Mun Bitcoin éta alvöru íkorna í framtíðinni?

Ég er kvótaður í dag í Bloomberg um Bitcoin bóluna. Eins og áður hefur komið fram eru hérlendis einhverskonar Matrix tölvur sem soga í sig alvöru auðlindir og verðmæti til þess að búa til Bitcoin sýndarpeninga sem einhverjir aumingjans innipúkar hafa veðjað á og hríðfalla í verði einmitt núna. Það er ekkert sem réttlætir að einstæðar jarðminjar við Eldvörp eða ósnortin víðerni eins og umhverfi Drangajökuls sé raskað fyrir slíka starfsemi. Ef rétt er í Bloomberg að 100MW af orku fari í Bitcoin námur þá duga þrjár umdeildustu virkjunar framkvæmdir samtímans, Hvalárvirkjun, Svartárvirkjun og virkjun í Eldvörpum ekki fyrir orkunotkun BITCOIN á Íslandi.

Orkugeirinn virðist hafa áttað sig og virðist hafa tekið einn PR fund og nú er Bitcoin orðið einhverskonar æfing fyrir fjórða hagkerfið og margvísleg þekking á að hafa orðið til við þessa sóunarstarfsemi. Miðað við mínar upplýsingar er starfsemin líkari lagerhaldi og allar kröfur og gæði þjónustunnar miklu minni en við annarskonar gagnaver, oftar en ekki hálfopin refabú með einföldu rafmagni og viftum. Enda var hægt að tæma heilt svona refabú án þess að nokkur yrði þess var.

Fjórða hagkerfið hljómar sexí og mun eflaust heyrast meira í ímyndarstríðinu, þegar við spyrjum okkur til hvers þau eru öll þessi gagnaver. Viltu fórna fossunum til að geyma fullt af myndum af fossum? Hvort elskarðu meira, ímyndaða peninga eða alvöru náttúruverðmæti? Gagnaverin verða reyndar horfin eftir 30 ár. Þá verður hægt að geyma öll selfí 21. aldar í einhverjum DNA krukkum. Kannski munu þær borða bjargfugla eða íkorna. Vonandi íkorna, ég myndi sjá eftir súlum og svartfugli í svona rugl.

Ef Hvalá væri hvalur

Ég hef ekki tjáð mig mikið um Hvalárvirkjun. Það er alveg eins hægt að sitja heima hjá sér og horfa á Ground Hog Day á tíu skjám, allan daginn, allan ársins hring. Það er rannsóknarefni hvernig svona mál þróast og hvað orðræðan er stöðnuð. Það sem er kannski sérkennilegast er hvernig þjóð sem er orðin langmesti orkuframleiðandi í heimi er alltaf til í átök og hvernig hitastigið hjá þeim sem vilja virkja er alltaf eins og þeir séu að fá fyrstu ljósaperuna í hús. Það er rannsóknarefni hvað það er auðvelt að rugla saman grunnþörf almennings og braski auðmanna sem eru að selja orkuna í eitthvað kjaftæði eins og bitcoin eða Kísilver í Helguvík. Samtals er orkuþörf Bitcoin og Kísilveranna eins og sex Hvalárvirkjanir (c.a 300MW)

Vandinn er sá að stundum er engu líkara en að þeir sem stýra orkumálum þjóðarinnar nýti sér grunnþörf almennings til að réttlæta almennt brask erlendra auðmanna eins og í tilfelli Hvalárvirkjunar. Við höfum ekki einu sinni rætt hvort við viljum að orkufyrirtæki hér séu í erlendri eigu eða hvort þau eigi bara að taka toll af Íslenskri náttúru án endurgjalds til þjóðarinnar. Það á að fylgja ,,leikreglum“ og fara eftir rammaáætlun, en var hún líka hugsuð fyrir erlent eignarhald án endurgjalds? Eins og ævinlega hefur málinu hefur verið stýrt inn í umræðu um orkuöryggi á Vestfjörðum, til að tryggja víglínurnar. ,,Við“ á móti ,,hinum“. Þannig að ,,við“ er Ítalski landeigandinn, Pétur í Ófeigsfirði, Vestfirðingar, kanadíski eigandi orkufyrirtækisins en ,,þeir“. Það eru ,,náttúruverndarsinnarnir“, c,a rétt tæplega helmingur íbúa Árneshrepps og tveir læknar. Þannig er ítalskur landeigandi og kanadískt fyrirtæki frontað með nafninu ,,Vesturverk“. Ísfirskur talsmaður tryggir að við skynjum málið sem ,,vestfirska“ hagsmuni.

Náttúruverndarsinnar eru í þeirri stöðu að vilja ekki að Vestfirðingar njóti ,,öryggis“. Þannig að ef Hvalá væri Hvalur þá má líkja þessu við að þegar Kristján Loftsson veiðir hundraðasta hvalinn þá sé hann ennþá að því vegna þess að börnin hans eru svo svöng. Ef Vestfirðir búa við ótryggt rafmagn í landi þar sem orkuinnviðir gætu þjónað fimm milljón manna samfélagi, þá er það vegna þess að menn í orkugeiranum hafa vanrækt Vestfirði og hafa haft meiri áhuga á öðrum, ekki vegna skorts á orku. Þannig er meira að segja Bitcoin bólan á undan Vestfirðingum í forgangsröðinni. Þjóð sem íhugar sæstreng til Skotlands mætti alveg æva sig með því að hringtengja Vestfirði fyrst. Það má segja að Kristján hafi vísvitandi svelt börnin sín, vegna þess að svöngu börnin eru forsenda þess að einhverjum finnist vit í því að hann veiði næsta hval. Þannig að miðað við þetta línurit: Já það er fullkomlega hægt að búa til þjóðgarð kringum Drangajökul. Og nei, fegurðin þar er ekki nýlega uppgötvuð, hún er það sérstök að margir velja að fara þangað af öllum stöðum í heiminum á hverju sumri. Ef ég gúggla Pétur í Ófeigsfirði þá sé ég hann oft á myndum með vinum mínum og kunningjum, þar sem hann hefur verið hjálplegur þeim sem hafa farið um þessar einsaklega fallegur slóðir, árum og jafnvel áratugum saman.

Staðan í dag stefnir í að verða einhverskonar harmleikur, þar sem fallegt og viðkvæmt samfélag er svelt og síðan eyðilagt, þar sem allir tapa nema kannski sá erlendi aðili sem mun eiga virkjunina og sá bjáni sem nær að mala gull úr honum gegnum Bitcoin. Það er umhugsunarefni, hvernig svona harmleikur verður til, ekki við skort á rafmagni, heldur ofgnótt.

Allt að gerast í Brazilíu – Tímakistan og LoveStar

Ferill minn er býsna ólínulegur þegar komið er út fyrir landsteina og nú nýlega var LoveStar að koma út í Brazilíu, um það bil 16 árum eftir útkomu bókarinnar hérlendis. Langlífi bóka er auðvitað ákveðið lúxusvandamál fyrir rithöfund og frábært að sjá LoveStar lifa svona ágætu og löngu lífi, nú er hún talsvert borin saman við Black Mirror seríuna og einhver hefur haft á orði að sumt í ákveðnum þáttum þar fari full nærri LoveStar, ég skal ekki meta það. Í Brazilíu fylgir LoveStar fylgir í kjölfar Tímakistunnar sem kom út í fyrra og þar er ég að eignast í fyrsta sinn lesendur sem lesa eina bók og síðan aðra strax í kjölfarið. Tímakistan og LoveStar koma út hjá Morro Branco, sem er vaxandi forlag í Sao Paulo með marga virta og góða höfunda. LoveStar virðist vera einstaklega vel úr garði gerð skv Instagram myndum sem ég hef séð. Ég er ekki enn kominn með eintak í hendurnar. Blái hnötturinn kom út í Brazilíu fyrir nokkrum árum, þannig að nú eru þrjár bækur fáanlegar á Portúgölsku.

Tímakistan hefur fengið fullt af góðum dómum og umsögnum frá lesendum. Þar sýnist mér titillinn hitta vel í mark: A Ilusao do Tempo, eða Tímablekkingin / Sjónverfing tímans. Mjög ljóðrænn og góður titill sem hæfir vel portúgölskunni. Þýðandi tímakistunnar er Suzannah Almeida. Þýðandi LoveStar er Fabio Fernandez hefur komið víða við en meðal höfunda sem hann hefur þýtt eru goðsagnir vísindaskáldsögunnar: Isaac Asimov, Philip K. Dick og William Gibson.

Hér er fullt af fimm stjörnu dómum um Tímakistuna.

Hér er stórt viðtal við mig í einu stærsta dagblaði Brazilíu:

Hér er ritdómur um Tímakistuna:

https://www.correiodocidadao.com.br/noticia/uma-fabula-que-nos-avisa-sobre-o-nosso-futuro-a-ilusao-do-tempo

Annar dómur hér:

http://acervodoleitor.com.br/a-ilusao-do-tempo-resenha/

Og hér er dómur um LoveStar:

http://www.ficcoeshumanas.com/fantasia–ficcao-cientifica/resenha-lovestar-de-andri-snaer-magnasson

Suður Amerískar bókmenntir hafa alltaf haft mikil áhrif á mig og það er mikill heiður að fá góðar móttökur þarna niðurfrá í hjarta töfraraunsæisins.

 

Að byggja mikilvægasta reit borgarinnar

Í tilefni af Hönnunarmars er við hæfi að birta hér svipmyndir úr verkefni sem ég tók þátt í á dögunum en það er tillaga að nýbyggingu á einum mikilvægasta reit borgarinnar. Þessi reitur er gengt Árnarhóli og við hliðina á Hörpu. Höfundar tillögunnar eru BIG Bjarke Ingels Group í Danmörku ásamt Arkíteó, DLD og mér sjálfum. BIG hefur verið að gera magnaða hluti á síðustu árum, áhugaverðar íbúðarbyggingar í Danmörku, höfuðstöðvar LEGO og Google, Dryline varnargarð um Manhattan svo fátt eitt sé nefnt. Því miður bar tillagan ekki sigur úr býtum en ég hafði heilmikla trú á að byggingin myndi bæta nýrri vídd við okkar ágætu höfuðborg. Það eru forréttindi að fá að vinna með svona hæfileikaríkum hópi en tillaga okkar heitir Öndvegi.

ÖNDVEGI

,,Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi.“ – Landnámabók

Reiturinn þar sem höfuðstöðvar Landsbankans munu rísa er ekki hvaða lóð sem er. Hér er um að ræða fjöruborðið þar sem sögur segja að súlur Ingólfs hafi rekið að landi og héðan hafi Ísland byggst. Sú sögulega staðreynd gerir kröfur til byggingarinnar, jafnvel að hægt sé að benda á hana og segja: ,,Frá þessum stað hófst byggð á Íslandi.“ Þá er eins gott að húsið sé sérstakt og fallegt. Það má segja að húsið standi í Öndvegi.

Öndvegi nafnorð hvorugkyn:
– tignarsæti, mesta virðingarsæti
– skipa öndvegi
– vera í mikilvægasta hlutverki

Húsið stendur næst Hörpu sem einnig setur kröfur um gæði í hönnun og áhugaverða hugmyndafræði án þess að keppa við Hörpu eða skyggja á hana. Húsið á síðan að þjóna tilgangi sem lifandi bygging utan um bankastarfsemi í sífelldri þróun og á jarðhæð verða kaffihús, veitingarekstur og verslanir. Önnur krafa er að miðborg Reykjavíkur þarf að hafa aðdráttarafl fyrir heimamenn jafnt sem erlenda ferðamenn, þeir eru orðnir aflvél hagkerfisins og um leið undirstaða bankans að einhverju leyti. Því er tækifæri til að búa til byggingu sem er áhugaverð í sjálfri sér og í rauninni mikilvægt að þarna rísi ekki hvert annað Borgartún.

Við þurfum líka að lesa í andrúmsloftið í samfélaginu, það er viðkvæmt að byggja nærri Hörpu, og sumir telja þrengt að henni með hraðri uppbyggingu í miðbæ Reykjavíkur, að of mikið af gráum og svörtum kössum hafi risið undanfarið, of mikill kuldi.
Það er einnig ástæða til að vanda vel til verka þegar byggt er á þessum reit. Við teljum okkur geta samræmt byggingu sem er hagkvæm en um leið óvenjuleg og áhugaverð, byggingu sem þjónar samfélaginu og færir því aukin gæði, samhliða því að vera eftirsótt bygging fyrir starfsfólk. Við teljum að húsið verði eftirsóttur vinnustaður. Öndvegi verður eitt af eftirsóttari húsum borgarinnar þegar finna á stað fyrir alþjóðlega stofnun, framsækið stórfyrirtæki eða mikilvæga menningarstofnun á næstu árum og áratugum.

Við drögum húsið niður næst Hörpu og í hógværðinni og mýktinni felst reisn hússins. Það dregur sig frá Hörpu en það er samt ekki eftirbátur hennar hönnunarlega séð. Rétt eins og Öndvegi snýst um að lyfta því sem er talið mikilvægast, þá gerir húsið einmitt það. Húsið útilokar ekki almenning, það eykur gæði borgarinnar, lyftir fólkinu og setur það í hásætið uppi á þaki.

Öndvegi: einskonar upphækkun eða hásæti sem snýr að komumanni.

 

Tillaga okkar gengur út á að spegla Arnarhól, að bankinn leggi í rauninni ekki undir sig opið rými og nýti sér í eigin þágu heldur gefi húsið borgarbúum nýtt og óvænt grænt svæði sem dregur að sér fólk og virkni borgaranna. Með því að sveigja húsið og hleypa vegfarendum upp hæðirnar eftir tröðum sem hlykkjast um þakið sem verður fífilbrekka, grasi vaxin, búum við til einskonar Highline fyrir Reykavík. Við búum til nauðsynlegt aðdráttarafl til þess að fólk vilji koma á þetta svæði svo að miðborgin verði sú aflvél sem hún á að vera og Reykjavík festi sig í sessi sem áhugaverð ferðamannaborg. Með því að spegla Arnarhól búum við til einskonar dalverpi fyrir Kalkofnsveg, fífilbrekka sem liggur upp á fimmtu hæð með útsýniskífu gerir fólki kleift að njóta Hörpu en sömuleiðis hönnum við byggingu sem nýtur sín vel frá Hörpu séð.

Byggingin tekur mið af landslaginu, eins og eyjarnar á Faxaflóa með klettabeltum umkringd grænu grasi, þannig skapar byggingin græna línu frá Arnarhóli með snertingu við Þúfu hinum megin hafnarinnar. Þannig mýkjum við ásýnd miðbogarinnar, endurvekjum græna litinn og búum til áhugaverðar gönguleiðir upp á þak en líka áfram út í höfnina. Einnig tryggjum við líf á svæðinu fyrir fólk á rómantískri kvöldgöngu en viðskiptahverfi eiga það til að missa aðdráttaraflið eftir klukkan fjögur á daginn. Það er mikilvægt fyrir kaffihúsin og verslunarrýmin að húsið sé lifandi fram á kvöld.

Verslunargatan er bein og hefðbundin verslunargata, inngangur bankans er þar sem við teljum að meginstraumur verslunar og þjónustu muni liggja en fyrst og fremst viljum við skapa hús sem vefur sig inn í daglegt líf borgarbúa, verði í áfangastaður sem styður við nærliggjandi byggingar og umhverfi, að húsið verði í senn kennileiti, jafnvel innblástur fyrir þá sem ætla að byggja og skapa borgina á næstu árum og áratugum.

öndvegi hk
setja <málið; > í öndvegi
setjast í öndvegi
sitja í öndvegi
skipa öndvegi
vera í öndvegi
<bókmenntir> skipa öndvegi <í menningu þjóðarinnar>
<þessi listgrein> skipar öndvegi

  

Bónusljóð 44% meira

Bónusljóð hafa verið ófáanleg um langt skeið en nú eru þau loksins komin út í endurbættri útgáfu, 44% fleiri ljóð en í upphaflegu útgáfunni.

Bónusljóð lýsa guðdómlega gleðilegu ferðalagi gegnum undraheim Bónusverslunar sem er skipt eins og Guðdómlega Gleðilleiknum eftir Dante. Við byrjum í Paradíso, grænmetisdeildinni, förum í Inferno, Kjötvörurnar og endum í Purgatorio, hreinlætisvörunum.

Bónusljóð hafa átt óvæntu fylgi að fagna erlendis, hún er til dæmis metsölubók í Færeyjum en Sanna Andrassardottir Dahl þýddi hana fyrir Unga Föroyar. 

Walter Rosselli þýddi bókina fyrir Nottetempo og franska útgáfan var einnig þýdd af Walter og kom út hjá Editions d’en Bas á frönsku.

Þýska útgáfan var þýdd af Tinu Flecken og gefin út hjá  Orange Press

Ensku útgáfuna þýddi Elísabet Jóhannesdóttir og Forlagið sér um útgáfu og dreifingu ásamt Bónus.

Hér er myndband sem ég gerði fyrir ensku útgáfuna: