Mögnuð mynd af Íslandi frá NASA

image06182014_250m

Hér er mögnuð mynd frá NASA af svifþörungum undan Suðurlandi. Þarna eru gresjur hafsins þar sem ljóstillífun skapar undirstöðu lífkeðjunnar og jafnframt undirstöðu fiskveiða á Íslandi. Það er engin tilviljun að þessi mikli blómi á sér stað þar sem jökulfljótin renna í hafið, það má segja að sprenging verði í lífríkinu þegar ferskt jökulvatnið með sínum uppleystu efnum mætir söltum sjónum einmitt þegar sólin skín skærast.

Þeir sem hafa talað um að jökulárnar okkar renni til einskis til sjávar, vannýttar og engum til gagns, hafa ekki heildarmyndina í huga. Þeir hafa ekki ÞESSA MYND í huga. Það má segja að eini tíminn sem vatnsfall eins og Þjórsá rennur raunverulega til einskis sé að vetri til, þegar myrkur grúfir yfir og ljóstillífun er í lágmarki. Að öllu jöfnu ætti stór hluti af rennsli árinnar að skila sér til sjávar á vorin þegar snjóa leysir – en í staðinn er rennsli hennar jafnt mest allt árið. Jón Ólafsson haffræðingur sagði okkur frá þessu í ítarlegu viðtali þegar við kvikmynduðum Draumalandið en umfjöllunarefnið var efni í heila mynd eitt og sér.

Ólafur S. Andrésson líffræðingur ritaði grein árið 1992 um ,,hlaupaþorska“, hvernig hlaup í Skeiðará virðast tengjast stórum þorskárgöngum. Menn hafa einnig bent á hvernig varanlegt hrun varð í þorskstofninum fimm árum eftir að Búrfellsvirkjun var gangsett. Sá sem skoðar þessa mynd ætti í rauninni að ,,sjá“ hvað Ólafur var að tala um. Með réttu ættu sjómenn að hafa miklar áhyggjur af virkjunarröðinni í Þjórsá. Fyrir rafmagn sem upphaflega knúði framleiðslu á 40 þúsund tonnum af áli fórnuðum við hugsanlega milljónum tonna af lífmassa með því að tempra flæði Þjórsár og láta hana ,,gera gagn“.

photo 1

Guðmundur Páll Ólafsson útskýrir þetta samband á afar fallegan hátt hér: ,,Þegar vorið vitjar sjávarins bráðnar klaki og snjór á landi, lækir þrútna og ár hlaupa. Vorflóð eru næringarsturta sjávar. Þau töfra fram þrennt í senn: flytja framburð og uppleyst næringarefni og mynda ferskvatnshimnu ofan á sjónum – og þar sem ferska lagið mætir því salta blómgast þörungalíf og svifdýr tímgast. Þörungar eru æti svifdýra og svifdýrin æti þorskseiðanna en líka loðnuseiða svo dæmi séu tekin af stofnum sem eru í hættu. Samspilið þarf að vera ein allsherjar harmonía á þeirri ögurstund þegar seiðin leita ætis. Þetta samofna lífkerfi lands og sjávar – þar sem Þjórsá er helsta lífæðin – var ekki ofið í gær, heldur hefur viska náttúrunnar tvinnað samhengið – í Íslands milljón ár.”