Jarvis Cocker og amma – á BBC Radio 4

Jarvis Cocker forsprakki hljómsveitarinnar Pulp hefur haldið úti ansi skemmtilegum útvarpsþætti á BBC radio 4 sem heitir Wireless Nights og fjallar um nóttina í öllum hugsanlegum myndum. Þættirnir fjalla um næturlíf, næturvinnu, drauma, svefnleysi, tunglið, stjörnur – hvað sem er svo lengi sem það tengist nóttinni. Nú brá svo við að Jarvis kom til Íslands til að fjalla um nóttina á Íslandi og teymið hans hafði samband við mig, hvort ég gæti sagt þeim frá sumarnóttinni, borgarmyrkvanum, dimmu hlið Bláa hnattarins og gömlu íslensku kvöldvökunni. Ég var staddur á Melrakkasléttu og sagði að þeir gætu heimsótt mig þangað og sagði af mínu alkunna júkvæði að jú jú –  eflaust gæti ég riggað upp kvöldvöku. Það var hins vegar einn hængur á því máli –  nánast enginn í mínum ættlegg fyrir norðan kann að syngja og vindur snerist í norðanátt eftir einmuna blíðu og svo að helstu söngspírur ættarinnar frestuðu norðanför. Ég hringdi í Miðtún þar sem hinir söngelsku Lund bræður voru allir samankomnir með sínar stórfjölskyldur og þar með var málið leyst, BBC kom á svæðið og allt leit vel út en að morgni 31. júlí, daginn sem kvöldvakan átti að fara fram fengum við þær sorgarfréttir að amma hefði látist suður á Droplaugarstöðum. Amma var sólin sjálf, ættmóðirin og miðpunktur alls norður á Sléttu – en hvað skyldi gera við BBC og kvöldvökuna? Við ákváðum að halda henni til streitu og breyttum kvöldvökunni í minningarstund um ömmu í gamla bænum að Oddstöðum á Melrakkasléttu. Þannig atvikast það – að poppgoðið Jarvis Cocker – útvarpar broti af minningarstund um hana ömmu mína – á BBC Radio 4 í kvöld, mánudag, súrrealískt að sönnu – en einhvernveginn finnst mér núna eins og henni hefði fundist þetta bráðfyndið.

Screen Shot 2014-10-26 at 11.23.05 PM