. Nærtækt að vitna í Margréti og Steve í grein frá 1985:

,,Arkitektúr á sinn naflastreng tengdan öllum greinum lista. Vöxtur hans og þroski er kominn undir þeirri næringu er þaðan streymir, hvort sem það er ný kvikmyndafantasía eða nýstárleg tónsmið. Uppsprettan er alltaf hin sama, mannlífið sjálft. Arkitektúr framtíðarinnar knýr óhræddur á dyr óvissunnar. Hann hefur dregið sinn lærdóm af fumi og fáti nútímans, sem átt hefur þaö til að taka hræðslustökk aftur á við í imyndað öryggi og rómantík fortiðarinnar. Framtiðin býr yfir töfrum og krafti, sem ekki er að finna í þvi, sem dagað hefur uppi.“

 

 

Ekki draumastarfið? Er unga fólkið vanþakklátt?

Hér er áhugaverð rannsókn á Eyjunni um að ungt fólk úti á landi láti sig ekki dreyma um starf í stóriðjunni og allt virðist benda til þess að uppbygging á landsbyggðinni sé á skjön við drauma ungs fólks. Þegar umræðan um stóriðju hófst á Austurlandi kringum 1999 þá kostaði 100.000 krónur á mánuði (ef ég man rétt) að fá ADSL tengingu á Seyðisfirði (100 kall á kílómeter frá Múlastöð) – en tenging var forsenda þess að menn gætu unnið verkefni í tölvu á Austurlandi.  Þeir sem alast upp á Íslandi í dag njóta þeirra forréttinda (ólíkt flestum jarðarbúum í gjörvallri mannkynssögunni) að geta valið sér starfsvettvang í öllum heiminum, þá á ég við í ÖLLUM heiminum. Það er að segja: viltu vinna á rannsóknarstöð á Suðurskautinu, hjúkrunarstörf í Afríku, fiðluleikari í New York, arkítekt í Danmörku, smiður í Noregi, skúringar á Hornafirði, tryggingaráðgjöf í Garðabæ, þrívíddarhönnuður í London, sjómaður á Akureyri, flugmaður í Arabíu, barþjónn á Indlandi eða eitthvað af þeim 190.000 störfum sem nú eru til á Íslandi og þeim tugþúsundum starfa sem verða til á næstu 20 árum í greinum sem við kunnum ekki að nefna. Af hverju kemur einhverjum á óvart að draumurinn er ekki að vinna í óheilnæmu lofti í geimbúningi á virkasta jarðskjálftasvæði landsins sem áður var einhver fallegasta vík á landinu að kraka í 1000 gráðu heitum málmi fyrir eitthvað Þýskt fyrirtæki sem býr til eitthvað fyrir einhvern.

Screenshot 2015-07-09 01.41.44Screenshot 2015-07-09 01.44.34Screenshot 2015-07-09 01.47.11Screen Shot 2015-07-02 at 18.48.29

Af sjarma og öðrum grunnhugtökum skipulagsfræðinnar

AR-708079965

Myndin er af Vísi.is. Hér má sjá gott dæmi um sjarmagjafa sem sjarmasníkir hefur troðist upp að. Ekki er ljóst hvort sjarmaþarmur hafi verið þarna að verki.

,,Í umræðu um skipulagsmál í miðbænum þarf að huga að grunnhugtökum. Sjarmi er eiginleiki byggðar þar sem jafnvægi ríkir og fólki líður vel og sjarmagjafi er hús sem gefur frá sér sjarma. Sjarmaþegi er hús sem er hlutlaust en þiggur sjarma frá nærliggjandi húsi. Víða má hins vegar finna ný hús og hótel sem soga í sig sjarma þar sem verðmæti húss/gistingar ræðst af nálægð við sterkan sjarmagjafa. Ef of margar sjarmasugur liggja að sjarmerandi húsi getur slokknað á sjarmagjafanum. Ekki er til nákvæm jafna en almennt má tala um að þjarmað sé verulega að sjarmanum þegar hlutfall sjarmerandi fermetra á móti fermetrum sjarmasugunnar nálgast 1/7. Sjarmasníkir er stundum notað um slík hús. Sjarmaþarmur er hins vegar verktaki eða braskari sem lætur sjarmerandi hús grotna niður með því að flæma burt sjarmagjafa. Segja má að sjarmaþarmar lifi sníkjulífi á sögu og sjarma borga þegar þeir hamstra sjarma og stinga honum upp í rassgatið á sér. Þetta hugtak hefur þó ekki enn fengið akademískt gildi.“

 

Upptaka frá HÍ – hvernig verður bók til?

Hér fyrir neðan er upptaka af innleggi Andra Snæs Magnasonar í fyrirlestraröðinni Hvernig verður bók til? sem hefur verið haldið úti af námsbraut í ritlist og Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands frá 2009. Fyrirlesturinn fór fram í stofu 101 í Lögbergi milli 12 og 13 fimmtudaginn 13. febrúar 2014.

Hvernig verður bók til?

Ég hélt mér einkum við Bláa hnöttinn en hafði ætlað mér að fara um víðan völl og inn í önnur verk, en Blái hnötturinn reyndist meira en nóg fyrir eina kennslustund, þó kom ég við bæði í LoveStar og Draumalandinu og Bónus ljóðum. Það var gott stuð í salnum og skemmtileg stund að mér sýndist. Hér er upptaka af þessum fyrirlestri.

Það er aldrei að vita nema ég hendi inn nokkrum frumgögnum til viðbótar svo fólk geti lesið og áttaði sig á því hvert ég var að fara. Þar með talinn áður óbirta endann á LoveStar, millikaflann í Bláa hnettinum, umsókina um listamannalaun frá 1998 sem lýsir hugmynd höfundar um verkið áður en það kom út og reyndar – áður en það var skrifað og kannski nokkur ljóð eftir Bergsvein Birgisson. Ég hafði ætlað mér að lesa þau í Háskólanum en gleymdi að lesa – eitt þeirra úr Innrás liljanna varð kveikjan að skógarbirni og heilum kafla í Bláa hnettinum.