Andri Snær Magnason er leiðsögumaður í fimmtudagskvöldgöngu á Þingvöllum þann 20.júní. Eitt meginþema göngunnar er þetta hér:
,,Taktu þetta blað og stingdu því ofaní sauðarlegg. Á Jónsmessunótt skaltu fara með legginn og leggjast á gröf Jónasar Hallgrímssonar á Þingvöllum. Ef þér tekst að vera þar heila nótt þar til fyrsta túristarúta morgunsins kemur mun skáldgáfa hans hlotnast þér.“
Þetta textabrot kemur fyrir í ,,Engum smá sögum“ einni af fyrstu bókum Andra Snæs Magnasonar. Sagan fjallar um mann sem leggst á gröf Jónasar í von um skáldgáfu en ýmislegt fer úrskeiðis. Andri Snær mun leiða okkur í ferðalag um Þingvelli, blanda saman sögum úr fortíð og framtíð, lesa úr textum sem hljómuðu sannanlega á Þingvöllum og texta sem aldrei hafa hljómað þar áður.
Andri Snær mun velta upp ýmsum flötum, spegla þá í sínum eigin skáldskap og annarra. Þingvellir eru sameiningartákn þjóðarinnar en þar kristallast líka andstæður okkar, Evrópa og Ameríka, Einar og Jónas, kristni og heiðni, frelsi og kúgun, lög og lögleysa, fegurð og hryllingur. Andri Snær mun fara gegnum þetta svið og feta einstigið milli vits og vitleysu.
Kvöldgangan hefst klukkan 20.00 þann 20. júní við fræðslumiðstöðina við Hakið og eru allir velkomnir.
Frekari upplýsingar um göngurnar í sumar má finna á vef Þingvalla: http://thingvellir.is/1857
Myndina af skáldinu tók Ari Magg.