Um tímann og vatnið – aukasýningar í Borgarleikhúsinu 12. og 26. nóv.

Nú eru nokkrar vikur síðan bók mín Um tímann og vatnið kom út og viðtökur hafa verið vonum framar. Sýningarnar í Borgarleikhúsinu hafa gengið fyrir fullu húsi og einnig sýningin í Hofi á Akureyri.

Aukasýningum hefur verið bætt við, það er óðum að fyllast á sýninguna 12. nóvember og 26. nóvember er komin á sölu. Með mér á sviðinu allt kvöldið er Högni Egilsson, með víólu, píanó og dularfulla módular syntha græju. Hann bjó sérstaklega til tvö kórverk fyrir sýninguna sem Kór Kársnesskóla flytur.

Um tímann og vatnið er sögustund þar sem ég spinn sögur úr fortíð og framtíð og vef inn í frásögnina ljósmyndum og kvikmyndum og nokkrum skelfilegum línuritum. Viðbrögð áhorfenda hafa verið sterk og góð. Sýningin tengir saman kynslóðir, elstu áhorfendur hafa verið 95 ára og þeir yngstu um 11 ára og ég hvet fólk til að taka ungt og hugsandi fólk með sér og unga fólkið til að grípa með sér eldri frændur sem myndu kannski ekki drífa sig sjálfviljugir.

Hér er hlekkur á sýninguna á vef Borgarleikhússins þar sem nálgast má miða. 

Frekari upplýsingar eru hér:

Á næstu 100 árum mun jörðin okkar fara í gegnum breytingar sem eru stærri en tungumál okkar og myndhverfingar geta höndlað. Þessar yfirvofandi ummyndanir sprengja í raun skynjun okkar svo við heyrum bara eitthvað hvítt suð. Andri Snær Magnason ætlar að hjálpa okkur að sjá gegnum suðið og skilja stærðirnar með því að blanda saman persónulegum sögum, vísindum, minningum og hugmyndum um framtíðina. Þannig vefur hann fyrir okkur söguþráð sem er í senn ævintýralegur, alvarlegur og kannski með vonarglætu í lokin. Búðu þig undir ferðalag upp á Vatnajökul, þar sem við hittum Robert Oppenheimer, höfund kjarnorkusprengjunnar, leitum að uppruna lífsins og heyrum um frændann sem endurholdgaðist sem forsögulegur krókódíll áður en við förum á fund hjá heilögum manni sem lumar á svarinu við spurningunni um tilgang lífsins.

Fram koma Andri Snær Magnason, Högni Egilsson og skólakór Kársnesskóla.

Björn Þorbjarnarson – minningarorð í New York Times

Björn Thorbjarnarson afi minn er látinn 98 ára gamall. Hann lést í svefni og var andlega hress fram á síðasta dag. Björn var einn fremsti skurðlæknir á heims á sínu sviði og komst í sviðsljós heimsmiðlanna þegar hann skar upp Íranskeisara árið 1979. Hér er minningargrein um hann í New York Times, talsverð umfjöllun um dauða Andy Warhol sem lést eftir aðgerð sem afi framkvæmdi. Fjölmiðlar sögðu þetta hafa verið rútínuaðgerð en rannsóknir leiddu í ljós að veikindi hans voru mun alvarlegri en áður var greint frá.

Það var alltaf ævintýralegt að heimsækja afa, Peggy og fjölskyldu þeirra í stóra hvíta húsið í New Jersey enda áttu þau sundlaug og John frændi minn var með kyrkislöngu og krókódíl í svefnherberginu sínu. Þrátt fyrir fjarlægð náði ég að heimsækja hann alloft í seinni tíð. Ég hitti hann fyrir þremur vikum á heimili hans og Margaret Thorbjarnarson eiginkonu hans í New Jersey. Hann var fótfúinn en stálminnugur og við náðum að spjalla um heima og geima í nokkra klukkutíma. Ég náði að sýna honum bókina mína á tölvuskjá, en Björn afi, Arndís systir hans og John Thorbjarnarson sonur hans spila stórt hlutverk í henni. Afi lést á útgáfudegi bókarinnar þann 4. október. 

Morgunblaðið birti eftirfarandi minningarorð um afa:

Björn Þor­bjarn­ar­son, fyrr­ver­andi skurðlækn­ir í New York, er lát­inn 98 ára að aldri. Björn var yf­ir­lækn­ir á New York-sjúkra­hús­inu og naut viður­kenn­ing­ar fyr­ir rann­sókn­ir sín­ar, kennslu og lækn­is­störf á langri starfsævi.

Björn komst í hringiðu heimsviðburða árið 1979 þegar hann skar upp Mohammad Reza Pahlavi Íran­skeis­ara sem þá var í út­legð í Banda­ríkj­un­um. Meðal annarra sjúk­linga Björns voru eðlis­fræðing­ur­inn J. Robert Opp­en­heimer og listamaður­inn Andy War­hol.

Björn fædd­ist á Bíldu­dal 9. júlí 1921. For­eldr­ar hans voru Þor­björn Þórðar­son, lækn­ir á Bíldu­dal og Guðrún Páls­dótt­ir, hús­freyja á Bíldu­dal. Björn var næstyngst­ur af sjö systkin­um, en þau voru Páll alþing­ismaður og út­gerðar­eig­andi í Vest­manna­eyj­um, Þórður, for­stjóri Fiski­stofu, Arn­dís, hús­freyja og hrepps­nefnd­ar­kona á Sel­fossi, er eitt sinn var barn­fóstra fyr­ir J.R.R. Tolkien, höf­und Hringa­drótt­ins­sögu, Sverr­ir, for­stjóri Trygg­inga­stofn­un­ar rík­is­ins, Guðrún, hús­freyja í Reykja­vík og Krist­ín, hús­freyja og próf­arka­les­ari í Reykja­vík. Eru systkin­in nú öll lát­in.

Björn varð stúd­ent frá MA 1940 og cand. med. frá HÍ 1947. Hann starfaði sem aðstoðarlækn­ir hjá héraðslækn­in­um í Pat­reks­fjarðar­héraði sum­arið 1947 og kandí­dat frá Fjórðungs­sjúkra­hús­inu á Ak­ur­eyri 1948 en þaðan hélt hann til Banda­ríkj­anna. Björn lauk sér­fræðiprófi í skurðlækn­ing­um 1954 og fékk al­mennt lækn­inga­leyfi í New York-ríki 1955. Hann var pró­fess­or hand­lækn­inga­deild­ar á New York Hospital, Cornell Uni­versity Medical Center frá 1968 til starfs­loka. Björn ritaði fjöl­marg­ar grein­ar í er­lend lækna­rit einn eða með öðrum og á átti þátt í þróun skurðlækn­inga á þess­um árum.

Barn­s­móðir Björns af fyrra sam­bandi er Hulda Guðrún Fil­ipp­us­dótt­ir. Dæt­ur þeirra eru tví­bura­syst­urn­ar Krist­ín og Guðrún, f. 12. sept­em­ber 1946. Í Banda­ríkj­un­um gekk Björn að eiga Marga­ret Thor­bjarn­ar­son (f. 1928). Þau eignuðust John Björn dýra­fræðing (f. 1957 d. 2010), Kat­hryn Wilmu jarðfræðing (f. 1959), Paul Stew­art tón­list­ar­mann og tölvu­for­rit­ara (f. 1960, d.1996) og Lisu Anne (f. 1964) bók­mennta­fræðing. Björn læt­ur eft­ir sig 11 barna­börn og 20 barna­barna­börn.

Um tímann og vatnið – komin út

Eftir mikla rannsóknarvinnu og skrif er bókin mín loksins komin út – Um tímann og vatnið heitir hún. Ég verð einnig með viðburði í Borgarleikhúsinu í tengslum við útgáfuna. Frumsýning var 8. október, önnur sýning 22. október, Hofi Akureyri þann 29. október og 12. nóvember aftur í Borgarleikhúsinu.

Á næstu hundrað árum verða grundvallarbreytingar á eðli vatns á jörðinni. Jöklar munu bráðna, yfirborð hafsins rísa og sýrustig þess breytast meira en sést hefur í 50 milljón ár. Breytingarnar snerta allt líf á jörðinni, alla sem við þekkjum og alla sem við elskum. Þær eru flóknari en flest það sem hugurinn er vanur að fást við, stærri en öll fyrri reynsla okkar, stærri en tungumálið. Hvaða orð ná utan um málefni af þeirri stærðargráðu?

Í tilraun sinni til að fanga þetta víðfeðma málefni leyfir Andri Snær Magnason sér að vera bæði persónulegur og vísindalegur – fléttar sér leið að loftslagsvísindunum með ævafornum goðsögnum um heilagar kýr, sögum af forfeðrum og ættingjum og viðtölum við Dalai Lama. Útkoman verður frásögn sem er ferðasaga, heimssaga og áminning um að lifa í sátt við komandi kynslóðir.

Andri Snær braut blað í umræðunni um íslenska náttúru með bók sinni Draumalandið. Hér gerir hann atlögu að loftslagsmálunum, stærsta viðfangsefni sem jarðarbúar hafa staðið sameinaðir frammi fyrir.

 

 

Að minnka losun Íslands um 50% á 10 árum

Það er óhætt að segja að þeir sem fygljast með fréttum af loftslagsmálum séu fljótir að þróa með sér samviskubit og jafnvel sjálfshatur eins og margir upplifðu þegar þeir sáu þessa frétt. Ég lifi sjálfur í þessari þversögn, flýg til útlanda oft á ári vegna útgáfu verka minna og held fyrirlestra sem fjalla meðal annars um bráðnun jökla og framtíð jarðar. Það er erfitt að sjá einhverjar raunverulegar breytingar eiga sér stað, framfarir eða vonarglætur og sífellt koma fram alvarlegri afleiðingar og ógnvekjandi spár.

Það getur verið erfitt að fóta sig í þessum loftslagsfræðum og loftslagsfræðingar virðast ekki beinlínis hafa fengið skáldgáfu í vöggugjöf þegar sviðsmyndir IPCC heita SSP1 og SSP2 og línuritin segja manni að eitthvað sé án LULUCF. Maður hrökklast auðveldlega burt og lætur sérfræðingum eftir að ræða þetta, miðla og skilja.

Markmiðin sem eru sett fram í nýjustu skýrslu vísindanefndar sameinuðu þjóðanna virðast nánast fáránleg og óframkvæmanleg. Samkvæmt henni á mannkynið að hafa hætt losun á CO2 árið 2050 og eftir þann tíma á jákvæð binding CO2 að verða smám saman jafn mikil og losunin er núna. Semsagt, við eigum að binda meira en við losum, við eigum að spóla til baka öllum okkar hringvegum, utanlandsferðum og rúntum unglingsáranna. Vandinn er sá að ef við náum ekki þessum markmiðum mun mannkynið og jörðin öll ganga gegnum langan lista af hörmungum, súrnun sjávar, þurrka, uppskerubrest, skógarelda, eyðimerkumyndun, flóttamannastraum osfrv…

Á kvöldi sem ég stóð fyrir í Hannesarholti var fjallað um tímann og loftslagið. Þar ákvað ég að prófa að leggja áherslu á vonina eftir nokkuð þynglyndislegar spár um framtíð hafsins og jöklanna. Mig langaði að heyra um lausnir, en við þurfum semsagt að binda meira en við losum. Það er nánast f´áránlegtilhugsun eins og staðan er í dag. En ef við horfum á losun Íslands þá er hún nærri fimm milljónum tonna af CO2 árlega. 

En er svo fáránlegt að koma Íslandi nærri núlli í losun á CO2? Ef við lítum nánar á tölurnar þá losar bílaumferð c.a milljón tonn árlega hérlendis. Það er nú þegar komin fram tækni til að rafbílavæða samgönguflotann og eftir 20 ár verður fyrirbærið bensínstöð álíka framandi fyrirbæri og sjoppa eða vídeóleiga.

Ef við lítum síðan enn nánar á tölurnar má sjá að álverin þrjú, Alcoa, Rio Tinto og Century losa álíka mikið og bílaflotinn og flugið til samans og nú virðist komin fram tækni til að koma þeirri losun niður í núll.

Í Hannesarholti var Dr. Sandra Snæbjörnsdóttir með erindi en hún hefur verið hluti af CarbFix teyminu uppi á Hellisheiði. Þau hafa staðið fyrir tilraunaverkefni sem hefur tekist framar vonum og nú eru þau farin að binda um 10.000 tonn árlega af losun Hellisheiðarvirkjunar og megnið af brennisteinsvetninu sem verksmiðjan losaði. Aðferðin er tiltölulega einföld, í rauninni er hér um að ræða hálfgert Soda Stream. CO2 er blandað við vatn og sódavatninu er dælt ofan í jörðina og þar verða efnahvörf þar sem lofttegundin breytist í silfurberg en með brennisteininum verður til glópagull.

Nú hafa þau gefið út vísindagrein þar sem kostnaður við að losna við hvert tonn af CO2 er c.a 25 dollarar tonnið. Þetta verð miðast við tækni sem er rétt að komast af þróunarstigi og er í eðli sínu alls ekki flókin þannig að verðið ætti að lækka talsvert ennþá. Tæknin felur ekki í sér flókin aukaefni heldur er einfaldlega verið að vinna með náttúrulegum ferlum.

Álverin og kísilverin á Íslandi losa um 1.8 milljón tonn á ári og eru þannig langstærsti einstaki mengunarvaldur á Íslandi. Þannig að ef CarbFix virkar eins og það virðist gera væri hægt að minnka losun frá Íslandi, sem nemur öllu flugi og allri bílaumferð á örfáum árum með því að koma böndum á álverin. 

Samtals, miðað við núverandi tækni blasir við að á næstu árum ætti að vera hægt að minnka losun Íslands um að minnsta kosti 50% og það væri alls ekki dýrt, heldur þvert á móti, af því yrði mikill hagur.

Tonnið á áli er á heimsmarkaði um 2000 dollarar tonnið. Þannig að kostnaður við að binda CO2 frá álverunum ætti ekki að vera meiri en 4 – 5 milljarðar árlega -eða c.a 1-2% af álverði. Það er minna en meðalsveifla á álverði milli mánaða. Ef heimsmarkaðurinn er ekki tilbúinn að greiða 1% hærra verð frá verksmiðju sem er án CO2 losunar – þá yrði það einfaldlega til merkis um gagnsleysi markaðarins þegar kemur að mikilvægum málefnum.

Ég tek auðvitað ekki ábyrgð á nýrri tækni en þetta er kjörið efni fyrir fjölmiðla og stjórnmálamenn að fylgja eftir. Væri raunhæft að nota Carbfix tæknina og núlla út álverin á nokkrum árum? Hérlendis eru ungir vísindamenn og konur sem geta og kunna að leysa þetta vandamál. Ef tæknin er talin örugg og öll aðstaða er fyrir hendi er ekki eftir neinu að bíða. Þá er heldur engin ástæða til að bíða eftir markaðnum, ef þetta gerist ekki nógu hratt má setja skatt eða lög. 

Síðan má fljúga sjaldnar og betur og kolefnisjafn flugið sitt með því að styrkja sjóði eins og Auðlind sem stuðlar að endurheimt votlendis og Yrkju en gegnum hann hafa grunnskólabörn bundið tugþúsundir tonna af CO2 á síðustu þrjátíu árum.

Og þegar það er komið þarf að taka á landbúnaðnum, skipunum, matarvenjum, neyslu og úrgangi. Þannig að ef við horfum bara á Ísland, þá er full ástæða til bjartsýni um að hægt verði að ná talsverðum hluta af þessum markmiðum.

Tíminn og vatnið – fyrsti viðburður er 2. október

Í haust verð ég með þríleik í Hannesarholti byggðan á verki sem ég er með í vinnslu og má segja að fjalli um ,,Tímann og vatnið“. Á þessari öld spá vísindamenn grundvallarbreytingum á eðli vatnsins á jörðinni. Jöklar bráðnar hraðar en dæmi eru um, hafsborðið rís og hafið súrnar hraðar en sést hefur í 30 milljón ár og veðrakerfi raskast með tilflutningi á regni og grunnvatni. 100 ár eru fyrir okkur eins og órafjarlæg framtíð en ef maður talar við 100 ára gamla manneskju voru hundrað ár undrafljót að líða.

Fyrsta kvöldið er 2. október og fjallar um Tímann ogísinn þar sem Helgi Bjornsson miðlar af sinni visku og Árni Heiðar Karlsson leikur af fingrum fram. Þann 25. október verður fjallað um ,,Tímann og hafið“ en Hrönn Egilsdóttir sjávarlíffræðingur verður með mér og Jónas Sigurðsson tónlistarmaður. Hið þriðja verður 8 nóvember og fjallar um tímann og andrúmsloftið en Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir verður með mér þar og Svavar Knútur. Hvert kvöld er sjálfstætt en þau mynda þó eina heild. Væri gaman að sjá sem flesta. 

nánari uppl´ýsingar hér:

http://www.hannesarholt.is/vidburdir/vidburdir/audur-islands-timinn-og-vatnid