Maður undir himni

Maður undir himni er bók sem fjallar um trú í ljóðum Ísaks Harðarsonar, en Ísak er eitt af okkar bestu ljóðskáldum. Bókin er hluti af ritröð sem heitir Ung fræði og kom út hjá Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands árið 1999. Hér er brot úr formálanum:

,,Ég ætla að leyfa mér að setja fram dálitla kenningu. Ég skal ekki dæma um hversu sterk hún er eða frumleg og kannski er hún bara samsvörun í bókmenntasögunni en engin kenning. Ég ætla að halda því fram að kristið skáld sem vill yrkja trúarleg ljóð á ofanverðri 20. öld sé í svipaðri aðstöðu gagnvart yrkisefninu og tungumálinu og skáld á mörkum kristni og heiðni á ofanverðri tíundu öld. En til þess að sýna fram á það verð ég að einfalda ákveðna þætti fram úr hófi þegar ég hraðspóla gegnum bókmenntasöguna, ég verð að sleppa mörgu, ýkja annað og misskilja sumt. Ef vel tekst til þá mun ég smíða fallega og sennilega kenningu. Hún verður þá eins og eðlisfræðikenning, falleg í einfaldleik sínum en stenst varla samanburð við raunveruleikann vegna þess að til einföldunar hefur verið gert ráð fyrir því að raunveruleikinn sé óendanlega smá kúla á ljóshraða í tómu rúmi.“

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.