Fyrsta útgefna prósaverk rithöfundarins Andra Snæs Magnasonar var smásagnasafnið Engar smá sögur (1996), en tólf ár eru liðin frá útkomu þess. Sögurnar hafa verið ófáanlegar í búðum í mörg ár en eru núna gefnar út í nýrri útgáfu með nýjum formála eftir Andra Snæ Magnason.
Í Engum smá sögum takast persónurnar á við tilveru sem lýtur óvenjulegum lögmálum. Hér segir meðal annars frá sambúðarvandamálum hafmeyju og sjómanns sem á ekkert vatnsrúm. Einnig frá málvísindamanni sem kemst að því, með ítarlegri rannsókn á viðbrögðum 600 skólabarna, hvort brennt barn forðist eldinn. Heimurinn fer svo á hvolf þegar Guð ákveður að breyta lögmálum mannanna.
Hér eru á ferð einstaklega frumlegar og fyndnar sögur eftir Andra Snæ Magnason, einn hugmyndaríkasta höfund landsins.
Engar smá sögur vöktu verðskuldaða athygli á Andra Snæ þegar þær komu fyrst út. Bækurnar sem fylgdu í kjölfarið –Sagan af bláa hnettinum, LoveStar og Draumalandið – voru allar tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og féllu þau höfundinum tvisvar í skaut en Draumalandið er ein umtalaðasta bók sem komið hefur út á Íslandi.
Mál og menning gefur út.