Þá eru þau bæði farin, amma Dísa og afi Jón, fallegu hjónin sem gáfu okkur kríurnar, miðnætursólina og dúninn, rekann og silunginn, viskuna, húmorinn og kærleikann.
Ég man hvað ég var smeykur við þau, þar sem þau sátu í eldhúsinu, reyktu og drukku kaffi, hlógu hátt og görguðu síðan eins og skarfar þegar þau voru ósammála. Að muna eftir bílferðinni norður 1982, með bát bundinn við þakið á Moskvitz bílnum hans afa og viðvaranir ömmu – þetta gæti orðið okkar hinsta ferð, framundan voru lífshættur: Brattabrekka, Vaðlaheiði, Tjörnesið og Sléttan sjálf þar sem mógrafir leyndust í mýrinni.
Amma og afi birtust á Sléttunni á sama tíma og krían og fóru ekki fyrr en krían var farin. Ég lærði að meta þau meira en flest annað. Teigagerðið, litla rauða húsið þar sem þau biðu af sér veturinn. Amma í pelsinum, í leikhúsinu, með uppsett hárið glæsileg eins og drottning. Amma í rifnum náttkjól í eldhúsinu, með skakkar tær, æðahnúta, tannlaus og tuðandi við hann Jón. Amma sem var hreinskilin og hafði ekkert að fela. Amma og réttlætiskenndin, hún fékk fyrir hjartað þegar kvótakerfið var sett á. Amma sem prjónaði nýtt þak á Teigagerðið. Amma sem var listræn og átti teikningar frá unglingsárum sem sýndu hæfileika, sem hún ræktaði ekki aftur fyrr en 70 árum síðar.
Dísa í Dalakofanum í Draumalandinu. Þegar þau dönsuðu í eldhúsinu, gullhamrarnir hans afa. Engin er jafn falleg og hún Dísa mín. Gallagripurinn hann Jón sem tók leigubíl frá Reykjavík austur á Norðfjörð til að biðja hennar og var mörg ár að borga bílinn. Líf þeirra sem var eins Dalakofinn enda spurði afi stundum: Hvort var þetta eftir mig eða Davíð Stefánsson?: Og meðan blómin anga og sorgir okkar sofa / er sælt að vera fátækur, elsku Dísa mín / og byggja sér í lyngholti lítinn dalakofa / við lindina, sem minnir á bláu augun þín.
Þau voru af gamla skólanum, nýtnin gerði þeim kleift að dvelja á Sléttunni sælusumrin löng, amma setti slátrið í gamlar nælonsokkabuxur þegar vambirnar voru á þrotum. Ég notaði auðvitað ekki tærnar og rassbótina, sagði hún mér til hughreystingar. Amma var glettin og sagðist ætla að ganga aftur ef einhver dirfðist að skrifa minningargrein um hana og tala bara um kleinur og pönnukökur. Þegar ég fyllti Borgarleikhúsið eitt árið var hún í salnum og sagði eftirá: Ég hélt alltaf að þú værir þroskaheftur en nú er ég ekki lengur viss.
Amma var óspör á að minna á að ræturnar fyrir austan. Hún talaði um svartalognið á Norðfirði, hún talaði um ömmu sína sem spann upp sögur úti í hlöðu. Hún talaði um pabba sinn sem skrifaði bréf fyrir franska sjómenn. Hún talaði um fátæktina, hvernig mjólkursopi var eins og að eignast gull og hvernig það var að fara í vist til Akureyrar, átta ára gömul. Hún var hjá góðu fólki en heimþráin fylgdi henni alla ævi.
Við vorum stödd á Melrakkasléttu þegar andlátsfréttin kom. Tuttugu ættingjar sjálfviljugir á sama bletti á hjara veraldar við undirspil kríunnar, með Rauðanúp á sjóndeildahringnum á meðan langömmubörn léku sér frjáls í móanum. Takk fyrir allt – elsku amma.
Bakvísun: Jarvis Cocker og amma – á BBC Radio 4 | Andri Snær Magnason